Mitt eigið öryggisnet

Ég var að hlusta á útvarpið og heyrði þá óvænt í stelpu sem ég þekkti lítilsháttar fyrir 15 árum eða svo. Allt í lagi með hana svosem, en ég fór að hugsa um hvar ég var staðsett í lífinu á þeim tíma.

Ég hef alltaf haft geggjaða þörf fyrir öryggi en samtímis haft alveg jafn geggjaða þörf fyrir að brjóta af mér öll bönd. Og lengi vel vissi ég ekkert hvað ég átti að gera og hékk bara á herðablöðum allra í kringum mig, þ.e. þeirra sem ég þorði að umgangast.

Nema hvað, fyrir 15 árum vann ég á skrifstofu. Ég var í allskonar skjölum og skráningum eins og maður gerir á skrifstofu og fann dálítið til þess að í fyrsta skipti á minni starfsævi var ég að nota höfuðið meira en hendurnar. En ég var samt ekki alveg ánægð, mig langaði í meira. Ég vissi bara ekki hvað. Helstu fyrirmyndirnar mínar voru lögfræðingarnir sem ég vann með en mig langaði samt ekki til að fara í þeirra spor. Ég hefði alveg getað það en þá hefði ég ekki verið ég. Og hver var ég svosem?

Ég keypti mér íbúð á þessum tíma. Mína fyrstu, og fannst ég hafa náð stórum áfanga. En það vantaði eitthvað. Lífið átti að vera eitthvað meira en vinna á daginn og sjónvarpsgláp á kvöldin. 

Svo að ég lét gamlan draum rætast árið 2002, leigði út íbúðina og skellti mér til Siena í ítölskunám eitt sumar. Gamli draumurinn minn um að læra listfræði var dreginn fram og hvers vegna ekki á Ítalíu innan um allar hetjurnar mínar? Nema hvað, ég reisti mér hurðarás um öxl. Ég komst að því, mér til mikillar furðu, að ég gat alls ekki lært ítölsku. Ég gleymdi öllu jafnóðum sem mér var kennt, sama hvað ég las og las. Ég var bara svona kvíðin.

Þannig að ég kom heim um haustið, þvert á allt sem ég hafði ætlað mér, og til að tapa ekki minni litlu ítölsku skráði ég mig í ítölskunám í Háskóla Íslands. Ég hélt að ég myndi rúlla því upp en það fór alveg á sömu leið. Á þessum tíma seldi ég íbúðina, korteri áður en hún rauk upp í verði, og nagaði mig í handarbökin í langan tíma á eftir. En svona er bara lífið. Og eftir á að hyggja var þetta rétt ákvörðun.

Á þessum fyrsta vetri mínum í HÍ tók ég kúrs sem breytti lífi mínu. Ég var að klepra á ítölskunni og tók því fegins hendi að setja upp sýningu í Árbæjarsafni. Ég sem tilvonandi listfræðingur þurfti að sjálfsögðu að kunna að setja upp sýningu. 

Nema hvað, í þessum kúrs gerðist eitthvað. Ég naut mín í tætlur og fannst ég virkilega vera á heimavelli. Og árið eftir skráðí ég mig í sagnfræði. Þannig að í dag er ég sagnfræðingur með listfræði sem aukagrein. Þessi sýningarkúrs var hugmynd Eggerts Þórs Bernharðssonar, þarna var hagnýta menningarmiðlunin algerlega á frumstigi. Þremur árum síðar var hún formlega stofnuð og hefur síðan mokað út ótal snillingum með meistaragráðu. Ég lenti semsagt mér óvitandi í meistarakúrsi á mínum fyrsta vetri í háskóla. Það var mikil heppni.

Ég kláraði alla kúrsa árið 2006 en svo fóru talsvert mörg ár í að horfa á BA-ritgerðina og bíða eftir því að hún skrifaði sig sjálf, þess vegna útskrifaðist ég ekki fyrr en 2014. Þá fyrst öðlaðist ég rétt til að skrá mig í hagnýta menningarmiðlun og núna loksins veit ég hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór.

Ég er á eftir á leiðinni upp í skóla þar sem ég fæ skyndikennslustund í meðferð tökuvélar og þrífótar, á morgun ætla ég að taka viðtal við skólabróður minn úr Árbæjarsýningunni forðum þar sem við ætlum að freista þess að ramma inn hugverk Eggerts. Ég veit nákvæmlega hvað ég vil fá fram og hvernig ég á að fara að því, vantar bara að kunna á tökuvélina. Svo fer ég eftir það að vinna í stuttri heimildamynd um ömmu mína þar sem ég tek fyrir dugnaðinn hennar og hörkuna, ég er komin með slatta af ljósmyndum en vantar fleiri og svo hef ég frétt af viðtali við hana sem ég vonast til að geta nýtt mér. Í næstu viku koma páskarnir og þá verð ég á Ísafirði og mun nota tækifærið til að vinna að strandlínuverkefni sem vonandi kemst í framkvæmd fyrr en síðar.

Og já, næsta sunnudagskvöld verður fluttur útvarpsþátturinn minn um Hinsegin kórinn, það er annar útvarpsþátturinn sem ég geri og gæti alveg hugsað mér að gera fleiri, ég kann það allavega núna. Ég fór í gegnum miklar pælingar þegar ég tók viðtölin við kórfélaga mína, já ég er félagi í Hinsegin kórnum. Og ég er nýbúin að átta mig á því að ég þarf ekki að útskýra af hverju ég er í þeim félagsskap. Ha neinei, ég er sko ekki lesbía! Ég bara syng með þeim! Það má nefnilega skilja það þannig að ég sé ekki ein af þeim, sem kemur frekar hallærislega út. Þannig að núna hef ég vanið mig af því. 

Ég er núna á eftir á leiðinni út í banka til að senda 1500 dollara til Kína og stefni staðfastlega á að skapa mér atvinnu með því sem ég fæ þaðan. Allt útreiknað og báðir fætur á jörðinni. Ég er búin að sækja um vinnu í sumar en veit ekki hvort ég fæ hana. Og mér er alveg hjartanlega sama. Ég er bara alveg hætt að vera hrædd við framtíðina, hún kemur. 

Ég er búin að sleppa öryggisnetinu og það er æði. Of mikið öryggi getur nefnilega verið kyrkingartak. Ég er nefnilega komin með mitt eigið sem er sniðið að mér sjálfri. Og byggist algerlega á því sem ég get og kann og veit. Það er alvöru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband