Fuglinn Fönix

Ég er búin að eiga alveg ótrúlega erfiðan maímánuð. Það er merkilegt í ljósi þess að ég skilaði af mér meistaraverkefni og mun því ljúka löngum kafla í lífi mínu. En það er einmitt málið. Það er kannski bara það sem allt þetta snýst um. Mér hefur leiðst alveg hrikalega en ég veit líka að þegar mér líður svona þá hef ég ekkert að gefa öðru fólki.

 

Ég er vissulega í sorgarferli, og það var löngu kominn tími til. Ég leit ekki á fráfall föður míns sem missi en ég horfði hinsvegar ekki á stóru myndina, að ég missti fjölskylduna mína þriggja ára og fór þá í endalausa vinnu við að reyna að fá að tilheyra henni. Eða bara tilheyra einhvers staðar þar sem ég fékk að vera. Það er talað um að sorgarferlið sé í þrepum, það er reiði, afneitun og eitthvað fleira. Ég er búin að vera  í afneitun. Það býr í mér mikil reiði og sársauki sem ég þarf að tækla til að geta haldið áfram. Ég er að fara til sálfræðings núna í júní eftir hálfs árs bið. Þetta er emdr sem er víst það heitasta núna, ég er allavega spennt. Það er nóg til frammi, haughúsið er alveg fullt. Systkini mín munu aldrei sættast við mig vegna þess hversu opinská ég er. En þau tala ekkert um að ég sé að ljúga, það er áhugavert. En ég þarf sjálf að vera sátt. 

 

Ég hef verið í námi meirihlutann af mínum fullorðinsárum og þar sem það var mér umfram allt andleg næring þá hugsaði ég ekki um að læra eitthvað "hagnýtt", eitthvað sem gæti skaffað mér tekjur, það varð eðli málsins samkvæmt að vera eitthvað sem mig langaði í. Ég hef oft í blankheitum mínum pirrast á sjálfri mér fyrir að sækja meira í sagnfræði og bókmenntir en viðskiptafræði. Og aldrei hvarflaði að mér að læra hárskerann eða rafvirkjann. 

 

Það játast hér með að ég hef lifað tvöföldu lífi. Umönnunar-Bidda og Skóla-Bidda hafa verið vægast sagt ólíkar manneskjur og það hefur stundum verið flókið. Í dagvinnunni (sem er ekki alltaf á dagvinnutíma) hef ég skúrað og skrúbbað, baðað fólk, þrifið óteljandi klósett og svo framvegis. Ég hef gaman af því að gefa af mér og margt af þessu hefur verið dásamlegt, sérstaklega þegar ég vann í skammtímavistun fyrir fólk með þroskahömlun. Síðan þá á ég ótrúlega stóran hóp af vinum, bæði af þiggjendum þjónustunnar og þeim sem unnu með mér. Við vorum öll með hjartað að leiðarljósi og það tengdi okkur saman. En það var ekki alls staðar svona dásamlegt og sums staðar var andrúmsloftið kolsvart. Fyrir manneskju með slaka sjálfsmynd, sem sótti öll sín félagslegu samskipti í vinnuna, þá gat það orðið þung byrði. Það bætti svo ekki úr skák að þetta var hræðilega illa launað starf. Eða kunni ég kannski ekkert að fara með peninga? Veit ekki, ég var andlega sofandi. En þetta sleit mér út.

 

Það tók mig tólf ár að safna mér einingum upp í stúdentspróf og meðfram því var ég lengst af í Hampiðjunni og á Kópavogshæli. Svo fór ég í háskóla og aftur tók það mig tólf ár að safna einingum upp í BA-gráðu. Svo þegar hún var komin fékk ég endalausar spurningar um hvað ég ætlaði að gera við hana og ég hafði hreinlega ekki hugmynd, hélt bara áfram í mínum umönnunarstörfum þó að ég væri löngu brunnin út. Ég ber mikla virðingu fyrir umönnunarstörfum, bæði þiggjendum og veitendum. Ég ber það mikla virðingu fyrir þiggjendum, yfirleitt öldruðum eða fötluðum nema hvort tveggja sé, að þetta fólk á betra skilið en að vera sinnt af útbrunnu fólki. Það sleit mér meira út en nokkuð annað, að finna að ég gat þetta ekki en þurfa samt að halda áfram eins og hauslaus hæna, einhvers staðar þarf kona að vinna. 

 

Það bjargaði mér að fara á örorku. Í dag hef ég fasta innkomu í formi örorkubóta og það er frekar glatað að það er svipuð upphæð og ég hafði sem stuðningsfulltrúi. En tölum ekki um það. Eftir að ég fór á örorku gerðist ég minn eigin stuðningsfulltrúi og hef sett heilsuna mína í forgang, bæði líkamlega og andlega. Það hefur gefið mér tækifæri til að stofna fyrirtæki í kringum vöggusettin mín og það hefur líka gefið mér tækifæri til að ljúka meistaragráðu, tíu árum eftir að ég byrjaði á henni. 

 

Það er kannski það sem dregur mig svona niður, meðfram sorgarferlinu, ég er að missa hækjuna mína. Það að vera alltaf í einhverju námi og geta flúið í það hefur hjálpað mér að halda geðheilsu í gegnum árin, það hefur í raun verið stærri tilgangur en námið sjálft. Ég hef tilheyrt mínum skólafélögum og lagt aðrar Biddur til hliðar á meðan. En nú ætla ég að gera þetta öðruvísi. Ég mun örugglega skrá mig í eitthvert nám, bara ekki strax. Og það nám verður ekki notað sem hækja, ég held að ég þurfi ekki lengur hækjur. Mig langar að læra ritlist, mig langar líka í myndlist. Og svo langar mig alltaf í þjóðfræði. Það væri líka gaman að læra að syngja. Og ég er ennþá jafn sjúk í listasögu og þegar ég var í FB hjá henni Sigríði Candi fyrir 30 árum. Kannski ég eigi eftir að flytja til Ítalíu eftir allt saman? Ég gat það ekki þá því að sjálfsmyndin mín stóð ekki undir því, ég hafði ekki kjark. Ég hef hann núna en nú er ég auk þess komin með fyrirtæki sem ég er að byggja upp, þá þarf ég að vera á Klakanum.

 

Mesta myrkrið er alltaf rétt fyrir dögun. Ég er búin að sleppa mörgum hækjum undanfarið og sú stærsta er þessi furðulega trú á því að ég gæti sameinast fjölskyldunni minni. En ég veit núna hvaðan hún kemur, ég er búin að skrifa ritgerð um það. Ég fæ ekki að tilheyra þeim en ég þarf að tilheyra mér sjálfri, sækja mér betri næringu en hingað til. Það þýðir að setja markið hærra.

 

Þar sem ég er búin að vera á eigin vegum frá þriggja ára aldri þá hef ég lært það sem kallað er að vera "streetwise". Það þýðir að hugsa í lausnum; hver er staðan og hvaða möguleika hef ég? Þarf ég að hlaupa, þarf ég að ljúga, get ég verið ég sjálf? Þegar ég stend frammi fyrir vandamáli og þarf að leysa það, þá geri ég það því að lífið liggur við. Þá er ekki í boði að bíða eftir því að einhver annar geri það sem ég veit að þarf að gera. Þetta hefur gert mig að framkvæmdastjóra í eigin lífi, ég hef yfirsýn og veit nokkurn veginn hvað þarf að gera, hvað ég get gert og hvað ég þarf að biðja aðra um. Þetta leyndist þarna inni, beið bara síns tíma.

 

Fuglinn Fönix reis úr öskunni. Hann brann upp og þá fæddist nýr Fönix, eldfuglinn sjálfur. Sá nýi er ekkert bundinn af þeim gamla, er það nokkuð?

 

Verkefnið mitt núna er að spyrna mér frá botninum. Ég er búin að vera meira og minna lömuð undanfarið, hangi bara í heilalausum leik í símanum og ræð ekki við að lesa bók, hvað þá annað. Ég kann allskonar trix til að ná upp þreki en þau duga mér ekki þessa dagana, ekki einu sinni flottu leikfimitímarnir í íþróttahúsinu í Borgarnesi. Það var mikill léttir þegar ég áttaði mig á því að ég mætti alveg vera heima, að ég mætti hvíla mig á hreyfingunni og hollustunni í bili. Af því að ég veit að það verður bara um stundarsakir og gengur yfir eins og aðrar flensur.

 

Ég hef verið að læra að sýna sjálfri mér mildi og því er ég ekki pirruð á þessu hangsi, það er ekki sanngjarnt. Þetta gengur yfir, bráðum fæ ég hjálp við að setja upp samfélagsmiðla fyrir Barnabólið og bráðum get ég farið að máta kjóla fyrir útskriftina í júní, þarf bara að bíða eftir að sauðburður gangi yfir svo að Magga mín komist með. Og svo erum við að fara að halda Bjartmarstónleika, það verður stuð. Og svo erum við komin með þetta fína frumsamda handrit að söngleik og ég er búin að raða í helstu hlutverkin. Eða sko, gera tillögur. Ég ræð því auðvitað ekki ein. En allt svona eykur mér krafta. Og svo langar mig í sjósund. Ég segi það á hverju ári en þetta sumarið skal það gerast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband