Olía og vatn

Ég tók stóra ákvörðun í gærkvöldi. Hvort hún er góð eða slæm verður bara að koma í ljós. Ég semsagt blokkaði öll systkini mín á facebook. Héðan í frá verða okkar samskipti því eingöngu með gamla laginu. 

Ég er búin að átta mig á því að samskipti okkar munu aldrei batna, til þess skilur alltof mikið á milli. Ég verð bara að taka því.

Ég bara get þetta ekki. Þau eru með mynd af mér sem hefur ekkert breyst í áratugi, mynd sem er byggð á Kvíðnu-Biddu, þessari sem getur varla tjáð sig fyrir kvíða og vanmetakennd en þráir mest að ná að tengjast sínum nánustu. Og notar alveg örugglega kolvitlausar aðferðir til þess. 

Í þeirra huga er ég ekki hlý, fyndin, skemmtilegur pælari eða neitt af því sem vinir mínir virðast sjá hjá mér. Þau sjá mig sem fúllynda og alltaf með vandamál á heilanum. Svo sit ég fyrir börnunum þeirra og treð upp á þau þjóðlögum og öðrum undarlegum áhugamálum svo að krakkagreyin vita ekkert hvað þau eiga að gera til að sleppa frá mér. Ég hefði kannski átt að kenna þeim á langspil, þá hefðum við eitthvað til að ræða um.

Það var mér svo mikil opinberun að uppgötva tólf sporin, þá fyrst eignaðist ég eitthvert líf. En það er bara ég. Það varð allavega ekki til að tengja okkur systkinin saman. Kannski var allt í himnalagi hjá þeim allan tímann og svo kem ég með leiðindi sem enginn nennir að hlusta á. En af hverju er þá öll þessi spenna, er ég ein um að búa hana til? Þetta er einhver innbyggð skekkja, allar mínar pælingar um hvernig vanrækslan í bernsku mótaði okkur öll virka eins og árásir á þau og því oftar sem ég hef reynt að byggja upp sameiginlegan skilning því harðari viðbrögð fæ ég. Og þá er fjandinn laus.

Ég var svo lengi í vafa um hvort ég væri í alvöru svona blind á sjálfa mig eða hvort vinir mínir hefðu rétt fyrir sér. Var ég kannski með einhverfu og í afneitun? Var ég kannski ekki að sjá hlutina? Þetta reif mig algerlega í tætlur og ég var með stanslausan hnút í maganum sem eitraði samskipti mín við bókstaflega allt fólk sem ég umgekkst. Ég held að þetta myndi flokkast sem ofbeldissamband í dag.

Eftir að ég flutti í sveitina hefur svo ótalmargt gerst og ég hef fengið fast land undir fæturna. Stór hluti af því er fjarlægðin sem ég hef fengið á systkini mín. Það kom aldrei fram hvernig ég ætti að tækla þessa meintu einhverfu, það vantaði alveg kærleikann í þetta hjá þeim. Enda snerist þetta aldrei um einhverfu heldur var þetta leið þeirra til að finna merkimiða á mig. Til að geta sett mig í merktan kassa uppi á hillu með öllum mínum skrýtnu áhugamálum og þurfa ekki að spá meira í það.

Og nú er komið að því að slíta naflastrenginn. Ég þarf að halda mig frá fólki sem stendur ekki með mér þegar ég þarf á því að halda, er það ekki annars það sem fjölskyldur eiga að gera? Ég er að starta fyrirtæki, ég er líka með heimildamynd í vinnslu og svo tek ég þátt í því að reka leikfélag og félagsheimili. Það þarf hugrekki til að vera félagsmálafrík, það gefur mér bara svo mikið. Ég sæki mér andlega næringu í að umgangast gott fólk sem kemur mér til að hlæja og sýnir því áhuga sem ég er að gera. Og leiðir mig líka á rétta braut stundum. Það eru gríðarleg forréttindi að eiga slíkt fólk að og ég er auðmjúklega þakklát fyrir það.

Það er þetta með vatnið og olíuna, það blandast bara alls ekki. Sama hvað maður hristir og hristir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Árnason

Það er líka málið.

"Ég sæki mér andlega næringu í að umgangast gott fólk sem kemur mér til að hlæja og sýnir því áhuga sem ég er að gera. Það eru gríðarleg forréttindi að eiga slíkt fólk að og ég er auðmjúklega þakklát fyrir það.

Það er þetta með vatnið og olíuna, það blandast bara alls ekki. Sama hvað maður hristir og hristir."

Haukur Árnason, 22.9.2021 kl. 12:23

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Ég býst við að margir geti tengt við vandræði með samskipti á okkar tímum. Af því að ég ólst upp hjá móðurfjölskyldunni hafa samskipti mín við föðurfjölskylduna, pabba og þau öll verið stirðari en ég hefði óskað.

 

En þetta með að setja krakka í ákveðna kassa er mjög óþolandi, að maður fær ákveðinn stimpil og losnar ekki við hann, maður er einrænn, ófélagslyndur eða eitthvað, og svo verður maður sjálfur að basla við að búa til aðra mynd af manni, ef maður finnur að þetta er ekki í samræmi við manns innra eðli. 

 

Ég held að það hafi verið rétt hjá þér að flytja í sveitina. Vonandi verða þessi samskiptarof ekki endanleg við systkini þín, en það á allt eftir að koma í ljós.

 

Af því að pabbi sá alltaf samband sitt við mömmu í gegnum mig finnur hann sömu galla við mig og mömmu. Margt særði mig sem hann sagði, en það var margt rétt í því. Hann bara fattaði ekki að það hefur enginn rétt á því að snúa lífi og skoðunum við í 90 gráður með fyrirskipunum eða orðum, að börnin verða að mynda sínar skoðanir og finna sinn persónuleika. Það tekur sinn tíma.

 

Lífið er löng vegferð. Kannski þurfum við mörg líf til að þroskast.

 

Þér að segja finnst mér Facebook ekki eins merkileg og ég taldi í fyrstu. Hún er eins og dóp, var það ekki Bergur Ebbi sem sagði það? 

 

En þetta með olíuna og vatnið er sterkt. Maður notar þessa líkingu þegar maður er að reyna að sannfæra sig um að eitthvað gangi ekki. En kannski á önnur líking betur við. Vonin felst í því að fólk getur breyzt, bæði maður sjálfur og aðrir.

 

En ef maður leggur sig of mikið fram um að breyta sjálfum sér verður maður kúgaður, og skemmist jafnvel, en ef maður krefst þess að aðrir breytist virkar það sem hroki. Erfitt að finna meðalveginn.

 

Ágætt að setja samskipti við suma í salt og halda svo bara áfram með það sem virkar, vinir og vinkonur sem maður treystir.

 

Vonandi að þetta gangi vel hjá þér.

 

 

Ingólfur Sigurðsson, 22.9.2021 kl. 13:34

3 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Takk fyrir þetta Ingólfur. Já það er þetta með meðalveginn, hann er vandrataður. Samskipti systkina í brotnum fjölskyldum eru eins og lélegt hjónaband. Annar aðilinn þráir samskipti og reynir hvað hann getur, kaffærir jafnvel fólk í gjöfum og veitingum og guðveithvað. Hinn aðilinn veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 22.9.2021 kl. 14:09

4 Smámynd: Kolbrún Harpa Vatnsdal  Kolbeinsdóttir

Margblessuð og sæl.
Ég var að lesa yfir þessa bloggfærslu hjá þér um fjölskyldu þína og mér vægast sagt dauðbrá við lesturinn svo ekki sé meira sagt. 
Það er eitt sem ég vil endilega benda á eftir lesturinn að það eru alltaf og undir öllum kringumstæðum
tvær hliðar á málum.
Það sem þú skrifar er alfarið og eingöngu þín hlið,þín sýn og þitt mat sem þú telur það eina rétta.
En ég er handviss um að það má heyra allt aðra sýn á málin frá þeim einstaklingum í þinni fjölskyldu sem þú af þinni einstöku skyldurækni,telur og fullyrðir að hafi gert á þinn hlut.
En veistu eitt mín kæra og það er meira að segja vel þekkt fyrirbæri..
"þegar fíflunum fer að fjölga allískyggilega í kring um mann "
að þá er löngu kominn tími fyrir ýtarlega naflaskoðun hjá sjálfum sér..ekki satt.
Kveðja frá Paradís


Kolbrún Harpa Vatnsdal Kolbeinsdóttir, 24.9.2021 kl. 14:00

5 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Sæl Harpa, takk fyrir þetta innlegg. Vissulega eru tvær hliðar á málum en ég get aðeins talað fyrir sjálfa mig. Mín niðurstaða er að samband mitt og systkina minna sé ofbeldissamband vegna þess að hegðun þeirra er þess eðlis. Ég geri ráð fyrir að þú sért að vísa í næstu bloggfærslu á undan þessari þar sem ég tek m.a. dæmi um hvernig bróðir minn reyndi að eitra samband mitt við kórfélaga mína með því að ljúga því til að ein kórsystir mín hefði haldið því fram að ég væri snarfurðuleg og enginn í kórnum skildi hvað ég væri að gera þarna. Hver er fíflið í því samhengi, er það ég? Þú veist baksögu þessa bróður míns sem ég fer ekki út í hér, er þetta til marks um að hann sé heilbrigður og hafi unnið í sínum málum? Komdu endilega með þessa allt öðru sýn því að ég skil þig ekki. Þessi hegðun hans er bara eitt dæmi af mörgum þar sem hann hefur reynt að koma því inn hjá mér að fólk hrylli við mér og minni nærveru. Það er ofbeldishegðun í mínum bókum, ert þú ósammála því? Það sem þú veist ekki er að hann byggir á orðræðu sem hefur viðgengist í systkinahópnum í áratugi því að hann gæti þetta ekki ef hann hefði ekki stuðning. Ég hef heyrt litla bróður minn nota nákvæmlega sama orðalag og hinn, hvort hann er svona hjartanlega sammála Sveinbirni eða bara heilaþveginn veit ég ekki. En nú er því lokið.

Ég hef eytt næstum þremur áratugum í að byggja upp samskipti við þetta fólk. Þú komst inn í fjölskylduna með syni þínum fyrir áratug og ég veit ekki annað en að samskipti okkar hafi alltaf verið mjög góð, endilega útskýrðu fyrir mér ef ég er að misskilja.

Ég veit að þessi bloggfærsla var harkaleg. En ósönn var hún ekki. Hún kom til af ástæðu, ég er að vinna mig út úr erfiðum málum sem byggja á bernskunni. Systkini mín hafa kosið sjálf að hafa þetta svona með því að halda því fram í hvert skipti sem ég hef opnað á málið að ég sé andlega fötluð. Þessi lygasaga Sveinbjörns byggir einmitt á því, að ég sé svo furðuleg að ég geti ekki verið í kór. Og eins líka þegar Vallý heldur því fram að ég hafi sjálf átt skilið eineltið í bernsku því að ég hafi ekki kunnað samskipti. Á ég að nefna fleiri dæmi?

Þau hafa sjálf kosið þessa leið í stað þess að setjast niður og ræða málin eins og ég bauð þeim margsinnis. Verði þeim að góðu.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 2.10.2021 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband