Bisniss-Bidda

Mig dreymdi í nótt að ég var búin að kaupa mér heila verslunarmiðstöð, ekkert minna. Og útskýrði stolt að ég þyrfti ekkert að borga því að hún var full af fyrirtækjum sem myndu borga mér leigu og þannig fengi ég pening fyrir þessu. Sem var þó ekki öruggt því að hún var ekki í alfaraleið, meira í úthverfi. Svo fór ég að skoða þessa verslunarmiðstöð. Þarna voru allskonar fyrirtæki en lýsingin var frekar lítið aðlaðandi, allt í flúorperum og þungum viðarlitum innréttingum sem voru í tísku þegar ég var krakki.

Og fyrirtækin stóðu mjög misvel, eiginlega flest frekar illa. Þarna var lyfta með svo slitnum tökkum að það var varla hægt að lesa á þá og ég fór að skoða efri hæðirnar, þær voru frekar niðurníddar en þó einhver fyrirtæki, mest í heilbrigðisþjónustu. Uppi á efstu hæð bjuggu gamlir karlar sem seldu ónýtt drasl, aðallega sápur og kerti í sjúskuðum umbúðum og ég var ekki mjög hrifin. Þegar ég fór niður af sjöttu hæð var gömul kona samferða í lyftunni og hún datt úr henni og lenti á fjórðu. Ég rauk á eftir henni og vildi kalla á lækni en hún vildi ekki sjá það og var studd inn til sín af karlinum sínum.

Ég fór niður á fyrstu og lenti þar í einhverskonar verslun eða apóteki sem breyttist í krá og þar voru allir þessir gömlu karlar mættir með kveðskap og læti ásamt konunni sem datt og var greinilega orðin hress því að hún þrammaði út um allt. Á þessum bæ er ný bíómynd á hverri nóttu.


Gláp

Ég var að horfa aftur á viðtal Loga Bergmanns við Margréti Pálu og það er eitthvað við það sem situr virkilega í mér. Þegar hún dró upp mynd af samfélaginu eins og það var þegar hún kom út úr skápnum, þá hoppaði ég til baka til þessara tíma. Ég hoppaði aftur til níunda áratugarins þegar allir voru í sömu snjóþvegnu gallabuxunum, með sömu síttaðaftan-klippinguna og með sömu gleraugun. Allir eins.

Ég reyndi mikið að vera eins og allir aðrir en um leið öfundaði ég alla þá sem þorðu að vera sjálfstæðir og fóru sínar eigin leiðir, það útheimti meiri kjark en ég hafði til að bera. Ég fór einu sinni í klippingu þegar allir voru með sítt að aftan og var þá búin að vera lengi að safna hári, enda vel meðvituð um að það hentaði betur mínu breiða andliti. En klipparinn spurði mig ekkert heldur renndi sér beint í ríkisklippinguna. Og það versta var ekki það að hann spurði mig ekki, enda var í tísku að hafa sítt að aftan og stutt í vöngum og því óþarft að spyrja. Nei, það versta var að ég hafði ekki rænu á að mótmæla og fór út með mitt kartöfluandlit þegjandi og hljóðalaust og fannst ég afskaplega valdalaus. Ég var ekki sátt, þess vegna man ég þetta, en ég var ekki farin að forma þá hugsun að ég gæti sjálf valið hvernig ég vildi líta út, röndótt eða rósótt eða guðmávitahvað. Enda þekkti ég engan sem ekki reyndi að ganga í takt. Málið var að aðlagast hinum, ekki skera sig úr.

Ég get rétt ímyndað mér hvernig það hefur verið ofan í kaupið að vera hinsegin ofan á allt annað. Í þessu botnfrosna samfélagi sem þekkti ekki skapandi hugsun nema af afspurn, þurfti að finna öllum einhvern stað. Ein vinkona mín vann í tískubúð og þekkti nokkra homma sem voru miklar tískufyrirmyndir. Það var eins og þeir væru fylgihlutir, það þótti svo töff að þekkja þá. Það voru hinsvegar aldrei neinar lesbíur í þessu hlutverki. Þær þóttu ekki töff og algerlega alls engar tískufyrirmyndir. Þær fengu bara gláp.

Og af hverju er ég að þessu blaðri? Hvar er tengingin? Tengingin er samfélagið og í rauninni hef ég alveg sérstakan áhuga á því hvernig samfélagið tekur utan um börnin sín. Þetta er hrein og klár félagsfræði. Það var eitthvað sem Margrét Pála sagði sem varð til þess að ég sá sjálfa mig í hópi þeirra sem dæmdu hana með augnaráðinu einu og héldu henni utan samfélagsins. Ég hefði nefnilega algerlega verið sá karakter, bara til að stækka mig í augum annarra. Sem segir talsvert um hvað ég þurfti að læra. Ég þurfti að gera mig að fífli nokkrum sinnum til að læra þá lexíu. Með alveg sama hugarfari og þegar ég lét ríkisklippinguna yfir mig ganga. Óljós óþægindatilfinning í maganum en ekki nóg til að gera eitthvað.

Þetta samfélag hafði nefnilega ekki pláss fyrir mig heldur og það var stórt verkefni að vinna upp skaðann af því, að læra nýjar og heilbrigðari aðferðir til að lifa af. Ég skrifaði meira segja grein í Moggann um það á sínum tíma, enda aldrei kunnað að halda mér saman. Og nú eru komin yfir fimmhundruð orð svo að hér set ég punkt.


Í draumaheimi

Nú er að verða liðið ár frá því að ég vann síðast ærlegt handtak. Ég flutti af þriðju síðla sumars og var á vergangi í nokkra mánuði meðan fyrsta hæðin var standsett, þá notaði ég tímann villt til að heimsækja hitt og þetta fólk og lagðist upp á móður mína tímunum saman. Síðan fór Leikdeildin í gang og þá hafði ég nóg að gera, svo kynntist ég líka fullt af nýju fólki. Sýningar voru ekki fyrr hafnar en þær voru blásnar af og þar með var ég jafn aðgerðalaus og fyrr.

Ég er ekki í neinni sóttkví en satt að segja þori ég varla í heimsóknir því að ég hef á tilfinningunni að ef fólk  er ekki á annað borð í sóttkví, þá er það í nánum samskiptum við einhvern sem umgengst gamalt fólk eða annað sem er í viðkvæmri stöðu. Svo að ég hangi mest heima, lita í litabækur, hekla og hlusta á Storytel. Ég fór með þægilega stólinn minn til mömmu þannig að núna get ég ekki kúrt í fósturstellingunni fyrir framan sjónvarpið, það var tilraun mín til að koma mér upp úr stólnum en sennilega var ég mánuði of snemma í því. Ég var að hugsa um hvort kirkjukórinn væri ekkert farinn að huga að páskamessusöng, ég er alveg komin þangað. En sennilega verður eitthvað lítið um slíkt.

Þannig að ég sef. Og sef og sef. Sef þar til ég rumska og sný mér svo á hina og sef lengur. Og draumaruglið, maður minn lifandi! Í nótt tók ég á móti barni þar sem öll eldri systkini þess barna sátu í kring eins og í skólastofu. Þetta tiltekna barn er ekki væntanlegt í heiminn næstu mánuðina en eitthvað hefur hugurinn verið að þvælast þar. Ég er líka búin að kenna sund, enda gríðarlega vel til þess fallin eins og hver maður veit. Og eiga rökræður við eina stutta sem veit allt betur en ég og því fer ekkert inn í kollinn á henni. Ég hef verið landvörður í Skaftafelli og farið út um allt með fólk. Draumarnir mínir eru alltaf fullir af fólki.

fólk

Fyrir nokkrum nóttum var ég á rúntinum með einhverjum, man ekki hverjum, og við keyrðum framhjá húsi í smíðum. Ég bara varð að fá að skoða þetta hús, þetta tveggja hæða steinhús með stillönsum og plasti í gluggum. Förunautur minn fékk ekkert að ráða því. Þegar ég kom inn um gluggann á efri hæðinni (mjög rökrétt, reyndar voru þarna há tré svo að sennilega hef ég klifrað, auk þess stóð húsið í brekku), þá kom í ljós að það bjó fólk í húsinu. Sem var auk þess alveg glerfínt að innan. Húsmóðirin sá ekkert athugavert við þessa heimsókn og sýndi mér húsið í krók og kring, bara eins og ég væri sjálf Vala Matt, og það var heilmikill sýningartúr. Þetta var stærðarinnar fjölskylda og öll börnin áttu sín herbergi sem voru útbúin hér og þar, undir stigapöllum og í útskotum, nóg pláss fyrir alla. Og þegar niður kom, við byrjuðum náttúrlega á efri hæðinni, blasti við risastórt eldhús með allskonar útbúnaði. Þarna voru ræktaðar kryddjurtir og allt eftir bókinni. Og þarna voru afi og amma (ekki mín, bara íbúanna, þarna var ég gestur) og mikill ys og þys. Þau voru í stofunni og voru að reyna að finna eitthvað í sjónvarpinu. Og þá tók ég eftir því að það var enginn venjulegur stigi í húsinu, heldur bara hallandi braut eða stígur sem fór í gegnum allt húsið og tengdi öll herbergin. Þetta fannst húsmóðurinni alveg afskaplega praktískt, svo auðvelt að þrífa og svona. Þá fór ég að hugsa um að ég gæti varla staðið í svona halla án þess að fá verki í fæturna og þá vissi ég að ég var að vakna.

tenor

Svona er lífið mitt þessa dagana. Ég hef fasta punkta tvisvar í viku þar sem er sjúkraþjálfunin, þess á milli sef ég. Og bíð eftir vorinu svo að ég geti farið að fara í gönguferðir og sund og allt þetta sem ég er alltaf að lofa hreyfistjóranum en stend aldrei við. Ég er búin að komast að því að ég hata allt sem reynir á líkamann, það eru afleiðingar þess að hafa alla ævi haft sjúkdóm í líkamanum sem hefur hindrað mig í að standa jafnfætis öðrum. Þetta var ein af ástæðunum fyrir eineltinu, klunninn sem gat ekkert var auðvelt skotmark. Og allt mitt  síðari tíma sprikl hafði aldrei neitt að segja, hvort sem það hét eróbikk eða eitthvað annað. Ég skildi bara ekkert í neinu. Þar til ég fékk greiningu á vefjagigt fyrir einu og hálfu ári, þá losnaði ég við að skammast mín fyrir orkuleysið og þyngslin, fyrir að standa mig ekki. Það er sagt að til að leysa vandamál verði maður fyrst að koma auga á þau, viðurkenna þau. Það er stundum kallað að lýsa inn í skúmaskotin. Núna veit ég þetta og þá er að bregðast við því. Ég verð bara að fá að gera það á mínum hraða, sættast við að hlutirnir þróuðust eins og þeir gerðu, þá gæti ég farið að elska hreyfinguna, hún er bara ekki orðin vinkona mín enn, það kemur. Það verður bara að vera í betra veðri, ég fæ verki og dofa í snjó og kulda. Og þannig er nú það. Það kemur vonandi vor með hækkandi sól. Þegar ég var lítil voru afmælin mín þannig að annað árið voru allir í stuttbuxum en hitt árið var snjóskafl fyrir hálfum stofuglugganum sem við holuðum að innan. Og nú á ég afmæli eftir tvo daga. Það er allavega ekki stuttbuxnaveður.

 

 


Bótaþegi

Ég er byrjuð hjá sjúkraþjálfara eftir tveggja mánaða bið og enn lengri bið eftir því að ég kæmi mér til læknis. Ég tek mér stundum góðan tíma í hlutina. Ég hef verið í sjúkraþjálfun af og til í áratugi og venjulega hef ég verið spurð hvar mér er illt hverju sinni og svo er unnið með það. Ekkert heildstætt, bara skaðaminnkun enda eina greiningin krónísk vöðvabólga sem fylgir erfiðisvinnu og handavinnurugli. Mér hefur reglulega verið bannað að prjóna og stundum hlýtt því í smá tíma. 

En nú er ekkert hipsumhaps lengur. Nú veit ég fyrir víst að ég er ekkert feit. Bara alls ekki. Án djóks, þetta eru mest bólgur utan á mér sem valda lélegu blóðflæði, dofa og kulda. Lærin á mér eru grjóthörð, ekki af því að þau séu svo stinn heldur vegna þess að þau eru í stöðugri spennu þegar ég reyni að halda mér uppréttri. Þess vegna hef ég ekki stýringuna fyrir neðan hné, leiðslan er rofin. Þess vegna hitti ég ekki á tröppurnar og missi jafnvægið ef ég gleymi mér eitt augnablik. Ég er með innbyggðan ótta við hlaup, ég á nokkrar minningar um að flækja fótunum saman og detta, jafnvel á talsverðum hraða og það er VONT! Ég veit ekki hvernig hún ætlar að auka blóðflæðið en það verður ekkert minna en bylting ef ég fæ almennilegan styrk í hendur og fætur. Það verður kannski allt þetta ár, hvað veit ég? En allavega, núna borga ég eins og öryrki og þá loksins hef ég efni á þessu. Það er ekki alveg rökrétt, það hefði verið betra að fara í þetta fyrr og komast þá hjá örorku.

Ég er semsagt komin á örorku. Mér finnst alltaf dálítið skrýtið að segja frá því og dett gjarnan í útskýringar. Eða á ég að kalla það afsakanir? Meira bullið, ég er allavega ekki alveg komin þangað. Það er í rauninni ekkert skrýtið, að mér skuli finna það skrýtið þ.e.a.s. Það hefur þótt annars flokks síðan á landnámsöld, þegar landið var fullnumið og var skipt upp í hreppa.

Hrepparnir höfðu það hlutverk að vera öryggisnet fyrir íbúana, þá urðu til reglur um hvað þurfti til að mega ganga í hjónaband. Til þess þurfti að eiga ákveðna fjárhæð sem dugði fyrir heimilisstofnum, þ.e. að festa sér bæ og einhverjar skepnur til uppihalds. Bjartur í Sumarhúsum fór einmitt svona að, hann vann fyrir Rauðsmýrarslektið árum saman þangað til hann hafði safnað nógu miklu. Og þó ekki nógu miklu því að hann gat ekki eignast Sumarhúsin nema taka við Rósu og ganga í föðurstað barninu sem prinsinn á bænum hafði gert henni, þannig varð hann aldrei frjáls.

Það þurftu allir að leggja sitt af mörkum til að halda fólki á lífi. Flakk var bannað, þess vegna þurfti Sölvi Helgason að eignast sérstakt vegabréf, sem hann gat auðvitað ekki nema falsa það. Það átti ekki að þvælast um landið um hábjargræðistímann og láta svo aðra þurfa að gefa sér að éta. Það átti ekki heldur að liggja í bælinu og svíkjast undan. Eins og maðurinn sem komst ekki fram úr rúminu fyrir gáfum, það er skáldleg lýsing á alvarlegu þunglyndi.

Þessar reglur voru í fullu gildi í þúsund ár. Þær voru ekki afnumdar fyrr en Ísland var komið á fulla ferð inn í nútímann. En samt er eins og ekki hafi allir frétt af því. Það gengur alveg ævintýralega illa að afnema krónuámótikrónu-skerðinguna því að það þykir ekkert alveg sjálfsagt að öryrkjar éti eins og annað fólk. Ég borgaði sirka 6 milljónir í lífeyrissjóð þessi 40 ár sem ég var á vinnumarkaði en greiðslurnar sem ég fæ núna dragast frá örorkubótunum. Ég er of illa gefin til að skilja þetta, ég veit. En ég veit að þetta hjálpar mér ekki að bera höfuðið hátt sem öryrki.

Af hverju er ég að rausa um þetta? Jú, í kynningarviðtalinu hjá nýja sjúkraþjálfaranum mínum, sem snerist auðvitað um mína heilsu og það hvernig hægt er að ganga með sjúkdóm eins og vefjagigt frá unga aldri og herða sig bara meira og meira eftir því sem ástandið verður verra þangað til eitthvað lætur undan, þá fórum við auðvitað að tala um þetta hugarfar og hvaðan það kemur. Þetta er nefnilega sér-íslenskt. Við leyfum okkur ekki að verða veik og verðum sannfærð um að fólk geri sér það upp til að komast á bætur. Af því að það er svo mikill draumur. Við verðum kannski komin með þetta eftir önnur þúsund ár. 


Draumur um skíði

Mig dreymir stundum svo mikla vitleysu, hefur nokkur annar lent í því? Afskaplega sannfærandi í svefnrofunum og gjörsamlega rökrétt. Eins og að fara allsber á skíði. Fyrir það fyrsta þá hef ég aldrei á ævi minni stigið á skíði, látum vera með hitt. Ég var á skíðahóteli ásamt hópi fólks úr Gleðikórnum og þegar ég var yngri og laglegri voru allskonar áskoranir í gangi eins og að drekka ógeðsdrykki og sleikja tær, segjum ekki meir. En í draumnum var málið að fara allsber á skíði og ég var svoleiðis peppuð fyrir það, þurfti bara eitthvað að gera og græja áður sem tók greinilega langan tíma því að veðrið var ýmist brunagaddur eða rigning. En liðið mitt lét greinilega ekkert stoppa sig því að allt í einu var enginn eftir nema ég. Og enn var ég ekki farin allsber á skíði. Það stóð eitthvað í mér að vera orðin ein eftir, bæði að missa félagsskapinn en líka að það væri svo helvíti vont fyrir geirvörturnar, þær gætu jafnvel bara molnað og dottið af í frostinu. Rökhugsunin alltaf á sínum stað. Svo að ég ræddi þetta við sálfræðing og komst smám saman að því að það væri ekkert vit í að vera að þessu, engin vitni til að staðfesta afrekið. Og svo var ég allt í einu vöknuð og sá ekkert vit í neinu af þessu yfirleitt.


The eagle has landed

Það er eitthvað ótrúlega magnað við þennan stað sem ég bý á. Umhverfið er seiðmagnað í öllum sínum margbreytileika og það er ekki hægt að þreytast á því. Snæfellsjökull í vestri sýnir sig þegar hann er í stuði, hann er stundum falinn í mistri þó að himinninn sé heiðblár. Eldborg í austri skiptir um lit eftir árstíðum og rauðu kúlurnar í norðri skipta um lit oft á dag eftir sólar- og skýjafari. Þar er Rauðamelskirkja í agnarlitlu dalverpi og Gerðubergið og þar er mín uppáhalds gönguleið, það passar svo vel að taka einn útvarpsþátt á Gufunni á meðan og næra sálina og líkamann samtímis. Í suðri er Faxaflóinn og ég sé bara örmjóa rönd af honum, helst bara þegar glampar á hann. En ég heyri í hafinu þegar ég opna gluggana til suðurs. Og svo er það Hafursfellið, þetta tindótta fjall sem blasir við frá Borgarnesi og minnir á eitthvað ævintýralegt. Og það er eins báðum megin, bæði úr vestri og austri, hversu skrýtið er það?

En umhverfið væri einskis virði ef ekki væri fólkið. Ég hef búið á mörgum fallegum stöðum á landinu, útsýnið úr verbúðinni á Langeyri út yfir Ísafjarðardjúpið var dásamlegt og hjálpaði mér í gegnum ótrúlega leiðinlegt tímabil þar sem ég hafði engan til að tala við nema 18 ára drengi með áfengisvandamál og eyddi heilu ári inni á herbergi við að sauma út og hlusta á Gufuna og fannst ég vera 100 ára. Og útsýnið mitt úr Útgarði 7 á Egilsstöðum var magnað, allt frá Hellisheiði eystri til Snæfells, hvað ætli það sé í kílómetrum? Mér leið ekki alltaf vel þar en það hjálpaði alltaf að horfa út. Þetta er bara eitthvað sem nærir mig og ég get ekki án verið.

Já, hér er gott fólk. Hér er allskonar fólk með allskonar plúsa og mínusa, þannig er bara lífið, og þannig er ég líka. Og í svona smáu samfélagi verður hver einstaklingur svo stór. Ég er mjög hrifin af einstaklingsmiðaða náminu hér, það býður upp á svo margt skemmtilegt og ég er sífellt að prófa eitthvað sem ég hef ekki gert áður. Ég hélt aldrei að ég ætti eftir að starfa í grunnskóla, ég upplifði sjálf ömurlega grunnskólagöngu og kom mjög brotin út í lífið eftir það, sannfærð um að ég hvorki gæti né kynni nokkurn skapaðan hlut. Ég lærði bara að skammast mín fyrir mínar háu einkunnir sem hlutu að stafa af einhvers konar fötlun. Það var mikil vinna að leiðrétta þá skekkju og það var ekki fyrr en á Reykjalundi nú í vetur sem ég losnaði almennilega við hana. Það er ekki sama hvernig er talað við börn. Og það er kannski það sem ég get gefið krökkunum hér.

Nú hef ég fengið það staðfest að ég get verið hér eins lengi og ég vil. Skólinn er einn af máttarstólpunum í samfélaginu hér og hann er ekkert á förum. Það voru ýmsar raddir á sveimi en nú er þetta komið á hreint og það er mikill léttir. Ég hélt að ég yrði eins og krækiber í helvíti við að flytja í næstum 140 fm. íbúð en staðreyndin er sú að ég er búin að fylla hvert einasta herbergi og elska að hafa svona rúmt um mig. Ég þarf bara að fá mér fleiri bókahillur, ég á orðið svo mikið af bókum að ég þarf að flokka þær. Ég er með þrjú gestarúm og finnst ekkert veita af því, það er mér mjög mikilvægt að geta tekið vel á móti fólki. Ég er farin að baka súrdeigsbrauð eins og mér sé borgað fyrir það og svo er ég komin í kvenfélagið og farin að taka þátt í bakstri með þeim. Mér finnst bara gott að leggja mitt af mörkum, hverjum finnst það ekki? Og þetta er að vissu leyti gamall draumur; að búa í sveit þar sem ég fengi að nota höfuðið á mér en þyrfti ekki að vera í búskap eða fiskvinnslu. Mig dreymdi alltaf um að búa í sveit og eignast stóra fjölskyldu og elda og baka alla daga. Það fór ekki þannig en hér er ég í samfélagi sem ég tilheyri og hef hlutverk. Hér er meiri gestagangur en ég hef nokkurn tímann upplifað og ég veit ekkert betra en að eiga eitthvað gott í frystinum. Og það er ekkert svo langt að rúlla í bæinn ef eitthvað er.

Þannig að ég er bara sennilega komin heim. Sem er svosem alveg við hæfi þar sem ég sé héðan kirkjuna þar sem ég var skírð og hef alltaf haft vissar taugar til Kolbeinsstaða eftir að ég heyrði söguna, það er skemmtilegt að hafa fengið að taka þátt í því að vígja skírnarfontinn þar þó að ég muni eðlilega ekki eftir því. En svona er nú það. 


Dannemora

dannemoraFyrst þegar ég heyrði um Escape at Dannemora var ég frekar skeptísk. Það eru örfá ár síðan þetta gerðist (ég man eftir þessu úr fréttum) og það er alltaf viðkvæmt að fjalla um persónulega harmleiki, fólk á aðstandendur og allt það. Og tilfinningaklám er ógeð. 

En þegar ég sá leikaralistann þá ákvað ég að gefa þeim séns. Paul Dano er gelgjulegi stóri bróðirinn í Little Miss Sunshine og barþjónninn í The Good Heart Dags Kára, hann er eitt stórt hæfileikabúnt. Benicio del Toro þarf ekkert að kynna og Patricia Arquette lék mömmuna á móti Ethan Hawke í Boyhood, þessari sem var tekin á tólf árum þannig að allir leikarar eldast smám saman. Það hlaut að vera einhver góð ástæða fyrir því að þetta fólk samþykkti að vera með.

dannemor3

Sagan er í stuttu máli sú að tveir hættulegir fangar strjúka úr öryggisfangelsi með aðstoð kvenkyns fangavarðar. Við getum gúglað allt um það hvernig fer, spennan í sögunni snýst ekki um það hvernig hún endar. Sagan snýst hinsvegar um það hvernig fólk sem ekki tekur ábyrgð á sjálfu sér getur orðið að leiksoppum.

Tilly er gift manni sem hún þolir ekki og í stað þess að gera eitthvað í því þá tekur hún upp kynlífssamband við fangann Sweat þar sem hún hefur yfirhöndina. Þessi fangi á vin, Matt, sem er mun harðari nagli og þeir ákveða í sameiningu að nýta sér sambandið við hana til að brjótast út. Matt nær valdi yfir Tilly með því að höfða til drauma hennar og hún trúir því að þau þrjú muni lifa hamingjusamlega til æviloka í Mexíkó eftir flóttann. Þeir ætla hinsvegar að drepa hana um leið og þeir þurfa ekki lengur á henni að halda. Hún trúir þeim statt og stöðugt og lítur jafnvel á þá sem leið hennar út úr þessu leiðinlega lífi, hún ýjar jafnvel að því að þeir gætu losað hana við eiginmanninn. Hún virðist hinsvegar aldrei leiða hugann að því af hverju þeir eru lífstíðarfangar í þessu öryggisfangelsi án möguleika á náðun, þeir eru sennilega engir englar.

dannemor1

Og það er það snilldarlega við frásögnina. Við vitum ekkert um þessa menn lengi framan af og það er auðvelt að vorkenna þeim sem eru lokaðir inni til lífstíðar. Það er ekki erfitt að skilja sjálfsbjargarviðleitnina sem þeir sýna þegar þeir koma sér í mjúkinn hjá Tilly og töfra hana upp úr skónum. Það er ekki fyrr en þeir eru komnir út sem við fáum að vita af hverju þeir sátu inni. Og af hverju Tilly er svona vansæl í hjónabandinu.

Sumum finnst ekkert gerast í þáttunum fyrr en í lokin, því er ég ekki sammála. Hver einasti þáttur var svo hlaðinn að ég varð að melta hann áður en ég gat horft á þann næsta.

Það er ótrúlegt að þetta hafi allt gerst í raun og veru. Það virðist ekki miklu hafa verið bætt við. Sumum finnst of mikið gert úr kynlífinu en það er ekki hægt að horfa framhjá því, það er lykill að öllu saman. Það er veika hliðin sem þeir finna á Tilly og þar ganga þeir á lagið. Þetta er eins og hver önnur fíkn. Tilly ræður algerlega við hinn einfalda Sweat en þegar Matt tekur við missir hún öll tök. Hún jafnvel þegir þegar hann segir henni að járnsögin sem hún smyglaði til hans sé ekki ætluð til að ramma inn málverk, heldur saga sér leið út. Þá er hún orðin svo langt leidd að hún trúir Mexíkódraumnum algerlega með kúm og öllu saman.

dannemor2

Nú er ég ábyggilega búin að eyðileggja þættina fyrir einhverjum. En hey, það má gúgla þetta allt saman hvort sem er. Mér finnst bara svo gott að staldra við og velta fyrir mér af hverju fólk gerir það sem það gerir, jafnvel ágætlega upplýst fólk. Og það er sennilega aðalerindi þessara þátta.

 

 


Sitt lítið af hverju

Það er ekki til meiri slökun en góð spennusaga. Alveg satt. Kom heim eftir daginn með hausinn alveg soðinn og las í einum rykk Svik eftilr Lilju Sigurðardóttur. Meðfram því japlaði ég á heimagerðu sælgæti og drakk jólaöl svo að þetta var bara eins og aðfangadagskvöld. Og er núna eins og nýþveginn túskildingur, full af orku, búin að hreinsa hausinn og get farið að njóta lífsins. Það er að renna í bað og lífið er ljúft.

Það var mikið fjör hjá okkur í dag og verður aftur á morgun. Skipulagt jólaföndur og kortagerð á þar til gerðum stöðvum sem allir krakkarnir heimsækja eftir fyrirfram ákveðnu plani. Mikið fjör og mikið gaman eins og bera ver í desember. Á föstudagsmorguninn förum við í Rauðamelskirkju, litlu krúttkirkjuna sem ég fæ ekki nóg af að sýna gestum. Við ætlum að kveikja á kertum og tala um jólin, og það áður en fer að birta af degi.

Mér finnst þetta dásamlegt, ég hef ekki tekið svona mikinn þátt í jólaundirbúningi síðan ég var smákrakki. Ég hef samt ekki tekið fram jólaskrautið, læt bara nægja að kveikja á kertum í tonnavís. Það er gaman að prófa hluti sem ég hef ekki gert áður, ég hef til dæmis uppgötvað að ég er hinn fínasti leikstjóri!

Það er búið að vera dýrvitlaust veður hér og ég kynntist því í gær hvað austanáttin er stórhættuleg í Kolbeinsstaðahreppnum, það fór samt vel en vindurinn var næstum búinn að feykja mér út af á stað þar sem ég var alveg óviðbúin. Ég sem var að vonast til að ná heim á undan veðrinu. Ein samstarfskona mín lenti í því að vindurinn braut rúðu í bílnum hennar á næstum sama stað. En svona er Ísland og því lengur sem ég bý hér í sveitinni þá læri ég á þessa hættulegustu staði eftir vindáttum.

Um síðustu helgi var ég með vöggusettin mín og húfurnar á jólamarkaði í sveitinni, hjá vinafólki sem er að vinna í því að opna kaffihús með vorinu. Um næstu helgi verð ég þar aftur og á sunnudaginn hef ég tekið að mér að sjá um markaðinn, þar með talin jólatré og fleira sem ég kann ekkert á, ég fæ þá bara skyndinámskeið og svo eru þau flest pöntuð fyrirfram svo að ég þarf bara að finna nafnið. Ég er ótrúlega ánægð með að vera búin að koma handverkinu mínu í sölu, það mun seint gera mig ríka en gefur mér svo mikla gleði. Og svo gefur það mér tækifæri til að vera innan um fólk, það er það sem nærir mig mest og best.

Ég er í saumaklúbbi sem hittist reglulega, við erum flestar tengdar skólanum á einhvern hátt, bæði starfsfólk og foreldrar og jafnvel ömmur. Og þar er prjónað! Þetta eru stundum hálfgerðar fermingarveislur en stundum líka bjór og eitthvað létt. Það er algerlega nauðsynlegt að hittast og kjafta í notalegheitum og hlæja svolítið, og svo var ég víst einhvern tímann spurð hvort ég ætlaði ekki að vera með í kvenfélaginu, ég gæti vel verið virkari þar. Í fyrra tók ég þátt í jólasöng, bæði á aðventukvöldi og svo í jólamessu í Kolbeinsstaðakirkju, mér fannst eitthvað við það að taka þátt í messu í kirkjunni þar sem ég var skírð. Því miður get ég ekki tekið þátt í því núna og ég er með hálfgerð fráhvörf.

Ég finn svo vel hvað það hefur gert mér gott að vera á Reykjalundi í sjö vikur í haust því að ég er algerlega farin að dansa um húsið og hlaupa upp stiga og öll verk eru mér svo miklu léttari en áður, ég er jafnvel farin að syngja og tralla eins og enginn sé morgundagurinn. Upphaflega átti ég að fara á gigtarsviðið en samspil vefjagigtar og þunglyndis er þess eðlis að það var ákveðið að ég færi frekar á geðsviðið þar sem ég fékk mikla heildræna hjálp á sál og líkama. Þar komst ég að því að ég er gríðarleg félagsvera og einvera er mér bara skaðleg ef hún gengur úr hófi. Ég þarf á því að halda að geta hlegið og ég þarf líka að fá minn trúnó. En svo þarf maður að kunna að dvelja í sínum eigin félagsskap án þess að leggja á flótta, það er ákveðin kúnst.

En allavega, baðið má ekki kólna..


Kristín Lafranzdóttir

fil_norske-folkelivsbilleder-13-brudepyntning-paa-staburet-adolph-tidemand-800x445

Flestar bækur les ég bara einu sinni en það eru samt nokkrar sem ég hef lesið aftur og aftur. Ein af þeim er Kristín Lafranzdóttir eftir Sigrid Undset og það var ekki lítið sem ég lifði mig inn í söguna af henni þegar ég var unglingur. Þessi höfðingjadóttir á 14. öld sem fór gegn öllum gildandi reglum til að fá að vera með ástinni sinni, ég elskaði lýsingarnar á fatnaði, húsbúnaði og allskonar hefðum og siðum. Ég vissi það ekki þá en komst að því síðar að Sigrid Undset vann geysilega heimildavinnu áður en hún skrifaði þessa bók. Sagan var kvikmynduð fyrir nokkrum árum en var svo tilgerðarleg og dramatísk að ég náði engu sambandi við mína Kristínu í henni. Vonandi á einhver annar eftir að prófa, þetta er engin smá saga.

Kristin-Lavransdatter

Ég var að lesa Kristínu aftur, sennilega í fyrsta skipti síðan ég var unglingur, og það var algerlega ótrúlegt hve mikið ég mundi, bókin er full af sterkum myndum eins og lýsingunni á fölnaða manninum sem er líkt við gulnað og bælt gras sem hefur legið undir grjóti, það er sterk lýsing á manni sem hefur spilað illa úr sínu.

En ég las hana líka með öðrum gleraugum en áður og þar kemur metoo sterkt inn. Kristín er unglingur, yfirstéttarstelpa sem fer sínu fram og eitt kvöldið fer hún að hitta besta vin sinn, hann Árna sem hefur verið nánasti vinur hennar frá fæðingu. Árni er mjög skotinn í henni en það er ljóst að þau eru ekki af sömu stétt og Kristín lítur í rauninni fyrst og fremst á hann sem bróður. Núna er hann að fara að heiman til að mennta sig og þau hittast í laumi til að kveðjast. Á leiðinni heim mætir hún Beinteini, syni prestsins í sveitinni sem sjálfur er orðinn prestur og hann ræðst á Kristínu, hann veit að hún er að koma frá Árna og reiknar með að geta kennt honum um ef þetta hefur afleiðingar. Hún verst honum en skaðinn er skeður. Beinteinn prestur hittir síðar Árna þar sem hann er við nám og drepur hann. Þegar það fréttist er það Kristínu mikið áfall og hún kennir sér um. Sá skuggi fylgir henni það sem eftir er og hefur áhrif á allar hennar ákvarðanir.

Kristín Lafranzdóttir er í þremur bindum og pabbi átti bara það fyrsta. Ég las það aftur og aftur sem rómantíska skáldsögu sem endar með brúðkaupi. Af hverju enda allar góðar ástarsögur á brúðkaupi, er ekkert líf eftir það? 2. bindi hefst á því að Kristín er orðin húsfreyja, búin að fá ástina sína og er þá ekki bara hamingja framundan? Eða er raunveruleikinn eitthvað annað? Í þriðja bindinu er hún orðin ekkja og fer í gegnum mikla sjálfskoðun þar sem svarti dauði kemur við sögu. Bækurnar voru endurútgefnar árið 1987 og þá kynntist ég loks seinni tveimur bindunum. En svo hef ég ekki lesið þær síðan, fyrr en nú. Ég gæti látið frá mér næstum allar mínar bækur en aldrei Kristínu Lafranzdóttur. Ég verð á Reykjalundi í næstu viku og hugsa að ég taki hana bara með.


Söngur og skóli

Ég var að heyra að það stæði til að leggja niður Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands. Ekki veit ég af hverju en giska á að krakkarnir hafi ekki lengur tíma til að sinna áhugamálum eins og kórsöng eftir að framhaldsskólinn var styttur úr fjórum árum í þrjú, það er einu ári minna til að skila jafn mörgum einingum því að ekki má gefa afslátt á stúdentsprófinu.

Þetta er ótrúlega sorglegt ef satt er. Ég var orðin tvítug þegar ég kom í F.Su. og þekkti þar af leiðandi næstum ekki neinn. Skólinn var ekki kominn þegar ég kláraði gaggó og þar af leiðandi voru möguleikar mínir til náms ekki miklir. Ég átti ekki pening til að fara á Laugarvatn og vera þar í heimavist og hafði ekki kjarkinn til að leigja mér herbergi í Reykjavík og fara í skóla og vinnu þar. Ég vissi líka ekkert hvað ég vildi, ég var bara ömurleg í öllu sem ég tók mér fyrir hendur og var rekin úr allnokkrum vinnum. Þá var vefjagigtin sennilega farin að láta á sér kræla, það var ekki eðlilegt hvað ég var léleg í frystihúsvinnu þótt ég legði mig alla fram. Og það lagðist ekkert lítið á sálina.

En svo kom fjölbrautaskóli á Selfoss eins og himnasending og ég fór í hann þegar ég var tvítug. Þá gat ég allavega búið heima og það sparaði mér áhyggjur af því að hafa þak yfir höfuðið á meðan ég var að mennta mig. Ég þekkti engan, eðlilega, þar sem mínir jafnaldrar sem á annað borð fóru í framhaldsnám voru búnir að ljúka því og komnir eitthvert annað. Krakkarnir sem ég var með voru flestir 4-5 árum yngri en ég og minnstur hlutinn af þeim kom frá Selfossi, þarna blönduðust saman krakkar af öllu Suðurlandi sem áttu það sameiginlegt að þekkjast ekki mikið innbyrðis.

Þess vegna var kórinn svo frábær. Hann hafði verið stofnaður ári áður en ég kom í skólann með framtaki nokkurra ungra stelpna sem gátu ekki hugsað sér að það væri enginn kór við skólann svo að þær töluðu við mann og annan og fengu svo Jón Inga Sigurmundsson til að stjórna. Ég þekkti þessar stelpur, ég hafði verið með þeim í Stúlknakór Gagnfræðaskólans undir stjórn nefnds Jóns Inga og þarna hittumst við aftur. Því að auðvitað gat ég ekki sleppt þessu tækifæri til að komast innan um fólk.

Mér fannst ég alveg óskaplega gömul innan um þessa unglinga og var alveg að kafna úr feimni. Mér fannst þau öll svo hrein og saklaus í samanburði við mig, Hlemmarann sem hafði búið á götunni og verið rekin úr hundrað vinnum. En svo kynntist ég góðum krökkum og varð hluti af vinahópi sem hefur haldist fram á þennan dag. Því að auðvitað var þetta bara dæmigerður kvíði og enginn fótur fyrir því sem maður var hræddastur við. Og svo er tónlistin bara hrein og klár lækning við öllum andlegum meinum, að ekki sé minnst á tónlistarmenntunina sem fylgir því að syngja í kór. Að fá að kynnast Bach og Beethoven innanfrá að ónefndum Evert Taube og allri norrænu þjóðlagatónlistinni sem var svo fyrirferðarmikil hjá Jóni Inga. Ég kann allar raddirnar mínar ennþá!

Og upp frá því hef ég alltaf notað sönginn til að kynnast fólki og vera með. Ég fór í Háskólakórinn, þá fertug og með rúmlega tvítugum krökkum, og aftur tók það mig dálítinn tíma að hrista af mér kvíðann og feimnina og aftur eignaðist ég stóran hóp af kærum vinum sem heldur hópinn enn í dag. Þau komu hingað til mín síðast fyrir mánuði og við áttum frábæra helgi við púsl og spilerí og annað sem maður gerir. Það hefði ekki gerst ef ég hefði aldrei sungið í kór.

Kór er alltaf skemmtileg blanda af allskonar fólki. Í Háskólakórnum kom saman fólk úr öllum deildum, fólk sem hefði aldrei kynnst ef ekki hefði verið fyrir sönginn. Tveir af mínum bestu vinum eru með doktorsgráðu í eðlisfræði, hversu langt er það frá mér sem get varla lagt saman einn og einn? Og í Hinsegin kórnum var nú enginn smá kokkteill af frábæru fólki. Þar kynntist ég alveg nýrri hlið á dægurlögunum okkar, þau verða svo miklu dýpri og meira gefandi í kórútsetningum. Ég er núna orðin ólæknandi aðdáandi Coldplay eftir að hafa sungið Fix you og Scientist. Og eigum við að tala um Pink og Just give me a reason? Talandi um að kynnast tónlistinni innanfrá.

Þess vegna er það svo hræðilega sorglegt ef satt er, að Kór F.Su. hafi verið lagður niður. Ég vona virkilega að það sé ekki satt, að framhaldsskólanemendur í dag fari ekki á mis við það besta sem ég fékk að njóta. Og hver á þá að syngja Cum Decore, einkennislag Kórs F.Su. þegar ég var þar og er kannski enn, hver veit?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 109160

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband