Sæl frænka

Sæl frænka Ég er enn að melta þetta samtal okkar síðasta mánudagskvöld og verð að segia að ég er verulega slegin. Það veldur mér vonbrigðum hvað þú ert neikvæð gagnvart frekari barnabarnamótum því að ég hef litið svo á að þetta væri tækifæri fyrir okkur til að koma saman á jákvæðum nótum, ekki veitir okkur af.

 

Þú nefndir að ég talaði ekki við systkini mín, eins og ég hafi bara tekið upp á því upp úr þurru. Þú veist nú betur en það. Systkini mín eru jafn velkomin heim til mín og aðrir en ef þú hefur lesið bloggið mitt þá veistu að hlutirnir hafa ekki gengið snurðulaust í gegnum tíðina. www.bidda.blog.is

 

Og talandi um bloggið. Ég var búin að reyna árum og áratugum saman að ræða við þetta fólk án árangurs. Ég tel mig ekki vera að tala illa um neinn. En ég segi mínar skoðanir sem eru ályktanir dregnar af því sem ég sé og heyri. Semsagt eingöngu mín upplifun, svo mega aðrir hafa sínar skoðanir. En það er langur vegur frá því að tala illa um fólk. Það verður þá allavega að færa rök fyrir því og koma með dæmi, þá getum við tekið spjallið þaðan.

 

Þetta var lærdómsríkt samtal sem við áttum því að það minnti mig á það viðmót sem ég hef gjarnan fengið hjá ættinni í gegnum tíðina. Ég var næstum búin að gleyma því og þetta samtal við þig hreinlega grætti mig því að ég var farin að trúa því að ég ætti betra skilið en þennan kulda og yfirlæti.

 

Þú sem hefur þekkt mig alla mína ævi, þú veist að ég varð fyrir miklu ofbeldi sem barn. Eineltið var slæmt í skólanum en ekkert á við það sem viðgekkst heima hjá mér þar sem elsta systir mín bæði gekk í skrokk á mér og beitti mig miklu andlegu ofbeldi og hrakti mig jafnvel að heiman svo að ég hafði engan stað í tilverunni. Hún var minn mesti gerandi og hafði til þess fullan stuðning frá pabba okkar sem var aumingi en samt svo ógnandi. Þessi systir mín er ennþá sami gerandinn þrátt fyrir að vera komin yfir sextugt.

 

Ég trúði því að ástandið myndi lagast þegar ég yrði fullorðin og sérstaklega þegar ég kynntist Al-Anon þegar ég var komin yfir þrítugt, það setti hlutina virkilega í samhengi því að þá skildi ég að ég hafði alist upp við alkóhólisma og einelti. Fram að því hafði ég trúað því að það væri eitthvað mikið að mér en þarna gat ég farið að nýta mér 12 sporin til að vaxa og þroskast og því hef ég haldið áfram síðan.

 

En þetta var ekki nóg fyrir systkini mín sem hafa viljað hanga á því að það sé eitthvað að mér. Þeim líður víst eitthvað betur með það en það er ekki hjálplegt. Á þeim forsendum hafa þau réttlætt hluti eins og þegar fertugsafmælinu mínu var stolið, sem hafði virkilega eyðileggjandi áhrif á öll okkar samskipti. Ég vildi bara fá afsökunarbeiðni, það hefði klárað málið strax. Það segir stóra sögu að það var ekki gert.

 

Veistu hvernig mér leið á þessum tíma? Það tók mig hátt í áratug að vinna mig út úr þessu áfalli, að læra að ég kallaði þetta ekki yfir mig og það mátti einfaldlega ekki koma svona fram við mig. Frænka okkar var eitt, en það voru systkini mín sem hömruðu sífellt á því að ég ætti ekki að vera svona viðkvæm, það væri greinilega eitthvað að mér fyrst ég tæki þessu svona illa. Ekki í fyrsta sinn, ég var búin að velta því fyrir mér frá fæðingu hvað væri eiginlega að mér, af hverju fólk kæmi svona fram við mig. Að systkini mín tóku afstöðu með gerandanum tók alveg steininn úr og særði mig meir en allt annað. Kannski hefði einhver sterkari en ég ekki tekið þetta svona nærri sér en ég var bara því miður brotin fyrir.

 

Þér finnst ekki merkilegt þetta líf sem ég lifi hér á Vesturlandinu. En það er nú samt svo að hér er ég í fyrsta skipti alveg laus við einelti, að undanteknu þessu tímabili á Hlemmi sem útvarpsþátturinn minn https://www.ruv.is/utvarp/spila/a-hlemmi-tilheyrdi-eg/35725/akmcuh fjallar um, þar sem ég mætti svo miklum kærleik á svo óvæntum stað.

 

Hér á Vesturlandi er ég orðin hluti af samfélagi þar sem ég er jafningi hvers sem er, þar sem ég leik á sviði, syng í tveimur kórum, rek félagsheimili og hef stofnað fyrirtæki um mína eigin hönnun. Og svo er ég í kvenfélaginu líka. Ég fæ oft að heyra að ég sé hlý og gefandi, kærleiksrík og umhyggjusöm og umfram allt skemmtileg manneskja sem fólk nýtur þess að umgangast, ég jafnvel trúi því stundum sjálf. Ég er meira að segja búin að vera í viðtali í Skessuhorni, ég þyki það áhugaverð. En mikið óskaplega tekur það mig sárt að fá ekki að vera hluti af minni eigin fjölskyldu, mér líður oft eins og ég sé ein á berangri.

 

Mig grunar að þér finnist að þér komi þetta ekki við. En það hindrar þig ekki í að fella sleggjudóma. Þú ættir kannski að velta því fyrir þér hvernig þú fórst að því að komast á sjötugsaldur án þess að þurfa nokkurn tímann að velta því fyrir þér hvernig öðru fólki líður. Hversu lokaður er heimurinn þinn? Þú ert búin að vera vitni að öllu þessu ógeði í gegnum árin án þess að taka nokkurn tímann afstöðu, og það að taka ekki afstöðu er einmitt að taka afstöðu, með gerandanum.

 

Þú veist þá allavega núna að systir mín tók það upp hjá sjálfri sér að tilkynna mér að ég væri rekin úr saumaklúbbi ættarinnar, hún laug því að þið hefðuð ákveðið þetta í sameiningu. Svo að þú getur sleppt því að móðgast við mig vegna þess. Þetta særði mig á sínum tíma en hefur með tímanum orðið að brandara, því að hvernig er hægt að hlæja ekki að þessu?

 

Ef þú hefur lesið meistararitgerðina mína í Skemmunni, http://hdl.handle.net/1946/44210, þá veistu hvernig ég hef alla tíð barist við að reyna að finna mér stað og fá að tilheyra. Og þá veistu líka hvaða áhrif það hefur að vera svikin um það. Skjólið sem ég hef í dag hefur veitt mér tækifæri til að skoða þetta af raunsæi. Og það var ekki ég sem átti hugmyndina að því að gera þetta að meistaraverkefni, ekki heldur að hafa sjálfa mig sem miðpunkt. En mikið sem ég er þakklát fyrir það.

 

Við komum úr fjölskyldu sem er markeruð af ofbeldi. Afi okkar var barnaníðingur og allir hans afkomendur eru merktir af því, bæði þau sem urðu fyrir honum beint og þau sem urðu óbeint fyrir áhrifum af gerðum hans. Ég þarf ekki að fara nánar út í það, þú veist hvað ég er að tala um.

 

Fjölskyldur eins og okkar þekkjast á dómhörku og reiði ásamt algerri blindu á eigin tilfinningar. Það þýðir að við förum á mis við ákveðinn húmor og hlýju, við getum ekki gert grín að okkur sjálfum en hlæjum því meira á kostnað náungans. Það er of mikið búið að hlæja á minn kostnað í gegnum tíðina svo að sá húmor hentar mér ekki, ég vissi það meira að segja þegar ég var 17 ára á Hlemmi því að ég skynjaði grimmdina í því.

 

Fólk af okkar sauðahúsi finnur sér stað í tilverunni þar sem það getur drottnað yfir öðrum og spilað sig merkilegra en annað fólk, enda ófært um jafningjasamskipti. Ég hef grun um að þú eigir ekki auðvelt með jafningjasamskipti en það er bara mín tilfinning, dregin af þeirri staðreynd að við höfum aldrei verið jafningjar.

 

Þegar einhver eins og ég stígur fram verður yfirleitt allt vitlaust því að það neyðir ykkur öll til að hugsa málin upp á nýtt. Þið þurfið hreinlega að skoða öll ykkar viðhorf og það er flestum mjög erfitt. Það er alltaf þægilegast að stinga höfðinu í sandinn og látast hvorki heyra né sjá. Og útmála mig sem einhvern aumingja sem er hægt að hreyta í.

 

En það má líka líta á það sem hreinsunareld, tækifæri til að losa sig við gamlan sársauka og lifa upp á nýtt. Því meir sem streist er á móti, því verra verður það. Á þeim 30 árum sem eru liðin síðan ég kynntist Al-Anon og byrjaði að rumska af andlegum dvala, því grimmari og ófyrirleitnari hafa systkini mín orðið, enda styðja þau hvert annað eins og trumpistar. Ég er ekki viss um að þau hefðu neitt til að tala um ef þau hefðu ekki mig, andstaðan við mig er límið sem heldur þeim saman.

 

En ég hélt að stórfjölskyldan væri skárri. En auðvitað komum við öll úr sama súpupottinum. Ég var víst bara í einhverjum draumaheimi þegar ég hélt að ég gæti boðið ykkur heim í kaffi og kleinur, gítar og grill. Og allir væru glaðir.

 

Ég get þó allavega sagt að ég hafi reynt. Kannski er það rétt hjá þér að héðan af munum við eingöngu hittast í jarðarförum. Ég vona samt ekki.


Sextugur meistari

Ég var dálítið búin að kvíða fyrir þessu ári. Ég var búin að búa mig undir það í huganum hvernig ég ætlaði að mæta því að verða sextug. En svo var það ekkert mál. Enda hef ég erft það frá móður minni að aldur er hreint aukaatriði.

Ég lét sauma á mig kjól og hóaði í tvær vinkonur og saman áttum við geggjaðan dag. Fyrst var það dúllerí á snyrtistofu, svo út að borða og loks í karókí sem var algerlega sturlað. Algerlega stuðningurinn sem ég þurfti til að takast á við þessi tímamót.

Svo var það hitt verkefnið, að útskrifast sem meistari. Það tók miklu meira á því að ég fór algerlega á dýptina. Það var ekki mín hugmynd heldur leiðbeinandans, þessi fókus á mína eigin persónulegu sögu. En það var gott. Vegna þess að ég er búin að vera að kafa í þetta efni nánast alla mína ævi. Að gera upp eineltið, að skoða hvaðan það kom, að skoða manneskjuna sem dýrategund.

Það er nefnilega miklu dýpra en við höldum, þetta sem gerir að verkum að við hópum okkur saman og útilokum þá sem okkur finnst ógna okkur. Til að meðtaka fólk þurfum við að nota framheilann, yngsta hluta heilans, þennan hluta sem lætur okkur vega og meta það sem við sjáum og heyrum. Er þessi einstaklingur í raun ógnandi? Gæti hann orðið vinur minn ef ég kem vel fram við hann?

Við sem söfnuðumst saman á Hlemmi árið 1980 þurftum öll að takast á við þetta, að hafa verið úthýst úr okkar samfélögum og þurfa að búa til okkar eigin. Sum flutu, önnur sukku. Enda erum við hópdýr og þolum ekki öll að vera yfirgefin.

Það var mjög gott að ljúka þessu námi en afskaplega skrýtið að vera ekki í neinu námi, ég er ekki viss um að ég þoli það til lengdar.

En ég lýk allavega árinu 2023 sem sextugur meistari í hagnýtri menningarmiðlun. Ég ætla að elda mér góðan mat á gamlárskvöld, horfa svo á skaupið og hafa það notalegt, ein í holunni minni. Ég nenni engum flugeldum, legg frekar inn á björgunarsveitirnar. Svo bíða mín eflaust einhver ævintýri á árinu 2024.

Ég var eitthvað að hafa áhyggjur af því að vera ekki í neinu námi. En auðvitað er ég í námi. Barnabólið mitt er þátttakandi í Vesturbrú og það verða verkefni allan janúarmánuð þar sem ég læri að reka fyrirtæki, því lýkur með hvelli í Reykholti þann 1. febrúar. Nú þegar meistaranámið er frá þá fá vöggusettin loksins að eiga sviðið ein, hvað skyldi koma út úr því?

Sextugar kerlingar hafa þau forréttindi að það er enginn að pæla í þeim. Við erum almennt ekki lengur með þennan tiltekna sexappíl og erum lausar við útlitskröfur, við erum komnar úr barneign og getum almennt gert það sem okkur sýnist. Það er mitt nýja mottó. Og ég ætla að hafa gaman.

Hér er meistararitgerðin:https://skemman.is/handle/1946/44210 Og miðlunarhlutinn: https://www.ruv.is/utvarp/spila/a-hlemmi-tilheyrdi-eg/35725/akmcuh Ég vildi geta sett almennilega tengla en það verður þá bara að kópera slóðirnar, sorrý með mig, ég er sextug kerling!


Ofbeldissambandið

Þetta blogg er ekki um systkini mín, aldrei þessu vant. Ekki nema þá óbeint, þetta hangir allt saman einhvern veginn. Nei, ég var að lesa pistil eftir Björn Þorláksson og fyrirsögnin kemur þaðan.

 

Hann fjallar um ofbeldissambandið sem þjóðin er í, þar sem fáir maka krókinn á kostnað allra hinna. Atgervisflóttann sem verður þegar fólk nær ekki að koma sér upp þaki yfir höfuðið, þar sem lánin hækka þegar borgað er af þeim. Þrátt fyrir að við tilheyrum einu ríkasta landi í heimi. Við sjáum alltof oft fréttir af heilbrigðisstarfsfólki sem þarf að hlaupa sífellt hraðar, sem af og til endar með dauðsföllum. Þegar sjúklingar eru útskrifaðir of fljótt og finnast dánir skömmu síðar. Eða þegar útbrunninn starfsmaður með heilaþoku gerir eitthvað sem verður að dómsmáli. Sem hefði ekki gerst ef viðkomandi hefði ekki neyðst til að vinna 19 vaktir á 16 dögum eins og nýlega kom í ljós.

 

Og þá er allt hitt ótalið. Lagaleysið sem leyfir eldislaxi að rústa laxveiðiánum okkar, allt unnið á sínum tíma af ráðherra Samherja, sem ekki má nefna af því að hann er kominn á eftirlaun. Nei, ég fer ekki lengra út í þetta, ég get það bara ekki. Æl. Og við sem eigum nýja stjórnarskrá!

 

Pistillinn hans Björns, ég set hann inn hér á eftir og ætla ekki að endursegja hann.

 

Ég er í svo miklum hugleiðingum. Ég er búin að vera svo reið í svo langan tíma að ég ræð ekki við mig. En  hvað er til ráða? Nú loks er sumarið komið og þá fyllist allt af ferðavögnum. Út um allt land er fólk að skoða allt milli himins og jarðar en hér sit ég og á ekki eyri. Eitt sumarið enn. Og mér finnst það svo skammarlegt. Er ég ekki eitthvað misheppnuð ef ég get ekki einu sinni tekið mér sumarfrí og gert eitthvað, nú þegar ég er orðin sextug?

 

Ég hef unnið verkamannavinnu alla tíð. Ég er reyndar með tvær háskólagráður en þær eru nýlegar. Og þær eru líka í greinum sem eru ekki þekktar fyrir að gefa há laun. Aulinn ég.

 

Nei, ég hef unnið við skúringar, umönnun, í verksmiðju og í frystihúsi. Það voru þau störf sem ég átti kost á með enga menntun. Samtímis var ég í kvöldskóla en það var fyrst og fremst fyrir geðheilsuna, ég naut þess svo innilega að læra og geta verið ég sjálf.

 

Og hér verð ég að nefna systkini mín. Þau hafa aldrei verið mér neitt bakland heldur þvert á móti hafa þau gagnrýnt mig linnulaust fyrir að vera þessi auli. Ég hef aldrei keypt mér bíl úr kassanum, ég hef heldur aldrei átt Lexus eða Teslu. Ég á ekki vegabréf þar sem fólk eins og ég þarf ekki svoleiðis. Ég á ekki einu sinni fasteign. Já, ég sagði að ég væri auli. Ég hlýt að hafa klúðrað hlutunum all illilega þar sem ég stend systkinum mínum svona langt að baki og gæti verið möguleg skýring á hegðun þeirra í minn garð.

 

Ég er svo mikill Íslendingur, mig langar ekkert til að flytja til útlanda. Ég elska að ferðast, það er ekki það. En ég verð að eiga minn heimareit þar sem ég næ jarðtengingu. Þar sem ég á bakland. Hér í sveitinni hef ég bæði jarðtengingu og bakland, enda hef ég komið ótrúlega mörgu í verk á þeim sex árum sem ég hef búið hér. Ég er ekki tilbúin að flytja á nýjan stað, með nýju tungumáli, þar sem ég þekki ekki hræðu. Og jafnvel þótt ég þekkti einhvern þá vil ég ekki vera upp á aðra komin.

 

En hvað skal gera? Staðurinn er til sölu og ef hann selst fljótlega þá á ég ekki annars kost en að flytja til útlanda. Því að ég get ekki borgað þá leigu sem viðgengst í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum og get raunar ekki hugsað mér að fara að hrekjast um á leigumarkaði. Það er ekki minn stíll. Og hvað yrði þá um vöggusettin mín? Ég gæti reynt að finna mér sanngjarna leigu í einhverju af hinum afskekktari þorpum landsins en það væru hreppaflutningar. Myndi ég finna þar leikfélag? Kór? Menningarlíf? Kannski, en bara kannski. Þá myndi ég frekar líta til minnar ástkæru Ítalíu, ég fengi allavega örorkubæturnar mínar þangað.

 

En þá kem ég að Birni Þorlákssyni sem segir að það séu til aðrar leiðir en að flýja land.

 

 

 

 

Ofbeldissambandið – Við þurfum að tala um okkur sjálf

 

Á tveimur síðustu dögum hefur borist mér til eyrna að þrír ungir Íslendingar úr þremur ólíkum fjölskyldum, hafa tekið ákvörðun um að flytja til útlanda og koma aldrei aftur.

 

„Ég get ekki Ísland,“ sagði eitt þessara ungmenna í samtali við mig, ung kona um þrítugt, dóttir vinahjóna. Hún telur að spillingin, hugleysið og heimskan, séu ríkjandi mein hér á landi. Hún er leifturklár og vel menntuð þessi unga kona, sumpart vegna skólagöngu sem íslenska ríkið kostaði, en ekki síður er hún sjálfsmenntuð af því að stúdera umheiminn og bera hann saman við skerið okkar.

 

Hún segir að þótt allir viti að nepótismi og tengsl ráði flestum tækifærum hér á landi fremur en verðleikar einstaklinga, eigi þeir sem standa utan tækifæranna oft engan annan kost en að líta undan.

 

„Því þá fyrst ef fólk ræðir mein samfélagsins upphátt, er viðbúið að viðkomandi verði ýtt út á jaðarinn. Maður er annaðhvort þaggaður eða hundsaður í hel eða þá að maður fer á svartan lista, sem er enn verra,“ segir hún, þátttakandi í gagnrýninni umræðu, þátttakandi í ungmennahreyfingu stjórnmálaflokks hér á landi.

 

En ekki lengur. Hún er að pakka niður. Búið. Bless. Hennar mun bíða frami og virðing utan landsteinanna, spái ég. Á sama tíma eru hennar líkar hér innanlands flokkaðir sem vanþakklátir vandræðapésar. Æi, farðu bara. Gott að losna við þig.

 

Unga fólkið er á flótta héðan, ekki bara vegna skoðanakúgunar og kröfu um yfirhylmingu. Það er líka á flótta vegna þess að landið er erfitt til búsetu fyrir ungt fólk sem ekki fæðist inn í efnaðar fjölskyldur.

 

Það er harla vonlítið að safna fyrir útborgun til að kaupa húsnæði í landi, þar sem leigumarkaður er mest megnis tæki sem hinir ríku beita sem svipu til að verða enn ríkari. Sturlaðir vextir bankanna, þeirra stofnana sem virðast ekki láta hag almennings sig nokkru varða, sturlað vöruverð og sturlaður kostnaður við ýmsa þjónustu sem áður var ókeypis og greiddur af ríkinu, sligar ungt fólk, þann hóp sem ekki er svo heppinn að alast upp við forréttindi tengsla eða efnahags.

 

Þeir sem ná þó með lántökum og tvöfaldri vinnu að nurla saman fyrir íbúðarkaupum, þurfa líka oft að sætta sig við svo þungan fjárhagslegan myllustein um hálsinn æ síðar, í raun fram á háa elli, að þeir munu aldrei að óbreyttu geta borið höfuðið hátt. Þeir þurfa að sætta sig við að kaupa peninga hjá þeim sem eiga Ísland, kaupa peninga sem eru svo rándýrir að það þarf að greiða þá margfalt til baka. Á sama tíma vita allir að Ísland er svo ríkt af náttúruauðlindum, hér verða til svo mikil auðævi á hverjum degi, að hvert og eitt okkar ætti ekki bara að lifa mannsæmandi lífi heldur gætum við öll átt blómlegan efnahag.

 

Við höfum vanist þessu ástandi, við höfum sætt okkur við að örfáir skari eld að eigin köku á kostnað allra hinna. Þessir örfáu ráða öllum helstu tengingum, þeir ráða helstu fjölmiðlum, þeir ráða umræðunni, þeir hafa búið til SUSS-samfélagið!

 

Það er ekki vegna þess að hinir þöglu og kúguðu séu svo siðspilltir sjálfir, að þeir þegi til þess eins að eygja von um bitling síðar. Nei. Þeir sem standa utan kjötkatlanna þegja, þrátt fyrir spillinguna og órétinn, vegna þess að ef þeir berja í borðið hafa þótt mjög miklar líkur á að knappar lífsbjargir þeirra verði að engu.

 

Í Guðsgjafaþulu Laxness segir af fyrsta íslenska stórbissnessmanninum sem sópaði að. Hann var drukkinn flesta daga eins og virðist hafa verið hlutskipti flestra Íslendinga sem fóru utan áður og þurftu æ síðar að lifa með vitneskjunni um andlega og veraldlega fátækt hér á landi, sem þeir uppgötvuðu ekki fyrr en með samanburði við umheiminn. Það varð þessu fólki of þung raun að sjá sannleikann, enda er ignorance bliss. Enn er talin dyggð að umfaðma ignoransinn. Fáhyggjan er þjóðaríþrótt.

 

Íslands-Bersi var enginn snillingur í viðskiptum. Vegna þvermóðsku hans úldnaði síldin á kajanum í Köben og fór þar með vinnuframlag verkafólksins í norðri fyrir lítið. En af því að enginn þótti honum þó skárri, var honum treyst til að fara með efnahag heillar þjóðar. Það ævintýri endaði með að ríkið neyddist til að greiða upp allar skuldir hans sem fylgdu taumleysislifnaði mógúlsins á dýrasta hóteli heims. Kannast maður við stefið? Fyrsta hrunsagan. Útgefin tæpum 40 árum fyrir árið 2008.

 

Nóbelskáldið okkar sá ungt að árum hina inngrónu meinsemd. Hvernig fólk sem mikið fór fyrir og fæddist inn í fjölskyldur sem áttu eitthvað – ólíkt almúganum – gat spilað á þjóð sína eins og hörpu. Vegna utanferða skáldsins, vegna alls þess sem hann fræddist um á mýmörgum tungum, sá Laxness að kasúldnir og kúgaðir sveitalubbar íslenskir – keyrðir niður í íslenskan svörð með órétti og harðræði um 1000 ára skeið – gátu fátt annað gert en að stara út í bláinn og fara með sérviskulega stöku. Nóbelskáldið fann bjargir til að tengja sig Internetinu, löngu áður en það var fundið upp. Ég hef alltaf lesið út úr verkum Laxness að honum hafi þótt vænt um eigin þjóð en um leið verið meðvitaður um að hinn dæmigerði Íslendingur sé vinnusamur hversdagsmaður, langveikur í sálinni vegna árhundraða ofbeldissambands við yfirboðara. Vistarband? Ungbarnadauðinn? Þjóðartráma.

 

Íslensk alþýða er fuglasali án markaðar eins og lesa má um í absúrdisma Guðsgjafaþulu. Íslensk þjóð er alltaf til í að ræða það sem skiptir engu máli. En verður annars hvumsa.

 

Nú þegar öll veröldin hefur opnast ungu fólki, flæmum við frá okkur þau sem segjast ekki „geta Ísland“. Það fólk nennir ekki að drekka frá sér heilasellurnar til að sættast við eigin ömurlega hlutskipti, bikar vitneskjunnar er því ekki of beiskur, líkt og áður var. Ungt fólk ber nærsamfélagið saman við það sem best gerist í umheiminum. Það elst upp við alheimssamanburð. „Því ætti ég ekki að búa í London eða í Kaupmannahöfn, þar sem launin eru svipuð og hér, en húsnæðislánið mitt byrjar að lækka um leið og ég greiði af því?

Þetta þurfum við að tala um. En það er ekki aumingjaskapur sem ræður því að mörg okkar erum of hrædd til að tjá okkur upphátt. Óttinn er ekki af ástæðulausu. Verkefnið að breyta Íslandi til hins betra er ekkert áhlaupaverk. En að halda áfram að þegja og líta endalaust undan er það sem gagnast gerendum í ofbeldissambandi mest. Fantarnir vilja að við trúum að þeir séu ósigrandi. Þeir eru það ekki. Það eru til aðrar leiðir en að flýja land…


Fuglinn Fönix

Ég er búin að eiga alveg ótrúlega erfiðan maímánuð. Það er merkilegt í ljósi þess að ég skilaði af mér meistaraverkefni og mun því ljúka löngum kafla í lífi mínu. En það er einmitt málið. Það er kannski bara það sem allt þetta snýst um. Mér hefur leiðst alveg hrikalega en ég veit líka að þegar mér líður svona þá hef ég ekkert að gefa öðru fólki.

 

Ég er vissulega í sorgarferli, og það var löngu kominn tími til. Ég leit ekki á fráfall föður míns sem missi en ég horfði hinsvegar ekki á stóru myndina, að ég missti fjölskylduna mína þriggja ára og fór þá í endalausa vinnu við að reyna að fá að tilheyra henni. Eða bara tilheyra einhvers staðar þar sem ég fékk að vera. Það er talað um að sorgarferlið sé í þrepum, það er reiði, afneitun og eitthvað fleira. Ég er búin að vera  í afneitun. Það býr í mér mikil reiði og sársauki sem ég þarf að tækla til að geta haldið áfram. Ég er að fara til sálfræðings núna í júní eftir hálfs árs bið. Þetta er emdr sem er víst það heitasta núna, ég er allavega spennt. Það er nóg til frammi, haughúsið er alveg fullt. Systkini mín munu aldrei sættast við mig vegna þess hversu opinská ég er. En þau tala ekkert um að ég sé að ljúga, það er áhugavert. En ég þarf sjálf að vera sátt. 

 

Ég hef verið í námi meirihlutann af mínum fullorðinsárum og þar sem það var mér umfram allt andleg næring þá hugsaði ég ekki um að læra eitthvað "hagnýtt", eitthvað sem gæti skaffað mér tekjur, það varð eðli málsins samkvæmt að vera eitthvað sem mig langaði í. Ég hef oft í blankheitum mínum pirrast á sjálfri mér fyrir að sækja meira í sagnfræði og bókmenntir en viðskiptafræði. Og aldrei hvarflaði að mér að læra hárskerann eða rafvirkjann. 

 

Það játast hér með að ég hef lifað tvöföldu lífi. Umönnunar-Bidda og Skóla-Bidda hafa verið vægast sagt ólíkar manneskjur og það hefur stundum verið flókið. Í dagvinnunni (sem er ekki alltaf á dagvinnutíma) hef ég skúrað og skrúbbað, baðað fólk, þrifið óteljandi klósett og svo framvegis. Ég hef gaman af því að gefa af mér og margt af þessu hefur verið dásamlegt, sérstaklega þegar ég vann í skammtímavistun fyrir fólk með þroskahömlun. Síðan þá á ég ótrúlega stóran hóp af vinum, bæði af þiggjendum þjónustunnar og þeim sem unnu með mér. Við vorum öll með hjartað að leiðarljósi og það tengdi okkur saman. En það var ekki alls staðar svona dásamlegt og sums staðar var andrúmsloftið kolsvart. Fyrir manneskju með slaka sjálfsmynd, sem sótti öll sín félagslegu samskipti í vinnuna, þá gat það orðið þung byrði. Það bætti svo ekki úr skák að þetta var hræðilega illa launað starf. Eða kunni ég kannski ekkert að fara með peninga? Veit ekki, ég var andlega sofandi. En þetta sleit mér út.

 

Það tók mig tólf ár að safna mér einingum upp í stúdentspróf og meðfram því var ég lengst af í Hampiðjunni og á Kópavogshæli. Svo fór ég í háskóla og aftur tók það mig tólf ár að safna einingum upp í BA-gráðu. Svo þegar hún var komin fékk ég endalausar spurningar um hvað ég ætlaði að gera við hana og ég hafði hreinlega ekki hugmynd, hélt bara áfram í mínum umönnunarstörfum þó að ég væri löngu brunnin út. Ég ber mikla virðingu fyrir umönnunarstörfum, bæði þiggjendum og veitendum. Ég ber það mikla virðingu fyrir þiggjendum, yfirleitt öldruðum eða fötluðum nema hvort tveggja sé, að þetta fólk á betra skilið en að vera sinnt af útbrunnu fólki. Það sleit mér meira út en nokkuð annað, að finna að ég gat þetta ekki en þurfa samt að halda áfram eins og hauslaus hæna, einhvers staðar þarf kona að vinna. 

 

Það bjargaði mér að fara á örorku. Í dag hef ég fasta innkomu í formi örorkubóta og það er frekar glatað að það er svipuð upphæð og ég hafði sem stuðningsfulltrúi. En tölum ekki um það. Eftir að ég fór á örorku gerðist ég minn eigin stuðningsfulltrúi og hef sett heilsuna mína í forgang, bæði líkamlega og andlega. Það hefur gefið mér tækifæri til að stofna fyrirtæki í kringum vöggusettin mín og það hefur líka gefið mér tækifæri til að ljúka meistaragráðu, tíu árum eftir að ég byrjaði á henni. 

 

Það er kannski það sem dregur mig svona niður, meðfram sorgarferlinu, ég er að missa hækjuna mína. Það að vera alltaf í einhverju námi og geta flúið í það hefur hjálpað mér að halda geðheilsu í gegnum árin, það hefur í raun verið stærri tilgangur en námið sjálft. Ég hef tilheyrt mínum skólafélögum og lagt aðrar Biddur til hliðar á meðan. En nú ætla ég að gera þetta öðruvísi. Ég mun örugglega skrá mig í eitthvert nám, bara ekki strax. Og það nám verður ekki notað sem hækja, ég held að ég þurfi ekki lengur hækjur. Mig langar að læra ritlist, mig langar líka í myndlist. Og svo langar mig alltaf í þjóðfræði. Það væri líka gaman að læra að syngja. Og ég er ennþá jafn sjúk í listasögu og þegar ég var í FB hjá henni Sigríði Candi fyrir 30 árum. Kannski ég eigi eftir að flytja til Ítalíu eftir allt saman? Ég gat það ekki þá því að sjálfsmyndin mín stóð ekki undir því, ég hafði ekki kjark. Ég hef hann núna en nú er ég auk þess komin með fyrirtæki sem ég er að byggja upp, þá þarf ég að vera á Klakanum.

 

Mesta myrkrið er alltaf rétt fyrir dögun. Ég er búin að sleppa mörgum hækjum undanfarið og sú stærsta er þessi furðulega trú á því að ég gæti sameinast fjölskyldunni minni. En ég veit núna hvaðan hún kemur, ég er búin að skrifa ritgerð um það. Ég fæ ekki að tilheyra þeim en ég þarf að tilheyra mér sjálfri, sækja mér betri næringu en hingað til. Það þýðir að setja markið hærra.

 

Þar sem ég er búin að vera á eigin vegum frá þriggja ára aldri þá hef ég lært það sem kallað er að vera "streetwise". Það þýðir að hugsa í lausnum; hver er staðan og hvaða möguleika hef ég? Þarf ég að hlaupa, þarf ég að ljúga, get ég verið ég sjálf? Þegar ég stend frammi fyrir vandamáli og þarf að leysa það, þá geri ég það því að lífið liggur við. Þá er ekki í boði að bíða eftir því að einhver annar geri það sem ég veit að þarf að gera. Þetta hefur gert mig að framkvæmdastjóra í eigin lífi, ég hef yfirsýn og veit nokkurn veginn hvað þarf að gera, hvað ég get gert og hvað ég þarf að biðja aðra um. Þetta leyndist þarna inni, beið bara síns tíma.

 

Fuglinn Fönix reis úr öskunni. Hann brann upp og þá fæddist nýr Fönix, eldfuglinn sjálfur. Sá nýi er ekkert bundinn af þeim gamla, er það nokkuð?

 

Verkefnið mitt núna er að spyrna mér frá botninum. Ég er búin að vera meira og minna lömuð undanfarið, hangi bara í heilalausum leik í símanum og ræð ekki við að lesa bók, hvað þá annað. Ég kann allskonar trix til að ná upp þreki en þau duga mér ekki þessa dagana, ekki einu sinni flottu leikfimitímarnir í íþróttahúsinu í Borgarnesi. Það var mikill léttir þegar ég áttaði mig á því að ég mætti alveg vera heima, að ég mætti hvíla mig á hreyfingunni og hollustunni í bili. Af því að ég veit að það verður bara um stundarsakir og gengur yfir eins og aðrar flensur.

 

Ég hef verið að læra að sýna sjálfri mér mildi og því er ég ekki pirruð á þessu hangsi, það er ekki sanngjarnt. Þetta gengur yfir, bráðum fæ ég hjálp við að setja upp samfélagsmiðla fyrir Barnabólið og bráðum get ég farið að máta kjóla fyrir útskriftina í júní, þarf bara að bíða eftir að sauðburður gangi yfir svo að Magga mín komist með. Og svo erum við að fara að halda Bjartmarstónleika, það verður stuð. Og svo erum við komin með þetta fína frumsamda handrit að söngleik og ég er búin að raða í helstu hlutverkin. Eða sko, gera tillögur. Ég ræð því auðvitað ekki ein. En allt svona eykur mér krafta. Og svo langar mig í sjósund. Ég segi það á hverju ári en þetta sumarið skal það gerast.


Þessi blessuð systkini mín - ef systkini skyldi kalla

Þessi vesalings blessuð systkini mín, það er ekki flóafriður fyrir þeim. Þarna er ég, löngu búin að blokka þau á facebook, og lifi bara mínu lífi. Geri mitt besta til að vera almennileg manneskja og koma vel fram við alla. Það er fyrir það fyrsta afskaplega kvíðastillandi en líka andlega nærandi. Ég bý líka í þannig samfélagi að ég fæ það allt margfalt til baka. Ekkert rugl.

 

En þá skoppar upp spjallþráður. Systkini mín að ræða saman í eitt skiptið enn. Því miður var ég ekki búin að skrá mig út af þessum spjallþræði, það er ekki hægt að muna allt. Þannig að eitrið náði til mín í þetta skiptið.

 

Umræðuefnið var fjármálin hennar mömmu. Drífa systir var með upplýsingar um að mamma væri búin að lána allt sem hún á og ætti ekki fyrir jarðarförinni sinni. Og að ég væri ein af þeim sem skulduðu henni peninga. Og við ættum að sjá sóma okkar í því að borga henni til baka. Drífa er jafnvel búin að koma því svo fyrir að mamma getur ekki lengur millifært án þess að fá samþykki frá Drífu.

 

Þetta hljómar eins og að ég sé búin að vera að svíkja háar fjárhæðir út úr mömmu, sem er ekki rétt. Staðreyndin er hinsvegar sú að mamma hefur nokkrum sinnum stutt mig. Án hennar hefði Barnabólið sennilega ekki komist á legg og fyrir það er ég henni þakklát. Ég þarf ekki á stuðningi mömmu að halda í dag, þökk sé lágri leigu í sveitinni sem gerir mér kleift að lifa á örorkubótunum og reka bíl, en Barnabólið er samt ekki enn farið að skila mér tekjum. Kannski á það aldrei eftir að gera það en aldrei skal segja aldrei, þetta tekur einfaldlega tíma. Kannski verð ég orðin rík eftir nokkur ár.

 

Nú eru breytingar framundan og ég veit ekki hve lengi ég get búið hér, skólinn er sennilega að hætta í vor og staðurinn verður kannski seldur. Ég gæti þurft að borga mun hærri leigu annars staðar, ég veit ekkert hvernig þetta fer. En í versta falli, ef ég þarf að setja allar örorkubæturnar mínar upp í húsaleigu og næ ekki að borga mömmu, þá dregst þetta bara frá mínum arfshluta eftir að hún fellur frá. Eins og það sem barnabörnin hafa fengið hjá henni.

 

Ég sá þennan spjallþráð í gær og varð alveg fjúkandi reið. Ég er búin að reyna að tala við þetta fólk í áratugi en það hefur ekki skilað neinum árangri. Það særir mig virkilega að sjá þegar þau reyna að finna allt sem þau geta til að koma höggi á mig, og núna er ég orðin fjárglæframaður og fjársvikari.

 

Kommentin frá systkinum mínum voru mjög athyglisverð. Anna Gunna elsta systir mín í Danmörku lýsti hneykslun sinni á meðferðinni á þessari góðu konu og einhver annar þakkaði Drífu fyrir framtakið, fyrir þessa björgun. Þetta fólk er hinsvegar aldrei í neinu sambandi við mömmu. Systkini mín á Selfossi heimsækja hana aldrei, hvorki Drífa, Frikki né Berglind fara til hennar nema þegar þau vantar pössun fyrir börn eða hunda. Þetta veit ég vegna þess að ég hringi oft í hana og þá spyr ég alltaf frétta. Ég á ekki peninga en ég á gott hjartalag og fylgist með því hvernig henni líður. Ég útvegaði henni hund þegar Muggur var orðinn fárveikur af elli, það leið ekki vika frá því að París kom á heimilið þegar mamma samþykkti að leyfa Muggi að sofna, ég vissi bara að hún gat ekki verið án hunds og þurfti að fá fullorðinn hund sem var búinn að taka út öll hvolpalæti. Og hver sá um áttræðisafmælið í hennar í fyrra, nema ég. Ég eldaði súpuna og ég keypti allt áfengið. Systkini mín mættu rétt á undan gestunum og sátu allan tímann inni í herbergi og blönduðu ekki geði við neinn.

 

Við mamma eigum gríðarlega fallegt samband. Það gerbreyttist eftir að ég gerði myndina um hana í heimildamyndakúrsi fyrir nokkrum árum, þá hreinlega féllu allar varnirnar og ég fékk innsýn í hennar líf, kynntist vinum hennar og fékk að sjá hvernig annað fólk upplifir hana. Ég held að mamma hafi alltaf verið mjög illa haldin af sektarkennd vegna þess hvernig allt var þegar við systkinin vorum lítil, pabbi drakk alltof mikið og illa en það mátti ekki tala um það. Og mamma hafði engin verkfæri. En eftir þessa mynd þá höfum við tengst sterkum böndum, ég eignaðist mömmu mína 53 ára gömul. Og skammast mín ekkert fyrir að hafa þegið af henni stuðning þegar ég þurfti mest á honum að halda.

 

Ég þarf á mínum andlegu kröftum að halda, núna þegar ég er á kafi í lokaritgerðinni. Það að skrifa ritgerð hefur oft valdið mér gríðarlegum kvíða, óttinn við viðbrögð annarra hefur hreinlega lamað alla mína hugsun, þegar ég þarf að túlka einstaka fræðimenn og hafa skoðanir. En það merkilega er að í þessari ritgerð hef ég ekki fundið fyrir eins miklum kvíða og oft áður. Ástæðan er sú að systkini mín ná ekki til mín og geta því ekki gert lítið úr mér. Ég er komin með svo sterkt tengslanet af fólki sem sér mig eins og ég er, ég þarf ekki að verja mig lengur því að það er enginn að ráðast á mig. Þvert á móti fæ ég stuðning frá fólki, hlýjar kveðjur og klapp á bakið.

 

En svo skoppar þessi spjallþráður upp. Ég var ekki fyrr búin að skrá mig út af honum en ég dauðsá eftir því. Ég átti auðvitað að tjá mína meiningu og skrá mig síðan út, þarna inni voru t.d. systurdætur mínar sem halda kannski núna að ég sé algjör fjársvikari. En ég hef svo oft reynt að leiðrétta eitthvað svona og verja mig og það hefur aldrei skilað neinum árangri. Þá mundi ég eftir blogginu.

 

Þetta er mitt svæði og ég skrifa það sem mér sýnist. Ég er búin að fá yfir mig nóg af þessu rugli og skinhelgi, ég er líka ekki hvað síst búin að fá yfir mig nóg af því að reyna í áratugi að vera góð systir og frænka án árangurs. Án þess að fá að vita hver glæpur minn er. Ég gæti giskað á, miðað við allar þær heimildir sem ég hef lesið um svona hluti, að þetta sé einhver angi af afbrýðisemi. Að ég standi þeim svona miklu framar. En ég ætla ekki að halda því fram. Það er samt áhugavert að velta fyrir sér af hverju ég hef ekki fengið að vera frænka barnanna þeirra.

 

Ritgerðin mín fjallar um að tilheyra, kveikjan að henni var þegar ég var unglingur á Hlemminum og fékk í fyrsta skipti að upplifa það að fá að tilheyra innan um róna og pönkara, hversu gríðarlega sterkt það var. Ég tilheyrði aldrei fjölskyldu minni og það er á vissan hátt skiljanlegt að systkini mín vilji ekki tengjast mér, það er erfitt að snúa við einhverju sem byrjaði að þróast þegar ég var þriggja ára.

 

Ég var þriggja ára þegar ég byrjaði að flýja út af heimilinu vegna þess að stóra systir mín beitti mig ofbeldi, hún dró mig um á hárinu og sleit utan af mér föt svo að ég var oft lömuð af skelfingu. Pabbi sagði einhvern tímann að honum þætti ágætt að hún léti mig hlýða, það gerði það þá einhver. Systir mín fór snemma að sinna heimilisstörfum og passa yngri krakkana og fann sig vel í því þar sem það gaf henni mikil völd, en vegna þess hvað hún gekk harkalega í skrokk á mér þá gat ég ekki hugsað mér að hjálpa henni að þrífa og stakk af. Smám saman þróaðist það þannig að ég var einhvers staðar inni á öðrum heimilum en hún var heima með litlu krakkana, þannig urðu tengsl þeirra mjög sterk en ég lenti alveg fyrir utan. Við vorum svo lítil, það hefði einhver fullorðinn þurft að taka ábyrgð á okkur. Og koma í veg fyrir þetta líkamlega ofbeldi.

 

Ég man eftir mér fimm ára heima hjá móðurbróður mínum sem bjó rétt hjá Selfosskirkju, við áttum heima rétt hjá Mjólkurbúinu þannig að þarna var ég farin að fara langar vegalengdir, fimm ára gömul. Ég klemmdi mig á þumalputta á stofuhurðinni hjá honum og það var hræðilega sárt. Hann tók mig í fangið og hélt á mér þangað til verkurinn var farinn. Þá hélt ég áfram að kreista upp væl til að fá að vera áfram í fanginu á honum, það var svo gott og ég þekkti það ekki að heiman. Ég átti yngri systkini og þarna var strax búið að prenta inn í mig að mamma hefði nóg að gera með að sinna þeim, ég ætti ekki að láta hafa fyrir mér. Og alls ekki vera í fangi.

 

Þannig að ég tilheyrði aldrei systkinum mínum þar sem ég var alltaf á flótta undan barsmíðum og samtímis lömuð af skömm. Skömmin gerði það að verkum að ég varði mig aldrei og lamdi hana aldrei til baka, mér fannst ég ekki mega það því að ég var svo vond. Sem gerði mig mjög útsetta fyrir einelti í skólanum en krakkarnir þar gátu ekki vitað að eineltið var langverst heima hjá mér þar sem ég hefði átt að eiga skjól. Ég var alltaf að leita eftir skjóli inni á annarra heimilum en þar lærði ég líka að ég átti engan rétt til neins. Önnur börn áttu leikföngin og það voru þau sem réðu því hvaða dót ég mátti hafa. Og svo þurfti ég alltaf að fara heim á endanum. Ég hef nokkrum sinnum prófað að tala um eineltið við systkini mín en þau eru á einu máli um að ég hafi kallað það yfir mig sjálf og þetta hafi ekki verið svo alvarlegt. Líka þau sem fæddust mörgum árum á eftir mér! Og þegiðu svo og hættu þessu væli.

 

Ég var komin yfir þrítugt þegar ég kynntist Al-Anon og var ekki lengi að segja systkinum mínum frá þeirri uppgötvun. En mér til mikillar furðu höfðu þau engan áhuga. Það var bara ég sem var að leita að rótum, þau voru alveg sátt með sínar rætur, enda höfðu þau alltaf tilheyrt hvert öðru. Eftir fertugsafmælið mitt, þegar frænka mín breytti veislunni í brúðkaup fyrir sjálfa sig án þess að láta mig vita og systkini mín neituðu að standa með mér, þá kom Vallý systir með þá snilldarskýringu að ég væri greinilega einhverf fyrst að ég gæti ekki tekið vonbrigðum. Það hjálpaði þeim að komast yfir það hvað þau skemmtu sér vel í veislunni, þetta var bara mitt vandamál. Það tók mig mörg ár að vinna úr þessu og fyrirgefa sjálfri mér að hafa látið vaða svona yfir mig, auðvitað hlaut þetta að hafa verið mitt vandamál að vera svona mikill vesalingur, að hafa verið svona dofin þetta kvöld.

 

Og þegar bróðir minn braut kynferðislega gegn fötluðu barni sem var í hans umsjá, þá tók steininn úr. Þessi bróðir minn hefur setið fyrir mér og ausið yfir mig viðbjóði, hann hefur gengið einna lengst af öllum í því að telja mér trú um að fólk almennt hrylli við mér um leið og það kemst að því hvernig manneskja ég er. Það sem hann gerði hefur aldrei verið rætt innan fjölskyldunnar, þau kaupa skýringuna hans að hann hafi verið tældur, að þessi unga stelpa með framheilaskaða beri alla ábyrgðina. Hann er velkominn heima hjá öllum okkar systkinum en ég er það ekki. Það er víst svo þungt andrúmsloft þar sem ég er, ég er of niðurdrepandi. Hann er hinsvegar mikill brandarakarl og hefur erft orðheppnina hans pabba. Hann er ótrúlega sérstakur karakter, þessi bróðir minn. Við bjuggum bæði hjá mömmu um jólin 2015 (já, bæði komin yfir fimmtugt!) þegar ég fótbrotnaði í hálku þegar ég var á leiðinni í Selfossrútuna í Mjóddinni. Ég varð að biðja hann um að sækja mig niður á N1 því að ég gat ekki gengið heim og hann gerði það, studdi mig upp að húsinu og allt. En um leið og við komum upp á tröppurnar og það var einn metri eftir að húsinu, þá sleppti hann og rauk inn, búinn að gera sitt og þetta kom honum ekki lengur við.

 

Ég reyndi áratugum saman að byggja upp góð samskipti við systkini mín. Ég gaf börnunum þeirra góðar afmælisgjafir, reyndi það allavega, og einu sinni lét ég senda einni sex ára marglitan fresíuvönd, það var víst mikil upplifun þegar blómasendillinn kom og spurði eftir henni. Ég var vestur á fjörðum þá og komst ekki í veisluna, en vildi gleðja hana.

 

Systkini mín fóru saman í gegnum tímabil barneigna og þar sem ég var alltaf einhleyp eignaðist ég ekki börn. Vallý sagði reyndar einhvern tímann að ég hefði alveg getað druslast til að eignast mín eigin! Vallý, Anna Gunna og Ingunn þáverandi mágkona fóru saman í gegnum þetta tímabil og ég öfundaði þær innilega af því að eiga þetta saman, mig langaði svo til að geta tekið þátt. En þá hefði ég þurft að geta átt í nánum samböndum og það gat ég alls ekki, andskotans kvíðinn. Svo að ég reyndi í staðinn bara að vera góð frænka, að svo miklu leyti sem mér var leyft það. Ég veit ekki hversu margar fokkans barnapeysur ég hef prjónað en varla séð börnin í þeim, hvað þá fengið sendar myndir.

 

Núna eru systkinabörnin flest orðin fullorðin og eins og vænta má eru tengslin við þau afskaplega léleg, það er ekki hægt að byggja upp eðlileg samskipti þegar foreldrarnir eru beinlínis á móti því og hjálpa ekkert til.

 

Þannig að nú er tíminn kominn, það er komið nóg af þessu rugli. Ég hef eytt alltof mörgum árum í að reyna að sanna að ég sé ekki það sem systkini mín segja að ég sé, sem hefur valdið mér viðvarandi óöryggi með sjálfa mig. Nú er ég hætt því og það hefur strax áhrif með því að minnka kvíðann og vöðvabólguna. Ég á mér líf sem gefur mér gríðarlega mikið, ég á fyrirtæki sem er byggt á minni sköpun og ég er í nánum tengslum við margt fólk á svæðinu. Ég er alltaf að skapa eitthvað og vinahópurinn minn er alltaf að stækka. Ég hef öðlast sjálfsmynd sem listamaður, ég er farin að vera stolt af mér. Ég hef verið í stjórn Leikdeildarinnar frá 2020 og nú í kvöld var ég á aðalfundi Kvenfélagasambands Snæfellsness- og Hnappadalssýslu þar sem ég bauð mig fram og var kosin í varastjórn. Og það hvarflar ekki að mér að þær hrylli við mér. Allur sá viðbjóður er á bak og burt, enda ekkert annað en gaslýsing í sinni tærustu mynd.

 

Systkini mín hefðu getað óskað mér til hamingju með sextugsafmælið þegar við hittumst hjá mömmu á annan í páskum, jafnvel gefið mér eitthvað fallegt. En það hefði verið úr karakter. Ég er búin að fá endanlega nóg af því að vera í boðum með þessu fólki þar sem enginn yrðir á mig og þar sem ég get ekki talað um það sem mér liggur á hjarta, ritgerðina sem ég er að smíða, útvarpsþættina, Barnabólið, allt sem kemur úr mínu höfði er eitthvað afbrigðilegt og þau hafa ekki áhuga á því. Það er spaugilegt að þónokkrir ættingjar mínir hafa þegið vöggusett frá mér í sængurgjafir, með vögguvísum sem ég hef látið myndskreyta og sjálf sett litina við. Ég veit ekki annað en að þau hafi verið metin að verðleikum þó að þau séu sköpun mín.

 

Eina manneskjan sem sýndi mér kærleik var Fannar Leví, 12 ára þroskahamlaður sonur Drífu, ég var líka sú eina sem talaði við hann. Það er eitt ár síðan ég komst að því að hann er snillingur á hljómborð, hann býr til hljóma með báðum höndum eins og atvinnumaður en hefur samt aldrei fengið neina tilsögn, þetta er allt bara innra með honum. Ég fékk Janus bróður hans til að hjálpa mér að kaupa handa honum hljómborð og gefa honum í 12 ára afmælisgjöf, þ.e. ég lagði til megnið af peningunum og Janus sá um innkaupin, enda get ég ekki komið inn á heimilið, og samkvæmt Janusi er hann búinn að njóta þess mikið. Þetta var helvíti flott hljómborð með yfir 60 lyklum og foreldrar Fannars hefðu alveg getað látið sér detta í hug að þakka mér fyrir. Ég efast um að þau séu búin að skrá hann í tónlistarskóla, þau höfðu engan áhuga á hugmyndinni þegar ég spurði þau fyrir ári. Enda frá mér komin.

 

Ég mun sakna Fannars, ég get ekki ímyndað mér hvenær ég sé hann næst. Því að ég get ekki lengur hugsað mér þessi fjölskylduboð. Ég vil miklu heldur hitta mömmu á öðrum tímum. Ég ætla að gefa henni góðan útskriftardag þegar ég klára meistarann. Hún kom mér mikið á óvart þegar hún birtist í Laugardalshöll þegar ég fékk BA-gráðuna og við munum pottþétt fá okkur góðan dinner einhvers staðar í góðum félagsskap. Það verður geggjaður dagur.


Krefst orku - en gefur hana líka, þá hlýtur það að vera sjálfbært

Lúxusinn í morgun að geta vaknað og teygt úr mér, sólin hátt á lofti og ef ég horfi ekki á klakann heldur upp í himininn þá gæti verið vor í lofti. Uppþvottavélin er farin í gang, vatni skvett á blómin og bara þetta daglega tekið, þetta uppsafnaða.

 

Ég ætti kannski að kíkja á kílómetramælinn á skódanum til að sjá hvað hefur bæst við frá því ég fékk hann þann 13. febrúar, hvað ætli séu komnar margar Reykjavíkurferðir að öðru ónefndu? Ég er búin að vera svo niðursokkin í viðtöl og fræðigreinar meðfram leiktextanum og gjaldkeraskyldunum að það hvarflaði ekki að mér að kíkja á Gleðikórssíðuna og mætti því heim til Ásdísar og Helga eins og bjáni, til þess eins að fá að vita að árlega bolluboðið hefði fallið niður því að húsbóndinn fékk covid, það var tilkynnt tveimur dögum áður. Og ég sem hafði hlakkað svo mikið til að hitta vini mína þar sem þetta er orðið eini fasti hittingurinn í Gleðikórnum, og svo auðvitað að éta bollur með allskonar frumlegum fyllingum að hætti húsráðendanna. Að ári, vonandi. 

 

Ég er bara núna að átta mig á því að ég er í rauninni í fullu námi, ég sem hef alltaf tekið allt mitt nám í bútum meðfram fullu starfi kann bara ekki alveg á þetta. En það er semsagt talsvert að gera.

 

Ég er líka að æfa leikrit sem verður frumsýnt í næstu viku og það er margt í kringum það annað en bara að læra texta því að það þarf líka að redda hinu og þessu, hvort sem það er málning á veggi, búningar eða leikmunir af ýmsu tagi og svo framvegis. Og það er alveg ofboðslega skemmtilegt. Slagar ábyggilega upp í allavega hálft starf. Krefst orku en gefur hana líka.

 

Ég er búin að taka nokkur viðtöl og á nokkur eftir, svo þarf ég að skrifa greinargerð upp úr þessu öllu saman og kynna meistaraverkefnið á málstofu sem er líka í næstu viku. Sem er semsagt frumsýningarvika, tölum ekki um það.

 

Í gær tók ég viðtal við Jón Gnarr sem var samtímis mér á Hlemmi. Hann er búinn að skrifa þrjár bækur um þessa reynslu sína og allt sem hann sagði í gær staðfesti mína upplifun, á Hlemmi fann hann skjól og öryggi til að vera hann sjálfur og fékk að vaxa og styrkjast. Eins og allir þurfa en ekki öllum hlotnast. Ef þú vilt endilega vita meira þá er útvarpsþáttur á leiðinni þar sem þetta verður rætt á alla enda og kanta af hinum ýmsu persónum og leikendum. 

 

Mér finnst svo magnað að allt þetta sem ég er að gera er byggt á því sem hefur valdið svo miklu einelti. Ég var þessi listræna stelpa sem varð fyrir sturluðu aðkasti í mínum heimabæ þar sem ég hafði ekki líkamlega getu til að stunda íþróttir. Alla mína tíð hef ég verið að reyna að byggja upp heilbrigða sjálfsmynd og það hefur gengið bæði upp og ofan, ég hef þurft að hreinsa út heilmikinn skít til að ná að vaxa.

 

Ég hef þurft að loka á systkini mín því að þau hafa ekki stutt mig í þessari vegferð heldur kosið að beita mig ofbeldi. Ég kalla það ofbeldi þegar þau reyna að telja mér trú um að fólk hrylli við mér þegar það kynnist mér og sér hvaða manneskju ég hef að geyma. Hver segir svona lagað? Hvað er það sem er svona hryllilegt við mig og hvernig á svona tal að hjálpa mér að gera eitthvað í því?

 

Fyrir nokkrum mánuðum ætlaði ég að senda elstu systur minni kveðju á sextugsafmælinu en komst að því að hún hafði blokkað mig á facebook vegna þessarar bloggsíðu. Eftir samtal við hin fimm systkini mín, ég ætlaði eins og bjáni að bjóða þeim heim til mín í sumar og endurtaka ættarmótið frá því í fyrrasumar (það verður haldið) og spurði hvernig þeim litist á að ég myndi skipuleggja hestaferð niður á Löngufjörurnar, ég setti mig líka á ansi háan hest með því að nefna að við værum öll orðin svo fullorðin og þroskuð að við yrðum að reyna að taka hvert öðru eins og við erum, en semsagt, þá varð endirinn sá að blokka þau öll.

 

Þannig að ef þau vilja frétta af mér þá verða þau að taka upp símtólið. Sem þau munu aldrei gera, og hafa svosem aldrei gert. Synd þeirra vegna. Því að það er sturlaðslega flott leiksýning að fara á svið þar sem systir þeirra fer á kostum. Og þessi sama systir er í þann veginn að ná sér í meistaragráðu. Þegar ég fékk BA-gráðuna kusu þau að fara frekar í útilegu en mæta og samgleðjast mér. Núna þegar ég fæ MA-gráðuna verður þeim ekki boðið.

 

Hér hefur ekkert verið minnst á vöggusett. Barnaból fékk sviðið í haust og notaði það vel með söfnun á karolinafund meðal annars. Það er núna í hvíld en fer aftur af stað þegar öðrum verkefnum er lokið. Það má samt alveg panta á fb-síðunni.

 


Þegar guðirnir falla af stalli

Ég vaknaði alveg ónýt í morgun eftir ótrúlega ruglaða drauma. Í gær vaknaði ég full af orku og kom öllum fjandanum í verk. Í morgun var þessi orka öll á bak og burt. 

Andlega hliðin á vefjagigtinni er held ég ansi vanmetin og atburðir gærdagsins eru núna að lemja mig niður. Ég hef áður skrifað á þetta blogg um draumana mína sem eru stundum skrautlegri en geggjuðustu bíómyndir. Ég held að draumarnir endurspegli stundum hvernig okkur líður.

Í nótt var ég gestur hjá Arnari Grant. Sem ég hef aldrei á ævi minni hitt, hann var þarna fyrst og fremst fulltrúi ákveðinnar tegundar af karlmennsku sem hefur verið hafin upp af sumum en af öðrum kennd við eitur.

Hann bjó í geggjað flottu húsi og hafði hirð í kringum sig sem hlýddi öllum hans bendingum. Mér fannst þetta vera krakkarnir hans, veit annars ekkert um hans persónulegu barneignir, en fyrst og fremst var þetta hópur af þjónum sem gengust upp í því að vera eins og hann og lifðu fyrir klapp á kollinn frá honum. 

Þarna var heill skemmtigarður, hver er ekki með svoleiðis í garðinum sínum, þar sem hann stjórnaði hverju tæki. Með aðstoð frá hirðinni, að sjálfsögðu, menn geta ekki verið alls staðar.

Ég er svo mikill anarkisti, jafnvel í draumum mínum þarf ég að gera eitthvað ögrandi. Og þarna lét ég eitthvað plastdrasl fljúga til jarðar, gosflösku eða sólgleraugu eða eitthvað, að honum ásjáandi, og þar með var fjandinn laus og ég varð að forða mér úr þessari paradís með mikilli skömm.

Svo vaknaði ég rotuð með hrikalega vonda tilfinningu. Kraftur gærdagsins víðsfjarri og það var ekki fyrr en eftir góðan morgunmat og kaffi sem ég fór að átta mig á þessu. Þetta nefnilega ýfði upp gamlan sársauka.

Nú er þessi náungi ekki sá fyrsti úr þessum hópi til að falla af stalli, Egill Einarsson var búinn að því áður. Þeir tveir stóðu fyrir mestu karlrembu og útlitsdýrkun sem ég man eftir, sem jafnvel náði til skapahára stelpna. Það er kannski tímanna tákn að í sturtunum í sundi eru aftur farnar að sjást stelpur sem þora að hafa skapahár.

Útlitsdýrkun sem systkini mín stukku á, sérstaklega eftir að yngsta systir mín fékk sér kærasta sem passaði alveg í formið. Útlitið alveg fínt, glæsilegur maður, en ég get varla sagt að ég hafi náð að kynnast honum almennilega. Það setti talsvert strik í reikninginn hjá mér á meðan ég bjó enn á Egilsstöðum að eftir hans tilkomu gat ég ekki lengur fengið að gista hjá þessari systur minni í Reykjavíkurferðum. Samt var alltaf pláss fyrir foreldra hans frá Eyjum með hundana sína og allt. En ekki mig. Og engin útskýring, bara gefið í skyn að mínar skoðanir á femínisma væru ekki velkomnar.

Þar með var klippt á afar náin tengsl sem hafa ekki gengið til baka, áratug síðar. Systir mín hætti að lifa á pylsum og pizzum og fór að stunda ræktina fimm sinnum á dag. Ræktin varð guðsríki eða Mekka eða eitthvað. Fínt að rækta líkamann, ekkert að því. Bara ef fókusinn er ekki eingöngu á ytra byrðinu. Helvítis femínisminn, djók.

Og þar sem fjölskyldan mín er eins og hún er, og ég er eins og ég er, þá hefur þetta aldeilis fallið í frjóan jarðveg. Bræður mínir eru miklir yfirborðsmenn og með þessum mági okkar hafa þeir myndað fullkomið þríeyki sem ég er aldrei að fara að hafa neitt í. Því að þetta lið lýgur bara eins og aðeins fárveikur fíkill getur gert. Hvort sem það á við um þau eða ekki.

Þannig að þetta mál gærdagsins rífur upp allan þennan gamla sársauka. Það hvernig ég hef eytt árum og áratugum í að byggja upp tengsl án árangurs. Ég lokaði á allt þetta lið á facebook síðasta haust og þakka mínum sæla fyrir það á hverjum degi.

Þau fara kannski að opna augun núna þegar báðir guðirnir þeirra eru fallnir af stalli en ég á samt ekki von á því. Enda á kafi í verkefnum sem þau hafa engan áhuga á, eins og útvarpsþáttagerð og vöggusettarugli.

Hér er það sem olli atburðum gærdagsins þegar fimm stórlaxar þurftu að taka pokann sinn. Tímarnir eru að breytast.


Jólakyrrðin

Ég hef sennilega aldrei á ævi minni átt jafn latan og þægilegan desember. Ég kláraði allt sem ég þurfti að gera á Selfossi í nóvember og eftir það hefur fókusinn allur verið á Vesturlandinu. Það er alltaf gott að taka reglulega til í hausnum á sér, það hjálpar til við að halda utan um verkefnin.

Ég er búin að eiga allar mögulegar útgáfur af aðventu og jólahaldi og hef smám saman myndað mér mjög ákveðnar skoðanir á því hvernig ég vil hafa þetta. Því að ég finn hvað ég vil alls ekki, ég er til dæmis aldrei á ævinni aftur að fara að taka vörukynningar í stórmörkuðum í desember í hávaða og látum.

Ég skrapp í bæinn í vikunni til að sinna erindum og lenti að sjálfsögðu í hinni hrikalegu jólatraffík. Drottinn minn, hvenær kemur Borgarlínan? Þetta er martröð, enda er gatnakerfið miðað við helmingi færri bíla en eru á götunum í dag. Kannski ekki alveg að marka vefjagigtarkroppinn minn en allar þessar biðraðir á öllum helstu umferðaræðum keyrðu mig alveg út.

Svo bættist við biðröðin í hraðprófið en Valdimar var algerlega þess virði svo að ég kvarta ekki. Næst verðum við að vera fyrr í því að panta miða á jólatónleika, að vera á þriðja aftasta bekk á fimmtu svölum er eins og að horfa ofan af þakinu á fimm hæða blokk, fínt fyrir eyrað en ekki eins fyrir augað. Nema ég fjárfesti í leikhúskíki. Okkur leið allavega eins og ofurkonum þegar við vorum búnar að fara út að borða og komnar í tónleikasætin okkar á réttum tíma eftir allar biðraðirnar.

Ég verð að hrósa hraðþjónustunni hjá Toyota, það er æðislegt að geta bara mætt án þess að eiga tíma. Þegar kona er á bíl sem er kominn á bílprófsaldur og rúmlega það, og býr þar að auki á Snæfellsnesi, þá getur það verið afskaplega óþægilegt þegar fararskjótinn fer að gefa frá sér undarleg hljóð, þá getur verið taugatrekkjandi að eiga eftir að komast heim. En þeir róuðu mig, þetta eru bara gigtarverkir í greyinu. Eins og eigandanum.

Og það sem ég nýt kyrrðarinnar, hvílík forréttindi sem ég bý við. Ég er næstum of löt, ég hef til dæmis ekki skrifað eitt einasta jólakort. Jólakortamonsterið er flutt héðan svo að ég hef ekki lengur aðgang að öllum flottu pappírshnífunum til að skera út stjörnur og engla og mig langar bara ekki til að fara aftur í þessi hefðbundnu. Ég ákvað því að senda bara hugskeyti þetta árið, eru þau ekki örugglega öll komin til skila?

Nú þarf ég bara að mæta í skötuna og hangikjötið er klárt, það er geggjað að geta keypt það soðið í Fjarðarkaupum, þarf þá eitthvað meira?


Olía og vatn

Ég tók stóra ákvörðun í gærkvöldi. Hvort hún er góð eða slæm verður bara að koma í ljós. Ég semsagt blokkaði öll systkini mín á facebook. Héðan í frá verða okkar samskipti því eingöngu með gamla laginu. 

Ég er búin að átta mig á því að samskipti okkar munu aldrei batna, til þess skilur alltof mikið á milli. Ég verð bara að taka því.

Ég bara get þetta ekki. Þau eru með mynd af mér sem hefur ekkert breyst í áratugi, mynd sem er byggð á Kvíðnu-Biddu, þessari sem getur varla tjáð sig fyrir kvíða og vanmetakennd en þráir mest að ná að tengjast sínum nánustu. Og notar alveg örugglega kolvitlausar aðferðir til þess. 

Í þeirra huga er ég ekki hlý, fyndin, skemmtilegur pælari eða neitt af því sem vinir mínir virðast sjá hjá mér. Þau sjá mig sem fúllynda og alltaf með vandamál á heilanum. Svo sit ég fyrir börnunum þeirra og treð upp á þau þjóðlögum og öðrum undarlegum áhugamálum svo að krakkagreyin vita ekkert hvað þau eiga að gera til að sleppa frá mér. Ég hefði kannski átt að kenna þeim á langspil, þá hefðum við eitthvað til að ræða um.

Það var mér svo mikil opinberun að uppgötva tólf sporin, þá fyrst eignaðist ég eitthvert líf. En það er bara ég. Það varð allavega ekki til að tengja okkur systkinin saman. Kannski var allt í himnalagi hjá þeim allan tímann og svo kem ég með leiðindi sem enginn nennir að hlusta á. En af hverju er þá öll þessi spenna, er ég ein um að búa hana til? Þetta er einhver innbyggð skekkja, allar mínar pælingar um hvernig vanrækslan í bernsku mótaði okkur öll virka eins og árásir á þau og því oftar sem ég hef reynt að byggja upp sameiginlegan skilning því harðari viðbrögð fæ ég. Og þá er fjandinn laus.

Ég var svo lengi í vafa um hvort ég væri í alvöru svona blind á sjálfa mig eða hvort vinir mínir hefðu rétt fyrir sér. Var ég kannski með einhverfu og í afneitun? Var ég kannski ekki að sjá hlutina? Þetta reif mig algerlega í tætlur og ég var með stanslausan hnút í maganum sem eitraði samskipti mín við bókstaflega allt fólk sem ég umgekkst. Ég held að þetta myndi flokkast sem ofbeldissamband í dag.

Eftir að ég flutti í sveitina hefur svo ótalmargt gerst og ég hef fengið fast land undir fæturna. Stór hluti af því er fjarlægðin sem ég hef fengið á systkini mín. Það kom aldrei fram hvernig ég ætti að tækla þessa meintu einhverfu, það vantaði alveg kærleikann í þetta hjá þeim. Enda snerist þetta aldrei um einhverfu heldur var þetta leið þeirra til að finna merkimiða á mig. Til að geta sett mig í merktan kassa uppi á hillu með öllum mínum skrýtnu áhugamálum og þurfa ekki að spá meira í það.

Og nú er komið að því að slíta naflastrenginn. Ég þarf að halda mig frá fólki sem stendur ekki með mér þegar ég þarf á því að halda, er það ekki annars það sem fjölskyldur eiga að gera? Ég er að starta fyrirtæki, ég er líka með heimildamynd í vinnslu og svo tek ég þátt í því að reka leikfélag og félagsheimili. Það þarf hugrekki til að vera félagsmálafrík, það gefur mér bara svo mikið. Ég sæki mér andlega næringu í að umgangast gott fólk sem kemur mér til að hlæja og sýnir því áhuga sem ég er að gera. Og leiðir mig líka á rétta braut stundum. Það eru gríðarleg forréttindi að eiga slíkt fólk að og ég er auðmjúklega þakklát fyrir það.

Það er þetta með vatnið og olíuna, það blandast bara alls ekki. Sama hvað maður hristir og hristir.


Varúð - flóð í Ölfusá

Sumrin eru mér alltaf erfiðari en aðrir tímar ársins. Það tekur á að vera áhorfandi að lífinu og taka ekki þátt í neinu, af ýmsum ástæðum, fjárhagslegum eða tilfinningalegum. Að vera ein á báti. Að bíða eftir haustinu þegar allt fer aftur í gang.

 

Þetta sumar er búið að vera óvenju erfitt og ég held að það sé vegna þess að ég hef verið að opna á ýmsar skítaholur síðasta árið og slaka á varnarviðbrögðunum, allt til að láta mér líða betur. Þessar varnir hindra nefnilega framfarir.

 

Og af hverju er ég ein á báti? Er eitthvað að því að vera stundum ein á báti? Sjálfsagt ekki, en ég er bara búin að vera ein á báti frá því ég man eftir mér og kann ekki annað. Skammast mín þó alltaf fyrir það. 

 

Ég var bara 3-4 ára þegar ég fór að flýja heimilið og planta mér hjá systkinum mömmu, sem áttu börn á mínu reki og hélt því áfram fram á unglingsár. Ég lærði mjög fljótt að þarna átti ég ekkert tilkall til leikfanganna, eðlilega, ég var ekki heima hjá mér. Og heimakrakkarnir lærðu jafn fljótt hvílíkt vald þau voru komin með í hendurnar, þau gátu stjórnað því hvort ég mátti hafa legókubbana eða ekki og hvaða dúkku ég mátti hafa í mömmó, yfirleitt ekki þá flottustu.

 

Ég lærði að ég ætti ekki tilkall til neins og ætti ekki að vera fyrir. Alltaf var hægt að segja mér að fara og þá varð ég að hlýða. Og fór þá kannski heim, en oftar eitthvert út í móa eða á næsta róló þar sem ég gat fengið að vera í friði, jafnvel langt fram eftir kvöldi.

 

Ég var fimm ára þegar ég klemmdi mig á putta heima hjá móðurbróður mínum sem átti heima rétt hjá kirkjunni á Selfossi. Ég átti hinsvegar heima rétt hjá Mjólkurbúinu svo að þarna var ég farin að fara langar vegalengdir, meira en kílómetra sem er talsvert fyrir svona ungt barn.

 

Það var hræðilega sárt að klemma puttann og frændi minn tók mig í fangið og huggaði mig. Það var svo gott að vera í fanginu á honum að ég hélt áfram að kreista upp væl eftir að verkurinn var farinn að minnka, bara til að fá að vera þar lengur. Ég man þetta svo vel af því að þetta var svo einstakt, að vera í fangi og fá huggun. Ég þekkti það ekki að heiman.

 

Mín elsta minning er frá því að ég er rétt orðin tveggja ára (já ég veit að ég á ekki að geta munað neitt frá þeim aldri en ég man þetta samt) og við erum að leggja af stað niður í þorp. Það er búið að setja bróður minn nýfæddan í vagninn minn og ég þarf að ganga, ó hvað mér finnst það óréttlátt og hvað mig hryllir við því að þurfa að ganga alla leið niður í þorp.

 

Kannski var ég bara lítil leiðindaskjóða að upplagi en þetta hefur greinilega verið talsvert áfall fyrst ég mundi það. Þarna var ég ekki lengur litla barnið á heimilinu og var auk þess komin með bróður sem mamma dýrkaði og dáði, ég man vel eftir því að hafa samglaðst mömmu yfir því að vera loksins búin að eignast strák eftir tvær stelpur. Og svona líka fallegan.

 

Þegar ég byrjaði að flýja út af heimilinu átti ég nýfædda systur og rúmlega ársgamlan bróður og var búin að læra að mamma þyrfti að sinna þeim, ég ætti ekki að vera fyrir. Ég átti líka eldri systur sem var fjögurra og hálfs og tók stöðu sína sem elsta barn mjög hátíðlega. Hún kunni mjög fantalegar aðferðir til að passa upp á þá stöðu sína og það var einfaldlega ekkert pláss fyrir mig.

 

Ég var komin yfir þrítugt þegar ég áttaði mig á því að pabbi hefði verið alkóhólisti, áratug eftir að hann dó. Ég átti á þeim tíma kærasta sem var mikill AA-maður og dró mig á Al-Anonfundi svo að ég gæti betur sett mig inn í hans vandamál og hjálpað honum. Góða konan ég, alltaf hjálpandi. Það var hlutverk sem ég kunni upp á tíu.

 

Nema hvað, á þessum fundum töluðu flestir eins og þeir hefðu alist upp á æskuheimili mínu. Það var sama málfarið, sömu hlutverkin. Þá skildi ég hvers konar fjölskyldusjúkdómur alkóhólismi er. Pabbi stundaði alltaf sína vinnu en þegar hann kom heim hellti hann úr skálum sínum yfir allt og alla, ég var ekki gömul þegar ég tók eftir því að pabbi kom allt öðruvísi fram við það fólk sem hann leit upp til en okkur. Hann lagði mikla áherslu á að kenna mér að taka gríni, en grínið hans var bara yfirleitt ekkert grin, frekar svona niðurlæging. Hann kallaði bróður minn hlandgosa því að hann vætti rúmið til tólf ára aldurs, greinilega ekki mjög áhugasamur um að finna lausn á því vandamáli. Pabbi var mjög yfirgæfandi karakter á heimilinu, hæðinn og oft andstyggilegur og ég var ótrúlega fegin þegar hann dó. Ég hef aldrei saknað hans, skammaðist mín fyrir það um skeið en hristi það svo af mér með meiri þekkingu. Ábyrgðin var hans.

 

Það var gott að komast að þessu um alkóhólismann, það setti hlutina í ákveðið samhengi og ég var ekki lengur jafn gjörsamlega úti á túni. Þarna var ég komin með verkfæri sem ég gat notað til að tengjast systkinum mínum. Að ég hélt.

 

Ég hef grun um að systkini mín haldi að ég hafi haft það alveg stórkostlegt inni á öllum þessum annarra manna heimilum og öfundi mig af því. Ég held að það sé rótin en svo hefur bæst í skítahauginn með árunum.

 

Auk þessara tveggja systkina mömmu sem bjuggu á Selfossi var ég mikið í sveitinni hjá afa og ömmu þar sem ég myndaði náið sambandi við kýrnar í fjósinu og var auk þess nokkuð öflug í tónleikahaldi úti í móa ásamt stórvinum mínum Herði Torfasyni og Ian Gillan, ímyndunaraflið var allt sem þurfti. Ég lærði að dunda mér ein og hafði nóg rými til þess í sveitinni. Mögulega er það ein ástæða þess að mér finnst gott að búa í sveitinni í dag.

 

En ég er líka ennþá að dunda mér ein og það er ekki gott fyrir mig. Mögulega hafði ég það eitthvað betra en systkini mín sem voru föst heima í öllu ruglinu. Þau hafa ábyggilega ekki haft það gott en þau höfðu þó hvert annað. Alveg síðan ég gerði þessa uppgötvun með alkóhólisma pabba hef ég reynt að tengjast systkinum mínum en árangurinn hefur ekki verið neinn. Það er eins og ég komi þessu fólki ekkert við.

 

Sem væri allt í lagi ef ég væri ekki alltaf að dragnast með þennan eldgamla kvíða sem spratt af þessu öllu. Kvíða sem hamrar á því að ég sé öðruvísi en aðrir og eigi ekki að vera að reyna að nálgast annað fólk. Ég treysti því ekki að ég sé velkomin heima hjá systkinum mínum, ég hef of oft fengið frekar furðulegar móttökur.

 

Það er gegnsær veggur á milli okkar sem ekki einu sinni fuglinn fljúgandi kemst yfir, veggur sem byrjaði að hlaðast upp þegar ég eignaðist systur á þriggja ára afmælisdaginn minn. Ég lærði fljótlega upp úr því að mamma væri of upptekin yfir litlu börnunum, ég mætti ekki trufla hana. Og svo var ég auðvitað vita gagnslaus.

 

Þar sem ég hjálpaði ekkert til lærði ég að skammast mín fyrir að vera ekki jafn dugleg og elsta systir mín sem var farin að sópa og skúra og gera ótrúlegustu hluti bara 5-6 ára. Hún hefur skiljanlega þróað með sér einhverja neikvæðni gagnvart þessu hlutverki því að hún fékk mikla útrás með því að berja mig eins og harðfisk, draga mig á hárinu og slíta utan af mér föt um leið og hún öskraði á mig að ég ætti að hjálpa til og reyndi að þvinga mig, sem gerði mig auðvitað kolbrjálaða, mér fannst ekki rétt að systir mín væri að skipa mér fyrir verkum og berja mig í klessu um leið, samtímis því að hún gætti þess vel að ég tæki ekki þessa stöðu af henni.

 

Þarna vorum við sennilega hvorug byrjuð í skóla, mikið hefði þetta getað þróast á betri veg ef einhver fullorðinn hefði skipt sér af. En pabbi hinsvegar var bara ánægður með hana, einhver varð jú að kenna mér að hlýða.

 

En ég lagði bara á flótta og systir mín hélt áfram að þróa sitt hlutverk. Svo bættust við fleiri systkini sem hún gekk óbeint í móðurstað og gætti enn betur að því hlutverki sínu því að hún jafnvel sleit þau úr fanginu á mér ef ég ætlaði eitthvað að sinna þeim.

 

Hún er enn í þessu hlutverki og verður fyrir lífstíð, hennar sjálfsmynd byggir eingöngu á því og ef hún missir það á hún ekkert eftir. Samskipti okkar hafa bara kólnað með árunum og dætur hennar þekki ég sáralítið, enda gætti hún þess vel að ég tengdist þeim ekki. Samkeppnin alltaf hreint. Og systkini mín ganga beint í hennar spor eins og þau hafa gert alla tíð.

 

Þetta er nú meiri dramatíkin, þetta gæti verið rússnesk skáldsaga frá 19. öld. En þetta er ekki skáldsaga. Þetta er rótin að því að lífi sem ég hef lifað. Þarna er ég ekki einu sinni komin að eineltinu, þ.e. eineltinu utan heimilis.

 

Ég var mjög lítil þegar ég lærði að lesa. Ég kunni alla stafina þriggja ára og fylgdist áhugasöm með þegar mamma var að kenna elstu systur minni. áður en nokkur vissi var ég orðin fluglæs fjögurra ára. Það er víst ekki óalgengt nú á dögum en þegar ég var lítil var ég álitin furðuverk út af þessu. Þar sem ég kunni að lesa var ég ekki látin taka sex ára bekkinn, stöbbuna eins og það var kallað, og byrjaði því skólagönguna í fyrsta bekk, mjög stolt og yfir mig spennt.En skólinn reyndist algjör hryllingur og mín beið því bara tíu ára afplánun þar sem engin leið var að losna. Jafnvel ekki þótt ég prófaði heimavistarskóla, þar komst ógeðið bara á hærra stig.

 

Ég veit ekki hvernig eineltið byrjaði en smám saman lenti ég alveg úti í horni. Löngu síðar komst ég að því að krakkarnir höfðu flestir verið saman í stöbbunni og þar urðu öll hlutverkin til. Þar sem ég var alltaf ein og hafði ekkert bakland í fjölskyldunni þá hafði ég ekki það sem þurfti til að bora mér inn í þennan hóp og fá úthlutað einhverri stöðu.

 

Og enn síðar komst ég að því að ein stúlkan var mér sérstaklega andsnúin því að einkunnirnar mínar voru oftast hærri en hennar. Það sem ég var svo stolt af reyndist mér mjög illa félagslega og auðvitað hafði ég ekkert vit á því hvernig ég átti að bregðast við. Þessi stúlka var algjör kónguló og hún gróf virkilega undan mér. Klíkan hennar var sú eftirsóttasta og til að fá að vera í henni var bannað að leika við mig. Þetta vissi ég ekki fyrr en nýlega, hélt bara að ég væri svona leiðinleg og eitthvað mikið að mér, og fékk því miður engan stuðning frá elstu systur minni þótt hún væri áhorfandi að þessu á skólalóðinni alla daga.

 

Ég lenti semsagt mitt á milli þessarar stúlku og systur minnar og báðar lögðu mig í massíft einelti, heima og í skólanum. Og þar sem mér leið sífellt eins og ég væri alein á tunglinu þá trúði ég því einfaldlega að það væri eitthvað mjög athugavert við mig. Semsagt ekki mjög góð staða. Og þrátt fyrir allt mitt brölt þá hef ég komist að því að ég er ennþá á þessum sama stað, hinum megin við glervegginn og horfi á allt fólkið sem mig langar til að tengjast. Og óttast að ég hafi ekki það sem til þarf.

 

Nú er ég dottin út af vinnumarkaði og þar sem ég á hvorki fjölskyldu né vinnufélaga þá þarf ég sjálf að sjá um öll tengsl. Ef ég geri það ekki þá geta auðveldlega liðið mánuðir án þess að ég sjái framan í annað fólk, ég gæti drepist og enginn tæki eftir því. Engar áhyggjur, ég er ekki að fara að drepast. Ekki ef ég fæ ráðið því sjálf, allavega.

 

Ég reyndi sjálfsvíg þegar ég var ellefu ára og hætti við þegar það rann upp fyrir mér hvað þetta væri endanlegt. Það var alltof ósanngjarnt, ég átti þetta ekki skilið. Einhvern tímann yrði ég fullorðin og réði mér sjálf, þá yrði allt betra. Þá lofaði ég sjálfri mér að prófa þetta aldrei aftur og hef staðið við það.

 

En stundum leiðist mér svo svakalega, sérstaklega á sumrin þegar allir eru í útilegum úti um hvippinn og hvappinn. Og takið eftir: Ég er nýfarin að geta sagt það upphátt að mér leiðist því að ég er með það innprentað að ég geti sjálfri mér um kennt og eigi að skammast mín fyrir það. Ég gæti alveg farið og tjaldað en það er ekki það sama að gera það ein. Ég skammast mín alltaf pínu fyrir að vera ekki eftirsóttari en þetta. Ég á alveg vini þarna úti en einhverra hluta vegna er það alltaf ég sem hef samband, það er sjaldan á hinn veginn.

 

Mögulega hef ég miklu meiri þörf fyrir vini mína en þeir fyrir mig. Og mögulega stendur vináttan ekki á nógu djúpum rótum. Sem er að vissu leyti skiljanlegt, ég er alls ekki nógu dugleg við að gefa af mér. Þegar ég hef opnað mig um fortíð mína verða vinir mínir gjarnan dálítið sjokkeraðir og vita ekki hvernig þeir eiga að vera, svo að ég hef lært að tala ekki um það. Og þá er ég heldur ekki að gefa af mér. Sem þýðir að þá er ég ekki heldur að byggja upp vináttu. Vítahringur.

 

Ég er alltaf komin beint í rótina og hálfleiðist yfirborðskennd samskipti, ég er meira í Tolstoj en Rauðu ástarsögunum. Alltaf kryfjandi, af hverju er þetta svona en ekki svona? Hvað er hægt að gera til að bæta ástandið?

 

Ég var lengi eins og svefngengill og var ævinlega sammála síðasta ræðumanni, samtímis öfundaði ég fólk sem hafði sjálfstæðar skoðanir og fylgdi þeim eftir. Ég öfundaði fólk sem gat horft í augun á hverjum sem var, það gat ég ekki fyrir nokkurn mun en þráði það mest af öllu. Ég prófaði ýmsar aðferðir til að láta fólki líka við mig og skildi ekkert hvernig fyrir sumum var það eins og að drekka vatn. Hvernig átti ég að fara að þessu?

 

Mér datt ekki í hug að uppvöxturinn minn væri eitthvert vandamál í þessu samhengi, það var einfaldlega bara eitthvað að mér. Ég veit í dag að það var ótti. Lamandi ótti sem ég tók sífellt á hörkunni og sleit mér út smám saman því að ég þurfti jú að fúnkera á vinnumarkaði. Ótti við yfirmenn, ótti við að standa mig ekki í starfi, ótti við að gera mig að fífli, vera rekin út í horn. Allt eintómar endurtekningar frá því ég var lítil.

 

Ég er að öllum líkindum búin að vera með vefjagigtina frá fæðingu því að ég gat aldrei neitt í leikfimi. Ó ef ég hefði nú orðið íþróttastjarna í íþróttahitlersæskunni á Selfossi og allir hefðu litið upp til mín. Sennilega hefði sú íþróttastjarna verið fljót að hrynja andlega því að baklandið var ekkert og þá hefðu tóldjúsó-raddirnar haft nóg að smjatta á.

 

Vefjagigtin var fyrsta greiningin sem ég fékk, og það eru bara tvö ár síðan. Þá var ég búin að vera í yfir 50 ár að velta því hvað væri að mér, af hverju ég væri svona léleg samsetning. Samtímis fékk ég greiningu á þunglyndi og kvíða og örorkugreiningu í framhaldi af því.

 

En systkini mín voru búin að greina mig með einhverfu löngu áður. Það var eftir að ég hélt upp á fertugsafmælið mitt ásamt frænku minni (ég þorði ekki að gera það ein) og hún breytti veislunni í brúðkaup fyrir sjálfa sig. Ég stóð þarna lömuð og hafði ekki hugmynd um hvernig ég átti að bregðast við, enginn viðstaddur skipti sér heldur af. Mín afspyrnuslaka sjálfsmynd gat engan veginn sagt mér hvort ég ætti rétt á því að vera reið eða hvort ég væri bara að búa til vesen með því að mótmæla, samt sagði allur líkaminn það, ég kunni bara ekki að hlusta á hann.

 

Auðvitað átti ég rétt, þarna var alvarlega brotið á mér, ég var bara svo stutt komin í sjálfsvinnunni að ég þorði ekki að treysta á það, allavega ekki án stuðnings. Systkini mín skemmtu sér konunglega í þessari veislu og það er sennilega ástæðan fyrir því að þau gátu ekki staðið með mér.

 

Upp úr þessu fæddist einhverfugreiningin, ein systir mín hafði lesið grein á netinu um hvernig einhverfa kvenna birtist allt öðruvísi en karla og það hvernig ég birtist henni, klaufaskapur minn í samskiptum og allt það sem ég veit í dag að eru merki um óttann sem hefur stjórnað mér frá þriggja ára aldri. Þetta seldi hún systkinum okkar sem fengu þannig afsökun fyrir því að hafa skemmt sér í veislunni og ekki staðið með mér.

 

Þannig hafa samskiptin sífellt versnað og ég er löngu hætt að gera mér vonir um að þau batni nokkurn tímann. Ég hef þessa systur mína sterklega grunaða um að vera á einhverfurófinu. Af þremur sonum hennar eru tveir einhverfir (þetta er mjög ættgengt) og þegar ég umgekkst hana mest var allt í ótrúlega föstum skorðum. Pizza var alltaf sótt á sama staðinn og alltaf með sama álegginu, hún eldaði alltaf sömu þrjá réttina og annað eftir því. Hún hafði ekkert umburðarlyndi fyrir skoðunum annarra, það var eins og að rífast við páfann að eiga í samræðum við hana. Sem er ekki hægt að segja um mig, hvor okkar er þá einhverf, ef nokkur?

 

Hún ásamt elstu systur minni hafa myndað svakalegt bandalag í gegnum tíðina, samt tala þær aldrei fallega hvor um aðra. Og engan yfirleitt ef því er að skipta. Sem minnir dálítið á talsmáta föður okkar. Ég giska á að það séu þeirra varnarviðbrögð við bernskunni, það er leitt að þær skuli ekki leita sér neinnar hjálpar því að vanlíðanin lekur af þeim. Kannski líður þeim bara vel þarna í hásætinu sínu.

 

Ég hef allavega lært af þeim hvernig ég vil ekki vera. Samt get ég einhvern veginn ekki lifað án systkina minna. Ég hef prjónað peysur og allan fjandann og gefið systkinabörnum mínum en það hefur ekki bætt samskiptin á nokkurn hátt. Ég hef óskað mér þess að eitthvað annað komi í staðinn til að hafa eitthvert mótvægi gegn þessari neikvæðni. En þegar ég lamast af skelfingu bara við tilhugsunina við ástarsamband þá er ekki von á miklum árangri. Og já, ég hef prófað Tinder, ég get bara ekki metið menn eftir útliti.

 

Ég hef lært ýmislegt um sjálfa mig í Stígamótum en mest hvað ég á svakalega langt í land. Og hvað ég get það alls ekki ein. Þegar ég er ein þá hvolfast yfir mig allskonar skítahugsanir. Hvernig stendur á því að ég er á svona slæmum stað, af hverju er ég ekki rík? Af hverju hef ég alla tíð verið í þessum skítastörfum sem borga svo illa að ég á ekki einu sinni íbúð?

 

Þá gleymi ég því hvernig ég barðist fyrir þeirri menntun sem ég hef. Hvernig ég var í tólf ár að safna mér einingum upp í stúdentinn og svo var ég önnur tólf að ná mér í sagnfræðinginn. Og nú er stutt í meistaragráðuna í HMM. Allan þann tíma vann ég á vöktum í hinum ýmsu umönnunarstörfum og nýtti frítímann til að ná mér í andlega næringu í gegnum skólabækurnar. Ég skulda engin námslán, af því að ég átti aldrei rétt á námslánum, skítalaunin mín voru of há fyrir Lánasjóðinn.

 

Og af hverju sagnfræðinginn? Af hverju ekki viðskiptafræðinginn eða eitthvað annað sem borgar sæmileg laun? Það var bara of leiðinlegt, of næringarsnautt. Sem mögulega eru fordómar, ég hef allavega mjög gaman af því að reka félagsheimili þessa dagana.

 

Ég held að ég hafi fyrst og fremst litið á námið mitt sem andlega næringu, eitthvað til að hverfa að á kvöldin þegar ég var að kafna og þurfti mótvægi gegn leiðinlegri og ófullnægjandi vinnu. Því að sjálfsmyndin mín leyfir mér ekki að kalla mig sagnfræðing. Ég er bara þessi verkakona sem ég hef alltaf verið. Ég þori aldrei að taka til máls þegar sagnfræði er rædd af ótta við að segja eitthvað vanhugsað. Það er sami óttinn og ég hef verið að dragnast með alla tíð, hversu oft hef ég ekki verið skömmuð fyrir þegjandahátt þegar ég kem í rauninni ekki upp orði? Ég hef andlega ekki efni á því að gera mig að fífli einu sinni enn, og sérstaklega ekki þegar það tengist einhverju sem er mér kært.

 

Í öllu þessu námi meðfram vinnu þráði ég að geta sökkt mér ofan í námið og þurfa ekki að gera neitt annað, eins og ég gerði í barnaskóla þegar ég virkilega mundi það sem ég lærði. En bannsettur kvíðinn truflaði stöðugt einbeitinguna mína, og svo var vinnan eitthvað að þvælast fyrir.

 

Sem sagnfræðin er. Ég elska öll þessi sagnfræðihlaðvörp sem eru út um allt og um leið er ég fegin því að vera aðeins fluga á vegg og hlusta, að þurfa ekki að tjá mig um efnið. Þannig fór ég í gegnum námið, sat og hlustaði og naut, en fríkaði svo út þegar ég átti að gera eitthvað. Ritgerðirnar mínar eru samdar með valdi, ég þurfti að þvinga orðin fram því að þau vildu hlaupa út um allt. Ég gat hugsað efnið upp en ekki komið því í orð nema með herkjum. Einkunnirnar mínar voru langt undir getu því að kvíðinn lamaði mig gersamlega. Heilaþoka er hluti af vefjagigtargreiningunni minni og ég held að hún hafi verið ansi dyggur förunautur í náminu.

 

Sem veldur mér sorg á sama tíma, ég vildi svo gjarnan geta deilt því sem ég elska með mínum nánustu, því sem ég er og því sem ég er gerð úr. Sem hefur gefið mér vissa tengingu við ákveðna minnihlutahópa. Þess vegna leið mér svo vel á Hlemminum þótt ég væri bæði atvinnulaus og heimilislaus og borðaði kannski bara eina samloku heilu dagana. Ég var bara í hópi sem ég tengdist sterkum böndum.

 

Það er ekki einfalt að vera kvíðin og hafa samtímis þörf fyrir að vera með fólki, ein af endalausum mótsögnum í lífinu. Ég var níu ára þegar ég byrjaði að syngja með kór og síðan hef ég oftast verið einhverjum kórum og óspart nýtt mér sönginn til að vera með fólki, samt alltaf dálítið óörugg með mig. Það urðu straumhvörf þegar ég gekk í Háskólakórinn, rétt áður en ég varð fertug og mikið er ég fegin að ég bauð þeim ekki í veisluna svo að þau sluppu við að verða vitni að þeim hryllingi öllum. Þá gat ég haldið áfram í kórnum og haldið andliti.

 

Þessir kórfélagar mínir voru flestir rúmlega tvítugir, ég fertug, og það tók mig nokkuð langan tíma að aðlagast þeim. Mig langaði bara svo mikið til að vera með, hlæja og hafa gaman og smám saman eignaðist ég góða vini sem ég á enn, merkilegt nokk. Þau eru í dag flest orðin fertug en ég er jú enn bara fertug svo að aldursmunur er ekki lengur vandamál. Svona er lífið stundum dásamlegt.

 

Með þeim tók ég þátt í félagslífi sem ég hafði aldrei áður gert, og fannst hálf klikkað að vera í fyrsta skipti á ævinni í þeirri stöðu. Ég fór með þeim í útilegur, utanlandsferðir og ótrúlega mörg partí þar sem var sungið í röddum og með ótrúlega mörgum hljóðfærum. Algjör hamingja. Svo fylgdist ég með þeim draga sig saman og fjölga sér, eins og fólk gerir. Og fannst það pínu súrsætt að vera einu sinni enn áhorfandi að lífinu. Ég meina, elstu börn vina minna eru í dag komin vel á fimmtugsaldur og þau yngstu eru fædd á þessu ári svo að spektrúmið er ansi breitt. En ég er hvort sem er komin úr barneign.

 

Einu sinni átti ég þó von á barni. Það var stutt meðganga sem endaði með fósturláti eftir 15 vikur. Ég var hálf fegin á þeim tíma því að ég var hætt með barnsföður mínum og hafði ekki fast land undir fótum. Kannski hefði ég ekki farið í háskólanám sem einstæð móðir. Kannski hefði það verið of mikið lagt á eitt barn að koma í staðinn fyrir fjölskylduna mína. Kannski hefðu þau náð að tengjast mér í gegnum barnið. Sennilega þó ekki.

 

Síðast var ég í Hinsegin kórnum áður en ég flutti í sveitina. Þar eignaðist ég líka kæra vini en fann líka vel fyrir félagsfælninni, enda alveg óuppgerð. Þó að meirihluti kórfélaga sé annarrar kynhneigðar en ég þá ætti það ekki að skipta máli, svo lengi sem allir viðstaddir styðja við fjölbreytni mannlífsins. En þegar flestir eiga eitthvað sameiginlegt sem ég á ekki sameiginlegt með þeim, þá tikkar það í gamalt box. Þau eiga umræðuefni þar sem ég get eingöngu verið hlustandi, eðlilega, og þegar það bætist við félagsfælnina mína og allt þetta óuppgerða, þá var það bara of triggerandi.

 

Og það bætti ekki úr skák að þarna varð ég fyrir fyrirlitlegri árás bróður míns, “hlandgosans” fyrrnefnda sem hefur ýmsar fjörur sopið og því miður ekki unnið úr sínu. Þegar hann komst að því að ein kórsystir mín væri vinkona mágkonu okkar, konu yngsta bróður okkar, þá bjó hann til sögu.

 

Hann sagði mér að hann hefði verið að spjalla við þessa mágkonu okkar og þessi vinkona hennar, kórsystir mín, hefði borist í tal. Mágkona okkar hefði spurt hana hvort hún þekkti mig ekki þar sem við værum saman í kór, og hún svarað: Ha, Bidda? Þessi gamla kerling þarna? Hún er snarfurðuleg, það skilur enginn hvað hún er að gera í kórnum, vonandi hættir hún bara því að það þolir hana enginn.

 

Ég trúði þessu nú ekki og sagði bróður mínum að ég myndi spyrja báðar þessar konur hvort þetta væri satt. Honum var nú slétt sama um það. Og þær komu auðvitað báðar af fjöllum eins og ég vissi. En þetta var mjög sárt samt sem áður. Og alveg magnað hvernig honum tókst að hitta beint á minn veikasta punkt. Sem segir mér talsvert um að systkini mín vita um hvað málið snýst og nota það gegn mér. Allt frekar en að feisa hlutina.

 

En ég potast áfram. Ég þrái að komast til sálfræðings en því miður hef ég ekki efni á því. Það er eitt af þessum innihaldslausu loforðum stjórnmálanna að semja við sálfræðinga um að verða hluti af heilsugæslunni en fjármagna það svo ekki. Ég læt mig ekki einu sinni dreyma um EMDR.

 

Ég fór til sálfræðings í Borgarnesi fyrsta veturinn minn hér, þetta var gamall maður sem var í rauninni kominn á aldur og það truflaði mig að hann skrifaði aldrei neitt hjá sér svo að ég var alltaf í vafa um hvort hann myndi eitthvað af því sem við töluðum um síðast og þar áður. Hann prófaði til dæmis að dáleiða mig, sem gekk ekki. Og eitt sinn sagði hann að saga mín væri þess eðlis að ef ég væri ekki svona sterk þá hefði ég getað sokkið á kaf í ólifnað og legið undir óteljandi körlum. Eftir það hætti ég að mæta til hans, þetta var alls ekki til að hjálpa mér.

 

Og þessi styrkur. Ég hefði jú alveg getað farið þessa dramatísku leið og hef oft verið þakklát fyrir að ég erfði ekki alkóhólisma föður míns. Ég erfði nefnilega flest annað frá honum. Pabbi minn var gríðarlega vel gefinn og átti mikið af bókum sem ég las aftur og aftur, honum fannst þó alltof mikið fyrir neðan sína virðingu að ræða þessar bækur við barnið. Hann hefði getað orðið svo margt ef hann hefði ekki verið fastur í þessari endalausu sjálfsvorkunn, ef hann hefði einhvern tímann sett börnin sín ofar en sjálfan sig. Hann er búinn að vera mér endalaust víti til varnaðar.

 

Og ég er ekki sterk. Ég er þvert á móti í henglum. En ég held áfram. Því að ég vil betra líf. Hvenær kemur annars þessi happdrættisvinningur?

 

Og ég hef ekki enn minnst á Barnaból, fyrirtækið sem ég stofnaði utan um vöggusettin mín. Vöggusettin hafa verið mín sálubót síðustu tíu árin og mér líður alltaf betur þegar ég er að vinna í þeim. Nú eru þau nánast tilbúin, ég hef verið að taka ljósmyndir og þarf næst að semja textann sem á að fara í bæklinginn. En ég þarf að safna mér saman til að koma því í verk, það er býsna stórt átak að koma einhverju út úr hausnum á sér og út í kosmósið. Það er í rauninni í alveg ótrúlega mikilli mótsögn við allt sem ég hef gert hingað til. Engan kvíða, takk.

 

En haustið er að nálgast og þá eykst mér orka. Kannski er ég vampíra, hver veit??? 

 


Næsta síða »

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband