Krefst orku - en gefur hana líka, þá hlýtur það að vera sjálfbært

Lúxusinn í morgun að geta vaknað og teygt úr mér, sólin hátt á lofti og ef ég horfi ekki á klakann heldur upp í himininn þá gæti verið vor í lofti. Uppþvottavélin er farin í gang, vatni skvett á blómin og bara þetta daglega tekið, þetta uppsafnaða.

 

Ég ætti kannski að kíkja á kílómetramælinn á skódanum til að sjá hvað hefur bæst við frá því ég fékk hann þann 13. febrúar, hvað ætli séu komnar margar Reykjavíkurferðir að öðru ónefndu? Ég er búin að vera svo niðursokkin í viðtöl og fræðigreinar meðfram leiktextanum og gjaldkeraskyldunum að það hvarflaði ekki að mér að kíkja á Gleðikórssíðuna og mætti því heim til Ásdísar og Helga eins og bjáni, til þess eins að fá að vita að árlega bolluboðið hefði fallið niður því að húsbóndinn fékk covid, það var tilkynnt tveimur dögum áður. Og ég sem hafði hlakkað svo mikið til að hitta vini mína þar sem þetta er orðið eini fasti hittingurinn í Gleðikórnum, og svo auðvitað að éta bollur með allskonar frumlegum fyllingum að hætti húsráðendanna. Að ári, vonandi. 

 

Ég er bara núna að átta mig á því að ég er í rauninni í fullu námi, ég sem hef alltaf tekið allt mitt nám í bútum meðfram fullu starfi kann bara ekki alveg á þetta. En það er semsagt talsvert að gera.

 

Ég er líka að æfa leikrit sem verður frumsýnt í næstu viku og það er margt í kringum það annað en bara að læra texta því að það þarf líka að redda hinu og þessu, hvort sem það er málning á veggi, búningar eða leikmunir af ýmsu tagi og svo framvegis. Og það er alveg ofboðslega skemmtilegt. Slagar ábyggilega upp í allavega hálft starf. Krefst orku en gefur hana líka.

 

Ég er búin að taka nokkur viðtöl og á nokkur eftir, svo þarf ég að skrifa greinargerð upp úr þessu öllu saman og kynna meistaraverkefnið á málstofu sem er líka í næstu viku. Sem er semsagt frumsýningarvika, tölum ekki um það.

 

Í gær tók ég viðtal við Jón Gnarr sem var samtímis mér á Hlemmi. Hann er búinn að skrifa þrjár bækur um þessa reynslu sína og allt sem hann sagði í gær staðfesti mína upplifun, á Hlemmi fann hann skjól og öryggi til að vera hann sjálfur og fékk að vaxa og styrkjast. Eins og allir þurfa en ekki öllum hlotnast. Ef þú vilt endilega vita meira þá er útvarpsþáttur á leiðinni þar sem þetta verður rætt á alla enda og kanta af hinum ýmsu persónum og leikendum. 

 

Mér finnst svo magnað að allt þetta sem ég er að gera er byggt á því sem hefur valdið svo miklu einelti. Ég var þessi listræna stelpa sem varð fyrir sturluðu aðkasti í mínum heimabæ þar sem ég hafði ekki líkamlega getu til að stunda íþróttir. Alla mína tíð hef ég verið að reyna að byggja upp heilbrigða sjálfsmynd og það hefur gengið bæði upp og ofan, ég hef þurft að hreinsa út heilmikinn skít til að ná að vaxa.

 

Ég hef þurft að loka á systkini mín því að þau hafa ekki stutt mig í þessari vegferð heldur kosið að beita mig ofbeldi. Ég kalla það ofbeldi þegar þau reyna að telja mér trú um að fólk hrylli við mér þegar það kynnist mér og sér hvaða manneskju ég hef að geyma. Hver segir svona lagað? Hvað er það sem er svona hryllilegt við mig og hvernig á svona tal að hjálpa mér að gera eitthvað í því?

 

Fyrir nokkrum mánuðum ætlaði ég að senda elstu systur minni kveðju á sextugsafmælinu en komst að því að hún hafði blokkað mig á facebook vegna þessarar bloggsíðu. Eftir samtal við hin fimm systkini mín, ég ætlaði eins og bjáni að bjóða þeim heim til mín í sumar og endurtaka ættarmótið frá því í fyrrasumar (það verður haldið) og spurði hvernig þeim litist á að ég myndi skipuleggja hestaferð niður á Löngufjörurnar, ég setti mig líka á ansi háan hest með því að nefna að við værum öll orðin svo fullorðin og þroskuð að við yrðum að reyna að taka hvert öðru eins og við erum, en semsagt, þá varð endirinn sá að blokka þau öll.

 

Þannig að ef þau vilja frétta af mér þá verða þau að taka upp símtólið. Sem þau munu aldrei gera, og hafa svosem aldrei gert. Synd þeirra vegna. Því að það er sturlaðslega flott leiksýning að fara á svið þar sem systir þeirra fer á kostum. Og þessi sama systir er í þann veginn að ná sér í meistaragráðu. Þegar ég fékk BA-gráðuna kusu þau að fara frekar í útilegu en mæta og samgleðjast mér. Núna þegar ég fæ MA-gráðuna verður þeim ekki boðið.

 

Hér hefur ekkert verið minnst á vöggusett. Barnaból fékk sviðið í haust og notaði það vel með söfnun á karolinafund meðal annars. Það er núna í hvíld en fer aftur af stað þegar öðrum verkefnum er lokið. Það má samt alveg panta á fb-síðunni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband