Varúð - flóð í Ölfusá

Sumrin eru mér alltaf erfiðari en aðrir tímar ársins. Það tekur á að vera áhorfandi að lífinu og taka ekki þátt í neinu, af ýmsum ástæðum, fjárhagslegum eða tilfinningalegum. Að vera ein á báti. Að bíða eftir haustinu þegar allt fer aftur í gang.

 

Þetta sumar er búið að vera óvenju erfitt og ég held að það sé vegna þess að ég hef verið að opna á ýmsar skítaholur síðasta árið og slaka á varnarviðbrögðunum, allt til að láta mér líða betur. Þessar varnir hindra nefnilega framfarir.

 

Og af hverju er ég ein á báti? Er eitthvað að því að vera stundum ein á báti? Sjálfsagt ekki, en ég er bara búin að vera ein á báti frá því ég man eftir mér og kann ekki annað. Skammast mín þó alltaf fyrir það. 

 

Ég var bara 3-4 ára þegar ég fór að flýja heimilið og planta mér hjá systkinum mömmu, sem áttu börn á mínu reki og hélt því áfram fram á unglingsár. Ég lærði mjög fljótt að þarna átti ég ekkert tilkall til leikfanganna, eðlilega, ég var ekki heima hjá mér. Og heimakrakkarnir lærðu jafn fljótt hvílíkt vald þau voru komin með í hendurnar, þau gátu stjórnað því hvort ég mátti hafa legókubbana eða ekki og hvaða dúkku ég mátti hafa í mömmó, yfirleitt ekki þá flottustu.

 

Ég lærði að ég ætti ekki tilkall til neins og ætti ekki að vera fyrir. Alltaf var hægt að segja mér að fara og þá varð ég að hlýða. Og fór þá kannski heim, en oftar eitthvert út í móa eða á næsta róló þar sem ég gat fengið að vera í friði, jafnvel langt fram eftir kvöldi.

 

Ég var fimm ára þegar ég klemmdi mig á putta heima hjá móðurbróður mínum sem átti heima rétt hjá kirkjunni á Selfossi. Ég átti hinsvegar heima rétt hjá Mjólkurbúinu svo að þarna var ég farin að fara langar vegalengdir, meira en kílómetra sem er talsvert fyrir svona ungt barn.

 

Það var hræðilega sárt að klemma puttann og frændi minn tók mig í fangið og huggaði mig. Það var svo gott að vera í fanginu á honum að ég hélt áfram að kreista upp væl eftir að verkurinn var farinn að minnka, bara til að fá að vera þar lengur. Ég man þetta svo vel af því að þetta var svo einstakt, að vera í fangi og fá huggun. Ég þekkti það ekki að heiman.

 

Mín elsta minning er frá því að ég er rétt orðin tveggja ára (já ég veit að ég á ekki að geta munað neitt frá þeim aldri en ég man þetta samt) og við erum að leggja af stað niður í þorp. Það er búið að setja bróður minn nýfæddan í vagninn minn og ég þarf að ganga, ó hvað mér finnst það óréttlátt og hvað mig hryllir við því að þurfa að ganga alla leið niður í þorp.

 

Kannski var ég bara lítil leiðindaskjóða að upplagi en þetta hefur greinilega verið talsvert áfall fyrst ég mundi það. Þarna var ég ekki lengur litla barnið á heimilinu og var auk þess komin með bróður sem mamma dýrkaði og dáði, ég man vel eftir því að hafa samglaðst mömmu yfir því að vera loksins búin að eignast strák eftir tvær stelpur. Og svona líka fallegan.

 

Þegar ég byrjaði að flýja út af heimilinu átti ég nýfædda systur og rúmlega ársgamlan bróður og var búin að læra að mamma þyrfti að sinna þeim, ég ætti ekki að vera fyrir. Ég átti líka eldri systur sem var fjögurra og hálfs og tók stöðu sína sem elsta barn mjög hátíðlega. Hún kunni mjög fantalegar aðferðir til að passa upp á þá stöðu sína og það var einfaldlega ekkert pláss fyrir mig.

 

Ég var komin yfir þrítugt þegar ég áttaði mig á því að pabbi hefði verið alkóhólisti, áratug eftir að hann dó. Ég átti á þeim tíma kærasta sem var mikill AA-maður og dró mig á Al-Anonfundi svo að ég gæti betur sett mig inn í hans vandamál og hjálpað honum. Góða konan ég, alltaf hjálpandi. Það var hlutverk sem ég kunni upp á tíu.

 

Nema hvað, á þessum fundum töluðu flestir eins og þeir hefðu alist upp á æskuheimili mínu. Það var sama málfarið, sömu hlutverkin. Þá skildi ég hvers konar fjölskyldusjúkdómur alkóhólismi er. Pabbi stundaði alltaf sína vinnu en þegar hann kom heim hellti hann úr skálum sínum yfir allt og alla, ég var ekki gömul þegar ég tók eftir því að pabbi kom allt öðruvísi fram við það fólk sem hann leit upp til en okkur. Hann lagði mikla áherslu á að kenna mér að taka gríni, en grínið hans var bara yfirleitt ekkert grin, frekar svona niðurlæging. Hann kallaði bróður minn hlandgosa því að hann vætti rúmið til tólf ára aldurs, greinilega ekki mjög áhugasamur um að finna lausn á því vandamáli. Pabbi var mjög yfirgæfandi karakter á heimilinu, hæðinn og oft andstyggilegur og ég var ótrúlega fegin þegar hann dó. Ég hef aldrei saknað hans, skammaðist mín fyrir það um skeið en hristi það svo af mér með meiri þekkingu. Ábyrgðin var hans.

 

Það var gott að komast að þessu um alkóhólismann, það setti hlutina í ákveðið samhengi og ég var ekki lengur jafn gjörsamlega úti á túni. Þarna var ég komin með verkfæri sem ég gat notað til að tengjast systkinum mínum. Að ég hélt.

 

Ég hef grun um að systkini mín haldi að ég hafi haft það alveg stórkostlegt inni á öllum þessum annarra manna heimilum og öfundi mig af því. Ég held að það sé rótin en svo hefur bæst í skítahauginn með árunum.

 

Auk þessara tveggja systkina mömmu sem bjuggu á Selfossi var ég mikið í sveitinni hjá afa og ömmu þar sem ég myndaði náið sambandi við kýrnar í fjósinu og var auk þess nokkuð öflug í tónleikahaldi úti í móa ásamt stórvinum mínum Herði Torfasyni og Ian Gillan, ímyndunaraflið var allt sem þurfti. Ég lærði að dunda mér ein og hafði nóg rými til þess í sveitinni. Mögulega er það ein ástæða þess að mér finnst gott að búa í sveitinni í dag.

 

En ég er líka ennþá að dunda mér ein og það er ekki gott fyrir mig. Mögulega hafði ég það eitthvað betra en systkini mín sem voru föst heima í öllu ruglinu. Þau hafa ábyggilega ekki haft það gott en þau höfðu þó hvert annað. Alveg síðan ég gerði þessa uppgötvun með alkóhólisma pabba hef ég reynt að tengjast systkinum mínum en árangurinn hefur ekki verið neinn. Það er eins og ég komi þessu fólki ekkert við.

 

Sem væri allt í lagi ef ég væri ekki alltaf að dragnast með þennan eldgamla kvíða sem spratt af þessu öllu. Kvíða sem hamrar á því að ég sé öðruvísi en aðrir og eigi ekki að vera að reyna að nálgast annað fólk. Ég treysti því ekki að ég sé velkomin heima hjá systkinum mínum, ég hef of oft fengið frekar furðulegar móttökur.

 

Það er gegnsær veggur á milli okkar sem ekki einu sinni fuglinn fljúgandi kemst yfir, veggur sem byrjaði að hlaðast upp þegar ég eignaðist systur á þriggja ára afmælisdaginn minn. Ég lærði fljótlega upp úr því að mamma væri of upptekin yfir litlu börnunum, ég mætti ekki trufla hana. Og svo var ég auðvitað vita gagnslaus.

 

Þar sem ég hjálpaði ekkert til lærði ég að skammast mín fyrir að vera ekki jafn dugleg og elsta systir mín sem var farin að sópa og skúra og gera ótrúlegustu hluti bara 5-6 ára. Hún hefur skiljanlega þróað með sér einhverja neikvæðni gagnvart þessu hlutverki því að hún fékk mikla útrás með því að berja mig eins og harðfisk, draga mig á hárinu og slíta utan af mér föt um leið og hún öskraði á mig að ég ætti að hjálpa til og reyndi að þvinga mig, sem gerði mig auðvitað kolbrjálaða, mér fannst ekki rétt að systir mín væri að skipa mér fyrir verkum og berja mig í klessu um leið, samtímis því að hún gætti þess vel að ég tæki ekki þessa stöðu af henni.

 

Þarna vorum við sennilega hvorug byrjuð í skóla, mikið hefði þetta getað þróast á betri veg ef einhver fullorðinn hefði skipt sér af. En pabbi hinsvegar var bara ánægður með hana, einhver varð jú að kenna mér að hlýða.

 

En ég lagði bara á flótta og systir mín hélt áfram að þróa sitt hlutverk. Svo bættust við fleiri systkini sem hún gekk óbeint í móðurstað og gætti enn betur að því hlutverki sínu því að hún jafnvel sleit þau úr fanginu á mér ef ég ætlaði eitthvað að sinna þeim.

 

Hún er enn í þessu hlutverki og verður fyrir lífstíð, hennar sjálfsmynd byggir eingöngu á því og ef hún missir það á hún ekkert eftir. Samskipti okkar hafa bara kólnað með árunum og dætur hennar þekki ég sáralítið, enda gætti hún þess vel að ég tengdist þeim ekki. Samkeppnin alltaf hreint. Og systkini mín ganga beint í hennar spor eins og þau hafa gert alla tíð.

 

Þetta er nú meiri dramatíkin, þetta gæti verið rússnesk skáldsaga frá 19. öld. En þetta er ekki skáldsaga. Þetta er rótin að því að lífi sem ég hef lifað. Þarna er ég ekki einu sinni komin að eineltinu, þ.e. eineltinu utan heimilis.

 

Ég var mjög lítil þegar ég lærði að lesa. Ég kunni alla stafina þriggja ára og fylgdist áhugasöm með þegar mamma var að kenna elstu systur minni. áður en nokkur vissi var ég orðin fluglæs fjögurra ára. Það er víst ekki óalgengt nú á dögum en þegar ég var lítil var ég álitin furðuverk út af þessu. Þar sem ég kunni að lesa var ég ekki látin taka sex ára bekkinn, stöbbuna eins og það var kallað, og byrjaði því skólagönguna í fyrsta bekk, mjög stolt og yfir mig spennt.En skólinn reyndist algjör hryllingur og mín beið því bara tíu ára afplánun þar sem engin leið var að losna. Jafnvel ekki þótt ég prófaði heimavistarskóla, þar komst ógeðið bara á hærra stig.

 

Ég veit ekki hvernig eineltið byrjaði en smám saman lenti ég alveg úti í horni. Löngu síðar komst ég að því að krakkarnir höfðu flestir verið saman í stöbbunni og þar urðu öll hlutverkin til. Þar sem ég var alltaf ein og hafði ekkert bakland í fjölskyldunni þá hafði ég ekki það sem þurfti til að bora mér inn í þennan hóp og fá úthlutað einhverri stöðu.

 

Og enn síðar komst ég að því að ein stúlkan var mér sérstaklega andsnúin því að einkunnirnar mínar voru oftast hærri en hennar. Það sem ég var svo stolt af reyndist mér mjög illa félagslega og auðvitað hafði ég ekkert vit á því hvernig ég átti að bregðast við. Þessi stúlka var algjör kónguló og hún gróf virkilega undan mér. Klíkan hennar var sú eftirsóttasta og til að fá að vera í henni var bannað að leika við mig. Þetta vissi ég ekki fyrr en nýlega, hélt bara að ég væri svona leiðinleg og eitthvað mikið að mér, og fékk því miður engan stuðning frá elstu systur minni þótt hún væri áhorfandi að þessu á skólalóðinni alla daga.

 

Ég lenti semsagt mitt á milli þessarar stúlku og systur minnar og báðar lögðu mig í massíft einelti, heima og í skólanum. Og þar sem mér leið sífellt eins og ég væri alein á tunglinu þá trúði ég því einfaldlega að það væri eitthvað mjög athugavert við mig. Semsagt ekki mjög góð staða. Og þrátt fyrir allt mitt brölt þá hef ég komist að því að ég er ennþá á þessum sama stað, hinum megin við glervegginn og horfi á allt fólkið sem mig langar til að tengjast. Og óttast að ég hafi ekki það sem til þarf.

 

Nú er ég dottin út af vinnumarkaði og þar sem ég á hvorki fjölskyldu né vinnufélaga þá þarf ég sjálf að sjá um öll tengsl. Ef ég geri það ekki þá geta auðveldlega liðið mánuðir án þess að ég sjái framan í annað fólk, ég gæti drepist og enginn tæki eftir því. Engar áhyggjur, ég er ekki að fara að drepast. Ekki ef ég fæ ráðið því sjálf, allavega.

 

Ég reyndi sjálfsvíg þegar ég var ellefu ára og hætti við þegar það rann upp fyrir mér hvað þetta væri endanlegt. Það var alltof ósanngjarnt, ég átti þetta ekki skilið. Einhvern tímann yrði ég fullorðin og réði mér sjálf, þá yrði allt betra. Þá lofaði ég sjálfri mér að prófa þetta aldrei aftur og hef staðið við það.

 

En stundum leiðist mér svo svakalega, sérstaklega á sumrin þegar allir eru í útilegum úti um hvippinn og hvappinn. Og takið eftir: Ég er nýfarin að geta sagt það upphátt að mér leiðist því að ég er með það innprentað að ég geti sjálfri mér um kennt og eigi að skammast mín fyrir það. Ég gæti alveg farið og tjaldað en það er ekki það sama að gera það ein. Ég skammast mín alltaf pínu fyrir að vera ekki eftirsóttari en þetta. Ég á alveg vini þarna úti en einhverra hluta vegna er það alltaf ég sem hef samband, það er sjaldan á hinn veginn.

 

Mögulega hef ég miklu meiri þörf fyrir vini mína en þeir fyrir mig. Og mögulega stendur vináttan ekki á nógu djúpum rótum. Sem er að vissu leyti skiljanlegt, ég er alls ekki nógu dugleg við að gefa af mér. Þegar ég hef opnað mig um fortíð mína verða vinir mínir gjarnan dálítið sjokkeraðir og vita ekki hvernig þeir eiga að vera, svo að ég hef lært að tala ekki um það. Og þá er ég heldur ekki að gefa af mér. Sem þýðir að þá er ég ekki heldur að byggja upp vináttu. Vítahringur.

 

Ég er alltaf komin beint í rótina og hálfleiðist yfirborðskennd samskipti, ég er meira í Tolstoj en Rauðu ástarsögunum. Alltaf kryfjandi, af hverju er þetta svona en ekki svona? Hvað er hægt að gera til að bæta ástandið?

 

Ég var lengi eins og svefngengill og var ævinlega sammála síðasta ræðumanni, samtímis öfundaði ég fólk sem hafði sjálfstæðar skoðanir og fylgdi þeim eftir. Ég öfundaði fólk sem gat horft í augun á hverjum sem var, það gat ég ekki fyrir nokkurn mun en þráði það mest af öllu. Ég prófaði ýmsar aðferðir til að láta fólki líka við mig og skildi ekkert hvernig fyrir sumum var það eins og að drekka vatn. Hvernig átti ég að fara að þessu?

 

Mér datt ekki í hug að uppvöxturinn minn væri eitthvert vandamál í þessu samhengi, það var einfaldlega bara eitthvað að mér. Ég veit í dag að það var ótti. Lamandi ótti sem ég tók sífellt á hörkunni og sleit mér út smám saman því að ég þurfti jú að fúnkera á vinnumarkaði. Ótti við yfirmenn, ótti við að standa mig ekki í starfi, ótti við að gera mig að fífli, vera rekin út í horn. Allt eintómar endurtekningar frá því ég var lítil.

 

Ég er að öllum líkindum búin að vera með vefjagigtina frá fæðingu því að ég gat aldrei neitt í leikfimi. Ó ef ég hefði nú orðið íþróttastjarna í íþróttahitlersæskunni á Selfossi og allir hefðu litið upp til mín. Sennilega hefði sú íþróttastjarna verið fljót að hrynja andlega því að baklandið var ekkert og þá hefðu tóldjúsó-raddirnar haft nóg að smjatta á.

 

Vefjagigtin var fyrsta greiningin sem ég fékk, og það eru bara tvö ár síðan. Þá var ég búin að vera í yfir 50 ár að velta því hvað væri að mér, af hverju ég væri svona léleg samsetning. Samtímis fékk ég greiningu á þunglyndi og kvíða og örorkugreiningu í framhaldi af því.

 

En systkini mín voru búin að greina mig með einhverfu löngu áður. Það var eftir að ég hélt upp á fertugsafmælið mitt ásamt frænku minni (ég þorði ekki að gera það ein) og hún breytti veislunni í brúðkaup fyrir sjálfa sig. Ég stóð þarna lömuð og hafði ekki hugmynd um hvernig ég átti að bregðast við, enginn viðstaddur skipti sér heldur af. Mín afspyrnuslaka sjálfsmynd gat engan veginn sagt mér hvort ég ætti rétt á því að vera reið eða hvort ég væri bara að búa til vesen með því að mótmæla, samt sagði allur líkaminn það, ég kunni bara ekki að hlusta á hann.

 

Auðvitað átti ég rétt, þarna var alvarlega brotið á mér, ég var bara svo stutt komin í sjálfsvinnunni að ég þorði ekki að treysta á það, allavega ekki án stuðnings. Systkini mín skemmtu sér konunglega í þessari veislu og það er sennilega ástæðan fyrir því að þau gátu ekki staðið með mér.

 

Upp úr þessu fæddist einhverfugreiningin, ein systir mín hafði lesið grein á netinu um hvernig einhverfa kvenna birtist allt öðruvísi en karla og það hvernig ég birtist henni, klaufaskapur minn í samskiptum og allt það sem ég veit í dag að eru merki um óttann sem hefur stjórnað mér frá þriggja ára aldri. Þetta seldi hún systkinum okkar sem fengu þannig afsökun fyrir því að hafa skemmt sér í veislunni og ekki staðið með mér.

 

Þannig hafa samskiptin sífellt versnað og ég er löngu hætt að gera mér vonir um að þau batni nokkurn tímann. Ég hef þessa systur mína sterklega grunaða um að vera á einhverfurófinu. Af þremur sonum hennar eru tveir einhverfir (þetta er mjög ættgengt) og þegar ég umgekkst hana mest var allt í ótrúlega föstum skorðum. Pizza var alltaf sótt á sama staðinn og alltaf með sama álegginu, hún eldaði alltaf sömu þrjá réttina og annað eftir því. Hún hafði ekkert umburðarlyndi fyrir skoðunum annarra, það var eins og að rífast við páfann að eiga í samræðum við hana. Sem er ekki hægt að segja um mig, hvor okkar er þá einhverf, ef nokkur?

 

Hún ásamt elstu systur minni hafa myndað svakalegt bandalag í gegnum tíðina, samt tala þær aldrei fallega hvor um aðra. Og engan yfirleitt ef því er að skipta. Sem minnir dálítið á talsmáta föður okkar. Ég giska á að það séu þeirra varnarviðbrögð við bernskunni, það er leitt að þær skuli ekki leita sér neinnar hjálpar því að vanlíðanin lekur af þeim. Kannski líður þeim bara vel þarna í hásætinu sínu.

 

Ég hef allavega lært af þeim hvernig ég vil ekki vera. Samt get ég einhvern veginn ekki lifað án systkina minna. Ég hef prjónað peysur og allan fjandann og gefið systkinabörnum mínum en það hefur ekki bætt samskiptin á nokkurn hátt. Ég hef óskað mér þess að eitthvað annað komi í staðinn til að hafa eitthvert mótvægi gegn þessari neikvæðni. En þegar ég lamast af skelfingu bara við tilhugsunina við ástarsamband þá er ekki von á miklum árangri. Og já, ég hef prófað Tinder, ég get bara ekki metið menn eftir útliti.

 

Ég hef lært ýmislegt um sjálfa mig í Stígamótum en mest hvað ég á svakalega langt í land. Og hvað ég get það alls ekki ein. Þegar ég er ein þá hvolfast yfir mig allskonar skítahugsanir. Hvernig stendur á því að ég er á svona slæmum stað, af hverju er ég ekki rík? Af hverju hef ég alla tíð verið í þessum skítastörfum sem borga svo illa að ég á ekki einu sinni íbúð?

 

Þá gleymi ég því hvernig ég barðist fyrir þeirri menntun sem ég hef. Hvernig ég var í tólf ár að safna mér einingum upp í stúdentinn og svo var ég önnur tólf að ná mér í sagnfræðinginn. Og nú er stutt í meistaragráðuna í HMM. Allan þann tíma vann ég á vöktum í hinum ýmsu umönnunarstörfum og nýtti frítímann til að ná mér í andlega næringu í gegnum skólabækurnar. Ég skulda engin námslán, af því að ég átti aldrei rétt á námslánum, skítalaunin mín voru of há fyrir Lánasjóðinn.

 

Og af hverju sagnfræðinginn? Af hverju ekki viðskiptafræðinginn eða eitthvað annað sem borgar sæmileg laun? Það var bara of leiðinlegt, of næringarsnautt. Sem mögulega eru fordómar, ég hef allavega mjög gaman af því að reka félagsheimili þessa dagana.

 

Ég held að ég hafi fyrst og fremst litið á námið mitt sem andlega næringu, eitthvað til að hverfa að á kvöldin þegar ég var að kafna og þurfti mótvægi gegn leiðinlegri og ófullnægjandi vinnu. Því að sjálfsmyndin mín leyfir mér ekki að kalla mig sagnfræðing. Ég er bara þessi verkakona sem ég hef alltaf verið. Ég þori aldrei að taka til máls þegar sagnfræði er rædd af ótta við að segja eitthvað vanhugsað. Það er sami óttinn og ég hef verið að dragnast með alla tíð, hversu oft hef ég ekki verið skömmuð fyrir þegjandahátt þegar ég kem í rauninni ekki upp orði? Ég hef andlega ekki efni á því að gera mig að fífli einu sinni enn, og sérstaklega ekki þegar það tengist einhverju sem er mér kært.

 

Í öllu þessu námi meðfram vinnu þráði ég að geta sökkt mér ofan í námið og þurfa ekki að gera neitt annað, eins og ég gerði í barnaskóla þegar ég virkilega mundi það sem ég lærði. En bannsettur kvíðinn truflaði stöðugt einbeitinguna mína, og svo var vinnan eitthvað að þvælast fyrir.

 

Sem sagnfræðin er. Ég elska öll þessi sagnfræðihlaðvörp sem eru út um allt og um leið er ég fegin því að vera aðeins fluga á vegg og hlusta, að þurfa ekki að tjá mig um efnið. Þannig fór ég í gegnum námið, sat og hlustaði og naut, en fríkaði svo út þegar ég átti að gera eitthvað. Ritgerðirnar mínar eru samdar með valdi, ég þurfti að þvinga orðin fram því að þau vildu hlaupa út um allt. Ég gat hugsað efnið upp en ekki komið því í orð nema með herkjum. Einkunnirnar mínar voru langt undir getu því að kvíðinn lamaði mig gersamlega. Heilaþoka er hluti af vefjagigtargreiningunni minni og ég held að hún hafi verið ansi dyggur förunautur í náminu.

 

Sem veldur mér sorg á sama tíma, ég vildi svo gjarnan geta deilt því sem ég elska með mínum nánustu, því sem ég er og því sem ég er gerð úr. Sem hefur gefið mér vissa tengingu við ákveðna minnihlutahópa. Þess vegna leið mér svo vel á Hlemminum þótt ég væri bæði atvinnulaus og heimilislaus og borðaði kannski bara eina samloku heilu dagana. Ég var bara í hópi sem ég tengdist sterkum böndum.

 

Það er ekki einfalt að vera kvíðin og hafa samtímis þörf fyrir að vera með fólki, ein af endalausum mótsögnum í lífinu. Ég var níu ára þegar ég byrjaði að syngja með kór og síðan hef ég oftast verið einhverjum kórum og óspart nýtt mér sönginn til að vera með fólki, samt alltaf dálítið óörugg með mig. Það urðu straumhvörf þegar ég gekk í Háskólakórinn, rétt áður en ég varð fertug og mikið er ég fegin að ég bauð þeim ekki í veisluna svo að þau sluppu við að verða vitni að þeim hryllingi öllum. Þá gat ég haldið áfram í kórnum og haldið andliti.

 

Þessir kórfélagar mínir voru flestir rúmlega tvítugir, ég fertug, og það tók mig nokkuð langan tíma að aðlagast þeim. Mig langaði bara svo mikið til að vera með, hlæja og hafa gaman og smám saman eignaðist ég góða vini sem ég á enn, merkilegt nokk. Þau eru í dag flest orðin fertug en ég er jú enn bara fertug svo að aldursmunur er ekki lengur vandamál. Svona er lífið stundum dásamlegt.

 

Með þeim tók ég þátt í félagslífi sem ég hafði aldrei áður gert, og fannst hálf klikkað að vera í fyrsta skipti á ævinni í þeirri stöðu. Ég fór með þeim í útilegur, utanlandsferðir og ótrúlega mörg partí þar sem var sungið í röddum og með ótrúlega mörgum hljóðfærum. Algjör hamingja. Svo fylgdist ég með þeim draga sig saman og fjölga sér, eins og fólk gerir. Og fannst það pínu súrsætt að vera einu sinni enn áhorfandi að lífinu. Ég meina, elstu börn vina minna eru í dag komin vel á fimmtugsaldur og þau yngstu eru fædd á þessu ári svo að spektrúmið er ansi breitt. En ég er hvort sem er komin úr barneign.

 

Einu sinni átti ég þó von á barni. Það var stutt meðganga sem endaði með fósturláti eftir 15 vikur. Ég var hálf fegin á þeim tíma því að ég var hætt með barnsföður mínum og hafði ekki fast land undir fótum. Kannski hefði ég ekki farið í háskólanám sem einstæð móðir. Kannski hefði það verið of mikið lagt á eitt barn að koma í staðinn fyrir fjölskylduna mína. Kannski hefðu þau náð að tengjast mér í gegnum barnið. Sennilega þó ekki.

 

Síðast var ég í Hinsegin kórnum áður en ég flutti í sveitina. Þar eignaðist ég líka kæra vini en fann líka vel fyrir félagsfælninni, enda alveg óuppgerð. Þó að meirihluti kórfélaga sé annarrar kynhneigðar en ég þá ætti það ekki að skipta máli, svo lengi sem allir viðstaddir styðja við fjölbreytni mannlífsins. En þegar flestir eiga eitthvað sameiginlegt sem ég á ekki sameiginlegt með þeim, þá tikkar það í gamalt box. Þau eiga umræðuefni þar sem ég get eingöngu verið hlustandi, eðlilega, og þegar það bætist við félagsfælnina mína og allt þetta óuppgerða, þá var það bara of triggerandi.

 

Og það bætti ekki úr skák að þarna varð ég fyrir fyrirlitlegri árás bróður míns, “hlandgosans” fyrrnefnda sem hefur ýmsar fjörur sopið og því miður ekki unnið úr sínu. Þegar hann komst að því að ein kórsystir mín væri vinkona mágkonu okkar, konu yngsta bróður okkar, þá bjó hann til sögu.

 

Hann sagði mér að hann hefði verið að spjalla við þessa mágkonu okkar og þessi vinkona hennar, kórsystir mín, hefði borist í tal. Mágkona okkar hefði spurt hana hvort hún þekkti mig ekki þar sem við værum saman í kór, og hún svarað: Ha, Bidda? Þessi gamla kerling þarna? Hún er snarfurðuleg, það skilur enginn hvað hún er að gera í kórnum, vonandi hættir hún bara því að það þolir hana enginn.

 

Ég trúði þessu nú ekki og sagði bróður mínum að ég myndi spyrja báðar þessar konur hvort þetta væri satt. Honum var nú slétt sama um það. Og þær komu auðvitað báðar af fjöllum eins og ég vissi. En þetta var mjög sárt samt sem áður. Og alveg magnað hvernig honum tókst að hitta beint á minn veikasta punkt. Sem segir mér talsvert um að systkini mín vita um hvað málið snýst og nota það gegn mér. Allt frekar en að feisa hlutina.

 

En ég potast áfram. Ég þrái að komast til sálfræðings en því miður hef ég ekki efni á því. Það er eitt af þessum innihaldslausu loforðum stjórnmálanna að semja við sálfræðinga um að verða hluti af heilsugæslunni en fjármagna það svo ekki. Ég læt mig ekki einu sinni dreyma um EMDR.

 

Ég fór til sálfræðings í Borgarnesi fyrsta veturinn minn hér, þetta var gamall maður sem var í rauninni kominn á aldur og það truflaði mig að hann skrifaði aldrei neitt hjá sér svo að ég var alltaf í vafa um hvort hann myndi eitthvað af því sem við töluðum um síðast og þar áður. Hann prófaði til dæmis að dáleiða mig, sem gekk ekki. Og eitt sinn sagði hann að saga mín væri þess eðlis að ef ég væri ekki svona sterk þá hefði ég getað sokkið á kaf í ólifnað og legið undir óteljandi körlum. Eftir það hætti ég að mæta til hans, þetta var alls ekki til að hjálpa mér.

 

Og þessi styrkur. Ég hefði jú alveg getað farið þessa dramatísku leið og hef oft verið þakklát fyrir að ég erfði ekki alkóhólisma föður míns. Ég erfði nefnilega flest annað frá honum. Pabbi minn var gríðarlega vel gefinn og átti mikið af bókum sem ég las aftur og aftur, honum fannst þó alltof mikið fyrir neðan sína virðingu að ræða þessar bækur við barnið. Hann hefði getað orðið svo margt ef hann hefði ekki verið fastur í þessari endalausu sjálfsvorkunn, ef hann hefði einhvern tímann sett börnin sín ofar en sjálfan sig. Hann er búinn að vera mér endalaust víti til varnaðar.

 

Og ég er ekki sterk. Ég er þvert á móti í henglum. En ég held áfram. Því að ég vil betra líf. Hvenær kemur annars þessi happdrættisvinningur?

 

Og ég hef ekki enn minnst á Barnaból, fyrirtækið sem ég stofnaði utan um vöggusettin mín. Vöggusettin hafa verið mín sálubót síðustu tíu árin og mér líður alltaf betur þegar ég er að vinna í þeim. Nú eru þau nánast tilbúin, ég hef verið að taka ljósmyndir og þarf næst að semja textann sem á að fara í bæklinginn. En ég þarf að safna mér saman til að koma því í verk, það er býsna stórt átak að koma einhverju út úr hausnum á sér og út í kosmósið. Það er í rauninni í alveg ótrúlega mikilli mótsögn við allt sem ég hef gert hingað til. Engan kvíða, takk.

 

En haustið er að nálgast og þá eykst mér orka. Kannski er ég vampíra, hver veit??? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Árnason

"Ritgerðirnar mínar eru samdar með valdi, ég þurfti að þvinga orðin fram því að þau vildu hlaupa út um allt. Ég gat hugsað efnið upp en ekki komið því í orð nema með herkjum."

Það er nú erfitt að ímynda sér að þetta sé rétt, eftir að vera búinn að lesa þessa grein. Yfirleitt sleppi ég svona löngum greinum. En ekki núna. Takk.

Haukur Árnason, 13.8.2021 kl. 01:25

2 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Kærar þakkir. Já það er merkilegt hvað það er mun auðveldara að skrifa frá hjartanu en til að þóknast einhverjum kennara, kvíðinn getur alveg tekið frá manni getuna.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 13.8.2021 kl. 09:56

3 identicon

Sæl Margrét Birna.

Það þarf allnokkuð til að setja
saman texta af þessu tagi.

Þér tekst prýðilega að þræða þetta einstigi
sem gjarna vill verða milli skynsemi og innsæis
og þess að rýna í þær rúnir sem eru þar mitt á milli.

Uppgjör þitt við fortíðina hlífir sjálfri þér hvergi
en svo vel hefur þér tekist upp við skrif þín
að þú ert nær því en nokkru sinni að geta afskrifað það
að því marki sem það er mögulegt og hefja nýjan kafla
í þínu lífi sem reistur er og grundvallast á þínum eigin forsendum.

Ég óska þér gæfu og gengis á þeirri nýju braut
og þú fáir loks notið þín og skrifað út endanlega það sem
er til trafala, er búið og gert og þvælist fyrir.

Þar geta ný búseta og nýtt samferðarfólk skipt verulegu máli
ásamt því að þín eigin vinna við að hnýta saman lausa enda
virðist á enda og að þau fyrirheit sem upphaflega voru þar
fái litið dagsins ljós, hér eftir er það ekki þitt vandamál
og hefur vitanlega aldrei verið hvað einhverjum kann að finnast um
þær breytingar sem orðnar eru, - allt er það horfið sem slíkt
og sjálfri þér getur þú treyst til að stjórna þínu fleyi þar sem er nýtt skip
og annað föruneyti.

Bestu þökk fyrir skrif þín og gjarna vil ég tilheyra þeirri sveit
sem fagnar með fagnendum því hið fyrra er horfið og við tekur nýr himinn og ný jörð
í lífi þínu og enn vil ég árétta árnaðaróskir minar til þín
og einlæga ósk um farsæld og að þér farnist vel.

Húsari. (IP-tala skráð) 13.8.2021 kl. 22:58

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég kynntist því vel er eg sat yfir í prófum H.Í.rúmlega 8 ár.Seinni árin sat ég yfir nemum sem höfðu fengið viðbót á tima af ýmsum ástæðum en oft vegna andstyggðar prófskrekks,en þau fengu aðstoð sem leit til þeirra meðan á prófinu stóð.--- Þarna kom gloppa sem ellinni fylgir; Man ekkert hvað sú hjálp kallast en er starfandi í H.Í. Þú ert bisna góður penni og það bara bætir að nota pínu kæruleysi; Hvern fjandann er ég að láta "fólk út í bæ" tætast í sál minni sem á það skilið af mér að ég verji hana því eg get hugsað;og við nýtum nú báðar andann rétt eins og heimsku fólin sem vita ekki hvað þau gera. Ég áræði að biðja þér guðs blessunar. Takk fyrir færsluna.   

Helga Kristjánsdóttir, 13.8.2021 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband