Nýr kafli

Fyrir tveimur árum sirka fékk ég það í gegn með mikilli þrjósku að fá heimilislækninn minn til að sækja um vefjagigtargreiningu hjá Þraut. Henni fannst ekkert að mér nema væl, enda kom ekkert út úr neinum blóðprufum sem benti til þess að neitt væri að. Ég var ekki sátt þegar ég hringdi í Þraut og komst að því að hún hafði ekki sent neina beiðni, enda fannst henni ekkert að. Og sjálf var ég ekkert alveg viss, ég vissi bara að eitthvað var að og þar sem þessi þjónusta var í boði þá sakaði ekkert að prófa. Ég bjóst samt ekki við neinu.

En loksins komst ég að fyrir hálfum mánuði og niðurstaðan er skýr: Ég er með bullandi vefjagigt um allan líkamann. Hún lýsir sér meðal annars í dofa, kraftleysi og lélegri stýringu í útlimum, ég á heimsmet í því að hrynja niður stiga og tröppur því að ég hitti ekki á þær og hef tognað oftar en ég get talið upp, síðast krækti ég mér í ökklabrot fyrir tveimur árum en þá kom reyndar hálka aðeins við sögu. Ég þarf að gæta mín á skökkum gangstéttarhellum sem hafa gefið mér nokkrar flugferðir, eins og í fyrrasumar þegar ég var í sakleysi mínu og meintum yndisþokka á rölti með nokkrum góðum vinum meðfram Tjörninni og breyttist á augabragði í afvelta kú. Af sömu ástæðu skrifa ég helst aldrei glósur með penna, ég næ kannski þremur orðum á meðan tíu setningar fara framhjá mér. Sem þýðir að ég þarf að muna utan að og það er nú eins og það er. Ég veit að ég á ekki að prjóna en get ekki neitað mér um það, ég er bara dálítið mikið lengur en allir aðrir að klára stykkin.

Þrekleysið hefur reyndar komið talsvert á óvart hjá manneskju sem hefur hjólað jafn mikið og ég og þjálfað lungun með allskonar raddæfingum í öllum þeim milljón kórum sem ég hef sungið með. Það er gott að vita að það er ekki bara leti um að kenna.

Ég hugsa að þetta sé sennilega ástæðan fyrir öllum heilarannsóknunum sem ég fór í fyrir áratug út af dofa í hausnum, þá var útilokað ms og mnd og heilaæxli og ýmislegt fleira. Ég er búin að fara í ansi margar rannsóknir gegnum árin þar sem allt mögulegt hefur verið útilokað og aldrei neitt fundist að mér annað en meint ímyndunarveiki.

Og svo hefur þetta eina fyndna hliðarverkun sem heitir heilaþoka. Nemendur mínir síðasta vetur skemmtu sér oft þegar ég var að ræða við einhvern gorminn og kallaði hann nafni sessunautarins. Ég get bara ekki treyst því undir álagi að hugsun og talfæri vinni í sameiningu, ekki frekar en hugsun og fætur. Sem kemur sér stundum ansi illa þó að það megi líka brosa að því. Ég get allavega sagt eins og ljóskan sem hugsar ekki áður en hún talar: Ég er alveg jafn hissa og allir aðrir yfir því sem kemur út úr mér! Það má allavega segja að það sé ekki mjög hjálplegt í samtölum við annað fólk svona alla jafna.

Þetta er ekkert nýtt og hefur sennilega alltaf fylgt mér í einhverri mynd. Það hefur bara aukist með aldrinum og valdið mér sífellt meiri kvíða og áhyggjum. Það er ekkert grín að ráða sig til starfa og vita að vinnuþrekið er ekki eins og það ætti að vera. Þeim hjá Þraut finnst það afrek að ég skuli yfirleitt vera á vinnumarkaði. Ég er bara þrjóskupúki, og svo finnst mér tilhugsunin um örorku ekki mjög aðlaðandi ef ég á nokkurs annars kost. Það er merkilegt að íslenska ríkið skuli ekki hafa fengið á sig dóm fyrir mannréttindabrot vegna fátæktargildrunnar sem öryrkjar eru neyddir til að sitja í. En ég fer ekki út í þá sálma, það gerir mér ekkert gott.

En eins og læknirinn sagði við mig um daginn, þetta er eins og að byrja að skrifa nýjan kafla í bók. Ég á pláss á Reykjalundi einhvern tímann næsta vetur og fæ þá allsherjar klössun á sál og líkama, þetta er víst allt ein heild. Ég ætlaði að bæta við mig kennsluréttindum í haust en fresta því á meðan ég sinni þessu verkefni, tek það bara með fítonskrafti að ári. Og svo finnst þeim ég vera heldur þung og vilja hjálpa mér eitthvað með það, kannski ég verði bara fislétt að utan og innan eftir þetta allt saman, það skyldi þó aldrei vera. Það verður áhugaverður kafli.


Það sem ég ætla að verða þegar ég verð stór

Þetta blogg er orðið frekar hljóðlátt, sennilega er ástæðan sú að þegar ég kem heim á kvöldin man ég ekkert hvað ég var að hugsa yfir daginn svo að ég kveiki bara á sjónvarpinu og tæmi hausinn minn þar. Það er því við hæfi þar sem ég er komin í smá frí, að allt í einu tekur sig upp gamalt ritæði og hinar gáfulegustu hugsanir streyma frá mér eins og enginn sé morgundagurinn.

Ég er enn að reyna að komast að því hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. Ég er með eina og hálfa háskólagráðu en ég finn samt ekki fræðimanninn í mér. Ég sest niður með drög að texta en hann er kominn út um víðan völl áður en við er litið, ég er bara ekki gefin fyrir svona kerfisbundna hugsun. Ég vil frekar fá að spinna einhverja vitleysu og sjá hvert það leiðir mig. Hversu gáfulegt er það? 

Þannig kláraði ég BA-ritgerðina með handafli þrátt fyrir það vald sem ég hef á íslensku máli, að safna saman hugsunum mínum var eins og að smala köttum. Og hvað er þá unnið með því? 

Mér finnst alltaf gaman að lesa fræðilegar greinar þegar einhver annar er búinn að draga saman allar upplýsingarnar og komast að niðurstöðu. Bara ef ég þarf þess ekki og fæ bara að lesa og njóta. Er ég þá algjör haugur? 

Ég verð aldrei besti sagnfræðingur í heimi? Var allt þetta nám þá til einskis? Svona fyrir utan alla skemmtunina meðan á því stóð. Er það ekki dálítið ósanngjarnt að geta ekki bara notið þess að læra til að læra, þarf maður alltaf að verða eitthvað líka?

Ég veit hvenær mér líður best. Það er þegar ég er í skapandi og lifandi umhverfi. Það fann ég í gær á tónleikum með kórnum mínum, mikið sakna ég þeirra þrátt fyrir alla mína félagsfælni og kvíða. Söngur er sálubót.

Það er svo gott að geta hlegið og það var ekkert annað í boði þegar við Inga fengum úldna fiskisúpu á Horninu og fórum svo á Rósenberg þar sem Stebbi Jak söng hátt en drykkjulætin voru enn hærri. Við byrjuðum að líta á klukkuna þegar hálftími var liðinn en kláruðum samt tónleikana, ég ákvað bara að hafa í þykjustunni að við værum ekkert á Rósenberg heldur á Celtic Cross þar sem kjaftagangurinn var þesslegur, Stebbi var eiginlega bara eins og hver annar trúbbi sem enginn var að hlusta á. En þegar hann var að hætta þá bauð einhver 100.000 kall fyrir nokkur lög í viðbót! Kannski var þá einhver að hlusta.

Ég fer svo sjaldan til Reykjavíkur þessa dagana og þegar það gerist þá er ég með lista yfir allt sem ég ætla að gera, fólk sem ég ætla að hitta og svo framvegis. Eitt af því sem ég vildi alls ekki missa af var útskriftarsýning Listaháskólans og þangað fór ég þegar ég vaknaði í morgun. Ég fór svo oft á þessar útskriftarsýningar þegar þær voru haldnar í Laugarnesinu en Hafnarhúsið er auðvitað miklu skemmtilegra sýningarhúsnæði. Alveg frábær sýning og fjölbreytt og einstaklega skemmtilegt verkið hennar litlu frænku. 

Það rifjaðist upp fyrir mér hve mér líður alltaf vel á myndlistarsýningum, öll félagsfælni hverfur og ég er bara eins og fiskur í vatni. Kannski er félagsfælni bara eitthvað sem gerist þegar maður reynir að þvinga sig til að gera eitthvað sem er manni ekki eiginlegt, standa undir einhverjum viðmiðum sem aðrir setja manni. Ég hef dragnast með þann poka á bakinu að þurfa að standa undir þessum undrabarnsstimpli sem ég fékk á mig í æsku, að sýna fólki að það gæti eitthvað orðið úr mér. Ég vissi bara ekki alveg hvað. Og fyrir hvern? Skulda ég þetta einhverjum? Einhverjum sem hittir mig kannski á kassanum í Rúmfó og hristir hausinn yfir mér? Er það ekki snobb? Ég er allavega frekar sátt við að vera í starfi þar sem allt gengur sinn vanagang og ég þarf ekki að brjóta heilann um tilgang lífsins. Og svo gerist kannski eitthvað annað þegar það hentar mér. 

Mig langaði til að prófa ýmislegt þegar ég var yngri en hafði ekki kjarkinn, og kannski ekki hugmyndaflugið heldur. Þannig að ég fór þá leið að stunda kvöldskólanám meðfram vinnunni og sótti þangað mína andlegu næringu, en vissi samt ekki alveg hvernig ég gæti skapað mér framtíð með því. Sumir þroskast bara seinna en aðrir.

Ég á heima í skapandi greinum, það veit ég og hef alltaf vitað. Og þangað á ég að stefna. Nú þarf ég bara að setja kraft í vöggusettin mín, ég er að fara að fá fyrsta hollið úr prentun og það næsta er að verða klárt. Svo bíða tvö önnur á hliðarlínunni og þar sem ég verð í fríi alla næstu viku þá getur ýmislegt gerst. Kannski ég fari jafnvel að kíkja á meistaraverkefnið mitt. Og kannski ég komist þá að því hvað ég ætla að verða. Eða ekki.


Transkona í vanda

Yndisleg Gleðigangan í dag, var að enda við að horfa á fréttir og mikið voru kórfélagar mínir fallegir með skiltin sín, sól og blíða og nýi forsetinn okkar flottur með sinn boðskap. Auðvitað erum við öll hinsegin og eigum að vera stolt af því, hvert á sinn hátt. En svo kíkti ég á tölvupóstinn minn og þar voru sláandi fréttir af Chelsea Manning. Chelsea gekk áður undir nafninu Bradley Manning og þeir sem muna eftir myndbandinu þar sem bandarískir hermenn skjóta úr þyrlu á óbreytta borgara á götu í Írak og var frumsýnt af Birgittu Jónsdóttur og vinum hennar í Wikileaks. Chelsea stendur frammi fyrir 30 árum í einangrun fyrir það eitt að hafa reynt sjálfsvíg í varðhaldinu. Sem setur orð hennar Uglu í fréttunum í kvöld í nýtt samhengi. 

Iraq War whistleblower Chelsea Manning is facing up to 30 years of solitary confinement as punishment for—believe it or not—attempting suicide. Will you chip in to Chelsea's legal team and our campaign to stop this inhumane treatment? I'll donate

Dear Margret Birna, On July 5, after years of appalling mistreatment as a transgender woman in an all-male military prison, Iraq War whistleblower Chelsea Manning attempted suicide in her cell at Fort Leavenworth.

Chelsea has been denied access to medical care.1

She's even been denied access to her own lawyers.2

Now, believe it or not, the U.S. military is trying to punish her for her suicide attempt with up to 30 years in solitary confinement.3

Chelsea's legal team has asked for help with the cost of her ongoing defense. Will you chip in for her defense and our work drawing in public attention to her case? Yes, I'll chip in to help defend Chelsea Manning.

Let's be clear. Chelsea is enduring these abuses for one reason: because she exposed the truth about war crimes committed by the U.S. military during the wars in Iraq and Afghanistan. She uncovered video of an Apache helicopter firing on unarmed civilians, including a Reuters journalist and those attempting to transport the wounded.4

She revealed how the American people were being lied to over and over. She did the world an enormous service—and is now facing decades of mistreatment so severe that it meets the U.N.'s definition of torture. Last year, when Chelsea was threatened with solitary confinement as punishment for being caught with a magazine and an expired tube of toothpaste in her cell, our members rallied to her defense. Now Chelsea's legal team says they need $80,000 to defend her against these new charges. If you chip in today, we'll send half of your donation directly to Chelsea Manning's defense fund and use the other half to power our ongoing public campaign to draw attention to the abuses she's facing. Will you chip in to support our campaign and help Chelsea's legal team fight to defend her?

Thanks for standing with us, David Segal and the team at Watchdog.net

DONATE

Sources:

1. Government continues to deny Manning access to health care, American Civil Liberties Union, July 28, 2016

2. Chelsea Manning cut off from lawyers amid hospitalization rumors, The Guardian, July 6, 2016

3. Chelsea Manning, on facing life in solitary after attempting suicide, Boing Boing, August 1, 2016

4. Collateral Murder, Wikileaks, April 5, 2010


Bidda og boltinn

Einu sinni var ég algjör fótboltadýrkandi. Það var í kringum 10-12 ára aldurinn þegar Ásgeir Sigurvinsson fór með himinskautum og Jóhannes Eðvaldsson skoraði með hjólhestaspyrnunni frægu á móti Austur-Þjóðverjum. Áhuginn var einlægur og þetta var skemmtilegt. Ég fylgdist vel með deildakeppninni í fótbolta og hér á Selfossi áttum við meira að segja leikmann sem fyllti okkur miklu stolti, hann spilaði reyndar með Fram en ég man vel eftir því hvað það fyllti okkur Selfosskrakkana miklu stolti þegar sagt var frá mörkunum hans í íþróttafréttunum.

Svo liðu nokkuð mörg ár og það var eitthvað minna um stóra sigra. Aðdáunin breyttist í meðvirkni og sú meðvirkni varð því meiri sem árangurinn varð minni. Samt var ekkert að frétta af körlunum en á sama tíma blómstraði kvennalandsliðið, þær eru búnar að taka þátt í nokkrum stórmótum. Dýrkunin færðist samt ekki yfir á þær, einhverra hluta vegna. Kannski snerist þetta aldrei um fótbolta, það er sennilega rannsóknarefni fyrir félagsfræðinga að skoða samspil íþróttaárangurs og meðvirkni en það er mín tilfinning að það snúist afskaplega lítið um íþróttina.

Þess vegna er ég svo glöð núna, ég hef fundið aftur þessa gleði sem fótboltinn færði mér einu sinni. Og ég mun öskra hæst af öllum ef okkar menn vinna Englendinga í kvöld og komast í 8 liða úrslit.


Frá 16-06-80 til 06-06-16

Hvernig á ég að orða þetta? Ég er ekki stærsti aðdáandi Bubba Morthens en ég get ekki horft framhjá því hvernig hann breytti lífi mínu varanlega þegar ég var 17 ára.

Ég var vinnukona norður í Steingrímsfirði þar sem aðalstarf mitt var að fylgja 84 ára gamalli konu sem bjó með tveimur ógiftum sonum sínum, báðum um sextugt. Þetta sumar lærði ég að strokka smjör og búa til skyr, sjóða mysing og ýmislegt fleira. Og grotnaði niður úr leiðindum. Þetta var ekki skemmtilegt fólk, þarna var mikið um sjálfhælni og baknag sem ég veit núna að er einkenni á óhamingjusömu fólki. Það getur enginn gefið það sem hann ekki á og þetta fólk hafði ekkert að gefa mér. 

Ég gat ekki hangið í símanum, þarna var sveitasími sem þýddi að öll sveitin gat hlustað á samtölin, ég gat hreinlega ekki tjáð mig við neinn. Það skemmtilega við símamálin var að þegar ég eignaðist bróður þetta sumar fékk ég skeyti frá pabba, skeyti sem ég varðveitti vel og gaf svo bróður mínum fyrir nokkrum árum. Ég man textann í því held ég orðrétt: Drengur fæddur 16.06, 15 merkur og 56 cm, öllum líður vel, pabbi. Boltinn sem hann Frikki hefur verið, þetta er ekkert smá ungbarn. Og þessar upplýsingar hafa varðveist vegna þess að símstöðin var lokuð.

En þessi sautján ára ég hafði enga hugsun á því að berja í borðið, ég gat ekki farið heim með lafandi skottið og ég vissi ekki um neina vinnu sem ég gæti hoppað inn í. Svo tók það enda og í ágúst kom ég heim. 

Og hvílík heimkoma! Og þá kem ég að kjarna málsins. Það var þessi Bubbi, hann var bókstaflega á allra vörum. Tónlistin hans reif fólk í tætlur og fólk hafði mjög sterkar skoðanir. Hann var ýmist dýrkaður eða hataður, það var ekkert þarna á milli. Og þetta var maður sem ég hafði ekki heyrt nefndan þegar ég fór norður þetta vor. Hann henti út öllu þessu gamla og staðnaða og krakkarnir sungu Við munum öll, við munum öll, við munum öll DEYJA. Hann bjó til farveg fyrir okkur öll og eftir það var ég ekki sama stelpan. Veturinn eftir var mikil deigla í gangi þar sem ég vissi ekkert hvað ég vildi eða gæti en hékk á Hlemminum með krökkum sem voru í sömu stöðu og ég. Á Hlemminum kynntist ég því fyrst að vera jafningi annarra, það var enginn með uppnefni eða stæla og þarna var alveg einstakt andrúmsloft. Jón Gnarr lýsir því frábærlega í miðjubókinni sinni, hann var einn af þessum krökkum sem voru í sömu deiglunni og ég. Og öll litum við upp til Bubba.

Sumarið sem ég var 17 ára hafði ég verið að skilja mjólk og strokka smjör, þegar ég varð 18 ára var ég hangandi á Hlemminum í undarlegum félagsskap. Ég þurfti ekki að kunna á strokk, ég notaði bara hrærivél. Svo hnoðaði ég áfirnar burt undir rennandi vatni og mótaði stykki sem ég pakkaði inn í smjörpappír og þau sem ekki voru étin af heimilisfólkinu fóru í kaupfélagið á Hólmavík. Mér finnst svolítið fyndið að ég hef aldrei síðan haft tækifæri til að flagga hæfni minni í að fara með skilvindu. Af hverju er ekki skilvinda á hverju heimili? En svo kom Bubbi og allt breyttist.

Þetta á ég Bubba Morthens að þakka. Ég er ekki jafn hrifin af öllu sem hann hefur gert en þetta verður ekki frá honum tekið. Til hamingju með sextíu árin og takk fyrir deigluna sem þú bjóst til þegar ég var 17 ára.

 

 


Það lifnar allt við á haustin

Ég er svo öfugsnúin (kannski er þarna komin ástæðan fyrir því að ég þrífst svo vel í Hinsegin kórnum), en allavega þá er haustið minn uppáhaldstími. Það fer allt í gang á haustin og það elska ég í tætlur. Þegar blómin deyja og laufin fara að falla af trjánum, þá fer Bidda í stuð. Verst að ég á ekki pening til að fara í jóga eða magadans, þetta segi ég reyndar á hverju ári en nú er það alveg satt.

Ég kláraði veikindaréttinn í byrjun sumars og var meira og minna í tilvistarkreppu í allt sumar. Ég vissi, og veit, hvert mig langar að stefna en það var ekki alveg ljóst hvaða leiðir væru færar. Ég átti ekki rétt á atvinnuleysisbótum vegna námsins síðasta vetur og þar sem ég fékk enga vinnu þá sat ég uppi með félagslega framfærslu fyrir atvinnulausa námsmenn. Ég hafði ætlað að ráðast í meistaraverkefnið í haust en fann að ég var enginn bógur í það, mig vantaði meiri tæknilega þekkingu og vissi að mér væri ekki að fara að takast þetta. Og alveg vonlaust að fara að taka námslán vitandi að ég gæti ekki klárað þetta. 

Ég reyndi eins og ég gat að finna mér vinnu en komst að því að 52 ára er ekki mjög sexí. En ljósi punkturinn var auðvitað sá að þar sem ég var tekjulaus í sumar eða svo gott sem, þá átti ég í fyrsta sinn rétt á fullu námsláni. Þannig að ég valdi mér fullt nám og skráði mig í ýmsa hentuga kúrsa, vefritstjórn, ensku, heimildamyndagerð og fleira sem hjálpar mér þegar ég fer að búa til margumrætt vefrit. Og svo fékk ég vinnu með náminu, 10-15 klst á viku, við að aðstoða fatlaðan samnemanda. Sem er mjög gott, þá þarf ég aldrei að fara út af skólalóðinni. Ég hélt um daginn að ég væri komin með vinnu á kaffihúsi en svo brást það og eftir fyrstu vonbrigðin þá var ég bara fegin, þetta var illa borguð þrælavinna. Það er hærra tímakaup í því sem ég er að gera núna.

Svo að málin eru loksins komin á hreint. Skólinn hefst á mánudaginn og ég ætla rétt að vona að ég fái skrifborð á háskólasvæðinu, ég á eftir að vera þar allan sólarhringinn. Það verða mikil viðbrigði að hafa svona mikið að gera og ég þarf að setja mig í stellingar. Það er bara ákveðinn tímafjöldi í hverjum sólarhring og það er mikil sóun að eyða þeim tíma í að vera hrædd við námsefnið. Ég geri bara mitt allra besta. Einu sinni hafði ég ekkert fyrir námi, ég bara las og las og kunni það sem ég las. Svo fór kjarkurinn að minnka, það tók á að vera alltaf í fullu starfi og grípa í skólabækurnar meðfram, ég gat ekki lengur sökkt mér í bækurnar eins og þegar ég var yngri. Ég var að lesa grein um daginn þar sem sagði að það væri ekki hægt að multitaska, það væri bara hægt að gera eitt í einu ef vel ætti að vera. Gott að vita, þetta er ég búin að gera árum saman og það hefur ekki skilað mér neinu nema álagi og kvíða. Svo að ég er búin að skrá mig á trellónámskeið í vikunni til að læra að skipuleggja mig. Trelló er frábært tæki til að halda utan um allt sem þarf að vita og muna og meira þarf ég ekki. Þetta verður bara skemmtilegt. Lúxusinn minn í vetur verður árskortið mitt í Bíóparadís, það verður gott að geta skotist þangað hvenær sem ég á skilið verðlaun eftir góða frammistöðu.


Söngurinn og regnbogafáninn

Ég hef sungið í kórum frá níu ára aldri og hef sungið á fleiri tónleikum en ég get talið upp. Það er undantekningalaust alveg rosalega mikil vinna sem liggur að baki hverjum tónleikum og hvert smáatriðí er fínpússað upp til agna, alveg sama hvað er á söngskránni. Og einhver stemmning sem jaðrar við að vera heilög. Ég gleymi því ekki hvað ég var stolt þegar ég komst inn í kór Barnaskólans á Selfossi þegar ég var níu ára, að undangengnu söngprófi, og nú finnst mér ekki alveg eðlilegt að raddprófa svo unga krakka, þau eiga að sjálfsögðu öll að fá að vera með ef þau hafa löngun til að syngja á annað borð. Kannski var einhverjum hafnað þegar ég komst inn. En hátíðleikinn, maður minn lifandi. Og ég kann ennþá röddina mína í Födt er himlenes kongeson, fyrsta laginu sem ég söng í röddum. Hvor han dog er mild og skön og så videre. Það bara gerðist eitthvað undursamlegt þegar ég söng millirödd þarna í fyrsta skipti og heyrði hljóminn sem myndaðist þegar sópraninn kom með. Níu ára krakkastýri að syngja einfalt barnalag.

Þegar ég var þrettán ára tók ég þátt í frumflutningi eftir dr. Hallgrím Helgason og ég man hvað mér fannst það rosalegt að syngja eitthvað sem enginn hafði sungið áður, það var bara eitthvað svo stórt. Ó reynitrééé... Og ég kann það sko ennþá, ekki spurning, bæði alt og sópran. Ætli það hafi annars aldrei verið hljóðritað?

Svo komu aðrir kórar á eftir og ég nýtti mér það markvisst að geta haldið lagi til að komast innan um fólk. Ég á ennþá trausta og góða vini sem ég söng með í Kór FSu fyrir 30 árum. Og kirkjukórarnir þrír, ég söng til dæmis við vígslu Vestfjarðaganganna sem félagi í kirkjukórnum í Súðavík, það kitlar alltaf pínulítið þegar ég á leið þar í gegn. Og vinahópurinn minn í dag væri talsvert minni ef ég hefði aldrei verið í Háskólakórnum. Og nú er ég í Hinsegin kórnum og er búin að búa til útvarpsþátt um það.

Ég hef sungið Gloriu eftir Vivaldi tvisvar sinnum, bæði sem alt og sópran. Ég hef sungið African Sanctus og líka Messu í C eftir Beethoven. Ég hef líka sungið við ansi margar útskriftir, bæði sálma og ættjarðarlög og allt hvað eina. Það var eiginlega orðið frekar hversdagslegt að syngja á tónleikum.

Alveg þangað til á laugardaginn var. Við félagarnir í Hinsegin kórnum vorum mætt í Seltjarnarneskirkju, komin í kórgallann og búin að hita upp. Og hlökkuðum alveg óstjórnlega til að syngja prógrammið okkar fyrir fullu húsi, enda uppselt. Kórstjórinn okkar búinn að raddsetja nokkur laganna á alveg nýjan hátt og það var spennandi að fá viðbrögð við húmornum í Barbie Girl, að öllu hinu ólöstuðu. Bara gaman að fá að syngja dægurlög og hvíla sig á klassíkinni. Fallegur dagur, blár himinn og vor í lofti, þetta gat ekki verið betra. Hátíðisdagur.

Og þá kynntist ég því sem ég hafði aldrei kynnst áður. Einhver undarlega þenkjandi náungi gerði tilraun til að rífa niður regnbogafánann sem blakti fyrir utan kirkjuna og það þurfti að kalla til lögreglu. Allt í einu var þessi hátíðisdagur saurgaður, við vorum óþyrmilega minnt á að það er grunnt niður á óþverrann. Kórfélagar mínir kipptu sér ekki mikið upp við þetta, þau eru sennilega ýmsu vön, en ég hinsvegar varð algerlega miður mín, ég varð hreinlega klökk. Vegna þess að þessir kórfélagar mínir eru nákvæmlega eins og allir aðrir kórfélagar sem ég hef áður haft og eiga skilið alla þá virðingu sem til er. Engum dytti í hug að haga sér svona gagnvart Háskólakórnum, eða neinum öðrum kór yfirleitt. Og einmitt vegna þess hvað dagurinn var hátíðlegur og fullur af tilhlökkun þá voru allar tilfinningar galopnar og tilbúnar að taka á móti gleðinni. Það hvarflaði ekki annað að manni en að allir kæmu fagnandi. Meira hvað eitt skemmt epli getur eitrað út frá sér. Það myndaðist einhver alveg sérstök tilfinning á tónleikunum, einhver samkennd, sérstaklega þegar við sungum Ég er eins og ég er í magnaðri raddsetningu hennar Helgu kórstjóra. Og miðað við fagnaðarlætin þá heppnuðust tónleikarnir afskaplega vel.

Og svo fórum víð í partý á eftir, en ekki hvað! En ég fann mig ekki alveg, ég náði ekki gleðinni minni almennilega til baka. Ég bara datt inn í mig og náði mér ekki aftur út. Og endaði með að fara frekar snemma til að vera ekki eins og einhver dragbítur. Ég var eiginlega hálf hissa á því hvað þetta hafði mikil áhrif á mig, það er ekki eins og ég hafi aldrei rekist á hálfvita fyrr. En þetta hitti mig fyrir á viðkvæmum stað, það var ausið ógeði yfir eitthvað sem er mér algerlega heilagt. Ég gæti núna haldið ræðu um einelti og afleiðingar þess, en það á samt ekki við því að sem þolandi eineltis var ég alltaf viðbúin einhverju ógeði. Það átti ekki við á laugardaginn, ég var eins innilega óviðbúin og hægt er að vera og það er í vissum skilningi bara fallegt. Það er alltaf eitthvað fyrst.


Lokadagur

11. maí er lokadagurinn samkvæmt gömlu dagatali. Lok vetrarvertíðar, það er að segja, og í framhaldi af lokadeginum kom vinnuhjúaskildagi, þessi árlegi dagur þar sem fólki var leyft að skipta um vinnu.

Í dag var lokadagurinn minn í þrennum skilningi. Ég útskrifaðist frá VIRK með fulla starfsgetu, húrra fyrir því, og útskrifaðist líka frá sálfræðingnum mínum sem sömuleiðis var í boði VIRK. Ég get svosem alveg haldið áfram að hitta hana, hvenær er ekki gott að hitta sálfræðing? Ég dríf í því um leið og ég verð búin að vinna í happdrættinu, sálin er jú ekki ennþá orðin hluti af heilbrigðiskerfinu.

Og síðast en ekki síst þá lauk ég við litlu heimildamyndina um ömmu mína og sendi hana til kennarans, nú get ég ekkert meira krukkað í hana. Hún er ekki fullkomin en ég var svo heppin að klúðra næstum öllu sem ég gat og lærði þar af leiðandi alveg helling og nú get ég bjargað mér í Final Cut og það mun koma að gagni í útskriftarverkefninu mínu. 

Sem sagt - öllum verkefnum lokið og það er komið sumarfrí :D

 

 


Mitt eigið öryggisnet

Ég var að hlusta á útvarpið og heyrði þá óvænt í stelpu sem ég þekkti lítilsháttar fyrir 15 árum eða svo. Allt í lagi með hana svosem, en ég fór að hugsa um hvar ég var staðsett í lífinu á þeim tíma.

Ég hef alltaf haft geggjaða þörf fyrir öryggi en samtímis haft alveg jafn geggjaða þörf fyrir að brjóta af mér öll bönd. Og lengi vel vissi ég ekkert hvað ég átti að gera og hékk bara á herðablöðum allra í kringum mig, þ.e. þeirra sem ég þorði að umgangast.

Nema hvað, fyrir 15 árum vann ég á skrifstofu. Ég var í allskonar skjölum og skráningum eins og maður gerir á skrifstofu og fann dálítið til þess að í fyrsta skipti á minni starfsævi var ég að nota höfuðið meira en hendurnar. En ég var samt ekki alveg ánægð, mig langaði í meira. Ég vissi bara ekki hvað. Helstu fyrirmyndirnar mínar voru lögfræðingarnir sem ég vann með en mig langaði samt ekki til að fara í þeirra spor. Ég hefði alveg getað það en þá hefði ég ekki verið ég. Og hver var ég svosem?

Ég keypti mér íbúð á þessum tíma. Mína fyrstu, og fannst ég hafa náð stórum áfanga. En það vantaði eitthvað. Lífið átti að vera eitthvað meira en vinna á daginn og sjónvarpsgláp á kvöldin. 

Svo að ég lét gamlan draum rætast árið 2002, leigði út íbúðina og skellti mér til Siena í ítölskunám eitt sumar. Gamli draumurinn minn um að læra listfræði var dreginn fram og hvers vegna ekki á Ítalíu innan um allar hetjurnar mínar? Nema hvað, ég reisti mér hurðarás um öxl. Ég komst að því, mér til mikillar furðu, að ég gat alls ekki lært ítölsku. Ég gleymdi öllu jafnóðum sem mér var kennt, sama hvað ég las og las. Ég var bara svona kvíðin.

Þannig að ég kom heim um haustið, þvert á allt sem ég hafði ætlað mér, og til að tapa ekki minni litlu ítölsku skráði ég mig í ítölskunám í Háskóla Íslands. Ég hélt að ég myndi rúlla því upp en það fór alveg á sömu leið. Á þessum tíma seldi ég íbúðina, korteri áður en hún rauk upp í verði, og nagaði mig í handarbökin í langan tíma á eftir. En svona er bara lífið. Og eftir á að hyggja var þetta rétt ákvörðun.

Á þessum fyrsta vetri mínum í HÍ tók ég kúrs sem breytti lífi mínu. Ég var að klepra á ítölskunni og tók því fegins hendi að setja upp sýningu í Árbæjarsafni. Ég sem tilvonandi listfræðingur þurfti að sjálfsögðu að kunna að setja upp sýningu. 

Nema hvað, í þessum kúrs gerðist eitthvað. Ég naut mín í tætlur og fannst ég virkilega vera á heimavelli. Og árið eftir skráðí ég mig í sagnfræði. Þannig að í dag er ég sagnfræðingur með listfræði sem aukagrein. Þessi sýningarkúrs var hugmynd Eggerts Þórs Bernharðssonar, þarna var hagnýta menningarmiðlunin algerlega á frumstigi. Þremur árum síðar var hún formlega stofnuð og hefur síðan mokað út ótal snillingum með meistaragráðu. Ég lenti semsagt mér óvitandi í meistarakúrsi á mínum fyrsta vetri í háskóla. Það var mikil heppni.

Ég kláraði alla kúrsa árið 2006 en svo fóru talsvert mörg ár í að horfa á BA-ritgerðina og bíða eftir því að hún skrifaði sig sjálf, þess vegna útskrifaðist ég ekki fyrr en 2014. Þá fyrst öðlaðist ég rétt til að skrá mig í hagnýta menningarmiðlun og núna loksins veit ég hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór.

Ég er á eftir á leiðinni upp í skóla þar sem ég fæ skyndikennslustund í meðferð tökuvélar og þrífótar, á morgun ætla ég að taka viðtal við skólabróður minn úr Árbæjarsýningunni forðum þar sem við ætlum að freista þess að ramma inn hugverk Eggerts. Ég veit nákvæmlega hvað ég vil fá fram og hvernig ég á að fara að því, vantar bara að kunna á tökuvélina. Svo fer ég eftir það að vinna í stuttri heimildamynd um ömmu mína þar sem ég tek fyrir dugnaðinn hennar og hörkuna, ég er komin með slatta af ljósmyndum en vantar fleiri og svo hef ég frétt af viðtali við hana sem ég vonast til að geta nýtt mér. Í næstu viku koma páskarnir og þá verð ég á Ísafirði og mun nota tækifærið til að vinna að strandlínuverkefni sem vonandi kemst í framkvæmd fyrr en síðar.

Og já, næsta sunnudagskvöld verður fluttur útvarpsþátturinn minn um Hinsegin kórinn, það er annar útvarpsþátturinn sem ég geri og gæti alveg hugsað mér að gera fleiri, ég kann það allavega núna. Ég fór í gegnum miklar pælingar þegar ég tók viðtölin við kórfélaga mína, já ég er félagi í Hinsegin kórnum. Og ég er nýbúin að átta mig á því að ég þarf ekki að útskýra af hverju ég er í þeim félagsskap. Ha neinei, ég er sko ekki lesbía! Ég bara syng með þeim! Það má nefnilega skilja það þannig að ég sé ekki ein af þeim, sem kemur frekar hallærislega út. Þannig að núna hef ég vanið mig af því. 

Ég er núna á eftir á leiðinni út í banka til að senda 1500 dollara til Kína og stefni staðfastlega á að skapa mér atvinnu með því sem ég fæ þaðan. Allt útreiknað og báðir fætur á jörðinni. Ég er búin að sækja um vinnu í sumar en veit ekki hvort ég fæ hana. Og mér er alveg hjartanlega sama. Ég er bara alveg hætt að vera hrædd við framtíðina, hún kemur. 

Ég er búin að sleppa öryggisnetinu og það er æði. Of mikið öryggi getur nefnilega verið kyrkingartak. Ég er nefnilega komin með mitt eigið sem er sniðið að mér sjálfri. Og byggist algerlega á því sem ég get og kann og veit. Það er alvöru.


Bidda saumar út - í loftið

Ég er að bíða eftir tilboði frá Kína og það ætlar að taka einhvern tíma. En það er allt í lagi, ég get alveg notað tímann á meðan. Og samkvæmt nýjustu upplýsingum þá er almennt frí í Kína núna, allavega í Guangdong. Á meðan sauma ég prufur og fikta með allskonar liti, það eru nefnilega alltaf tveir litir saman í nálinni og þeir þurfa að hljóma saman, og svo þurfa þeir líka að vilja tala við alla hina litina. Núna er ég búin að sauma sama bangsann nokkrum sinnum því að fyrst var hann of dökkur og þá urðu augun of ljós. Þá fann ég ljósari lit á hann og nú eru augun orðin dekkri. Og slaufan um hálsinn á honum þarf að vera í bleikum lit í sama styrkleika og blái liturinn í buxunum, sami blái liturinn þarf svo að passa sem augnlitur til að vera ekki með alltof marga liti. Og með honum er dúkka sem er líka búin að breyta nokkrum sinnum um lit, fyrst var hún of drapplit en nú er hún orðin fallega ljósbleik með einum þræði af gulleitu. Og þá þarf kjóllinn hennar að vera í lit sem vegur salt á móti. Og slaufan í hárinu á henni þarf að kallast á við slaufuna á bangsanum. Og sami liturinn fer á varirnar á henni því að það er ekki hægt að vera með sérstakan lit fyrir 3-4 spor eingöngu. Og þegar því öllu er lokið þá þarf ég að finna út hvernig hárið á henni á að vera, hvort hún verður ljóshærð eða kannski jarphærð, það fer eftir því hvernig það þjónar heildarmyndinni. Og þó að frumgerðin verði kannski ljóshærð þá gæti eftirgerðin alveg orðið eitthvað annað. Tímafrekt en alveg ótrúlega skemmtilegt. Eiginlega bara algjör forréttindi. Og svo þarf ég að skrá nákvæmlega hve mikið ég nota af hverjum lit því að þá get ég tínt það til á stundinni þegar þar að kemur. Og svo þarf ég að prófa mig áfram með hvítu fiðrildin, hvítt er ekki bara hvítt. Eins og í bíómyndunum þegar þagnir eru búnar til með dropa sem lekur úr krana. Og svo allar hinar vögguvísurnar og bænirnar sem bíða eftir að verða myndskreyttar á sama hátt. Þegar veðrið er svona leiðinlegt og ég er svona mikið heima hjá mér þá er bara ekki hægt að hugsa sér betri tímasóun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 109239

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband