Þessi blessuð systkini mín - ef systkini skyldi kalla

Þessi vesalings blessuð systkini mín, það er ekki flóafriður fyrir þeim. Þarna er ég, löngu búin að blokka þau á facebook, og lifi bara mínu lífi. Geri mitt besta til að vera almennileg manneskja og koma vel fram við alla. Það er fyrir það fyrsta afskaplega kvíðastillandi en líka andlega nærandi. Ég bý líka í þannig samfélagi að ég fæ það allt margfalt til baka. Ekkert rugl.

 

En þá skoppar upp spjallþráður. Systkini mín að ræða saman í eitt skiptið enn. Því miður var ég ekki búin að skrá mig út af þessum spjallþræði, það er ekki hægt að muna allt. Þannig að eitrið náði til mín í þetta skiptið.

 

Umræðuefnið var fjármálin hennar mömmu. Drífa systir var með upplýsingar um að mamma væri búin að lána allt sem hún á og ætti ekki fyrir jarðarförinni sinni. Og að ég væri ein af þeim sem skulduðu henni peninga. Og við ættum að sjá sóma okkar í því að borga henni til baka. Drífa er jafnvel búin að koma því svo fyrir að mamma getur ekki lengur millifært án þess að fá samþykki frá Drífu.

 

Þetta hljómar eins og að ég sé búin að vera að svíkja háar fjárhæðir út úr mömmu, sem er ekki rétt. Staðreyndin er hinsvegar sú að mamma hefur nokkrum sinnum stutt mig. Án hennar hefði Barnabólið sennilega ekki komist á legg og fyrir það er ég henni þakklát. Ég þarf ekki á stuðningi mömmu að halda í dag, þökk sé lágri leigu í sveitinni sem gerir mér kleift að lifa á örorkubótunum og reka bíl, en Barnabólið er samt ekki enn farið að skila mér tekjum. Kannski á það aldrei eftir að gera það en aldrei skal segja aldrei, þetta tekur einfaldlega tíma. Kannski verð ég orðin rík eftir nokkur ár.

 

Nú eru breytingar framundan og ég veit ekki hve lengi ég get búið hér, skólinn er sennilega að hætta í vor og staðurinn verður kannski seldur. Ég gæti þurft að borga mun hærri leigu annars staðar, ég veit ekkert hvernig þetta fer. En í versta falli, ef ég þarf að setja allar örorkubæturnar mínar upp í húsaleigu og næ ekki að borga mömmu, þá dregst þetta bara frá mínum arfshluta eftir að hún fellur frá. Eins og það sem barnabörnin hafa fengið hjá henni.

 

Ég sá þennan spjallþráð í gær og varð alveg fjúkandi reið. Ég er búin að reyna að tala við þetta fólk í áratugi en það hefur ekki skilað neinum árangri. Það særir mig virkilega að sjá þegar þau reyna að finna allt sem þau geta til að koma höggi á mig, og núna er ég orðin fjárglæframaður og fjársvikari.

 

Kommentin frá systkinum mínum voru mjög athyglisverð. Anna Gunna elsta systir mín í Danmörku lýsti hneykslun sinni á meðferðinni á þessari góðu konu og einhver annar þakkaði Drífu fyrir framtakið, fyrir þessa björgun. Þetta fólk er hinsvegar aldrei í neinu sambandi við mömmu. Systkini mín á Selfossi heimsækja hana aldrei, hvorki Drífa, Frikki né Berglind fara til hennar nema þegar þau vantar pössun fyrir börn eða hunda. Þetta veit ég vegna þess að ég hringi oft í hana og þá spyr ég alltaf frétta. Ég á ekki peninga en ég á gott hjartalag og fylgist með því hvernig henni líður. Ég útvegaði henni hund þegar Muggur var orðinn fárveikur af elli, það leið ekki vika frá því að París kom á heimilið þegar mamma samþykkti að leyfa Muggi að sofna, ég vissi bara að hún gat ekki verið án hunds og þurfti að fá fullorðinn hund sem var búinn að taka út öll hvolpalæti. Og hver sá um áttræðisafmælið í hennar í fyrra, nema ég. Ég eldaði súpuna og ég keypti allt áfengið. Systkini mín mættu rétt á undan gestunum og sátu allan tímann inni í herbergi og blönduðu ekki geði við neinn.

 

Við mamma eigum gríðarlega fallegt samband. Það gerbreyttist eftir að ég gerði myndina um hana í heimildamyndakúrsi fyrir nokkrum árum, þá hreinlega féllu allar varnirnar og ég fékk innsýn í hennar líf, kynntist vinum hennar og fékk að sjá hvernig annað fólk upplifir hana. Ég held að mamma hafi alltaf verið mjög illa haldin af sektarkennd vegna þess hvernig allt var þegar við systkinin vorum lítil, pabbi drakk alltof mikið og illa en það mátti ekki tala um það. Og mamma hafði engin verkfæri. En eftir þessa mynd þá höfum við tengst sterkum böndum, ég eignaðist mömmu mína 53 ára gömul. Og skammast mín ekkert fyrir að hafa þegið af henni stuðning þegar ég þurfti mest á honum að halda.

 

Ég þarf á mínum andlegu kröftum að halda, núna þegar ég er á kafi í lokaritgerðinni. Það að skrifa ritgerð hefur oft valdið mér gríðarlegum kvíða, óttinn við viðbrögð annarra hefur hreinlega lamað alla mína hugsun, þegar ég þarf að túlka einstaka fræðimenn og hafa skoðanir. En það merkilega er að í þessari ritgerð hef ég ekki fundið fyrir eins miklum kvíða og oft áður. Ástæðan er sú að systkini mín ná ekki til mín og geta því ekki gert lítið úr mér. Ég er komin með svo sterkt tengslanet af fólki sem sér mig eins og ég er, ég þarf ekki að verja mig lengur því að það er enginn að ráðast á mig. Þvert á móti fæ ég stuðning frá fólki, hlýjar kveðjur og klapp á bakið.

 

En svo skoppar þessi spjallþráður upp. Ég var ekki fyrr búin að skrá mig út af honum en ég dauðsá eftir því. Ég átti auðvitað að tjá mína meiningu og skrá mig síðan út, þarna inni voru t.d. systurdætur mínar sem halda kannski núna að ég sé algjör fjársvikari. En ég hef svo oft reynt að leiðrétta eitthvað svona og verja mig og það hefur aldrei skilað neinum árangri. Þá mundi ég eftir blogginu.

 

Þetta er mitt svæði og ég skrifa það sem mér sýnist. Ég er búin að fá yfir mig nóg af þessu rugli og skinhelgi, ég er líka ekki hvað síst búin að fá yfir mig nóg af því að reyna í áratugi að vera góð systir og frænka án árangurs. Án þess að fá að vita hver glæpur minn er. Ég gæti giskað á, miðað við allar þær heimildir sem ég hef lesið um svona hluti, að þetta sé einhver angi af afbrýðisemi. Að ég standi þeim svona miklu framar. En ég ætla ekki að halda því fram. Það er samt áhugavert að velta fyrir sér af hverju ég hef ekki fengið að vera frænka barnanna þeirra.

 

Ritgerðin mín fjallar um að tilheyra, kveikjan að henni var þegar ég var unglingur á Hlemminum og fékk í fyrsta skipti að upplifa það að fá að tilheyra innan um róna og pönkara, hversu gríðarlega sterkt það var. Ég tilheyrði aldrei fjölskyldu minni og það er á vissan hátt skiljanlegt að systkini mín vilji ekki tengjast mér, það er erfitt að snúa við einhverju sem byrjaði að þróast þegar ég var þriggja ára.

 

Ég var þriggja ára þegar ég byrjaði að flýja út af heimilinu vegna þess að stóra systir mín beitti mig ofbeldi, hún dró mig um á hárinu og sleit utan af mér föt svo að ég var oft lömuð af skelfingu. Pabbi sagði einhvern tímann að honum þætti ágætt að hún léti mig hlýða, það gerði það þá einhver. Systir mín fór snemma að sinna heimilisstörfum og passa yngri krakkana og fann sig vel í því þar sem það gaf henni mikil völd, en vegna þess hvað hún gekk harkalega í skrokk á mér þá gat ég ekki hugsað mér að hjálpa henni að þrífa og stakk af. Smám saman þróaðist það þannig að ég var einhvers staðar inni á öðrum heimilum en hún var heima með litlu krakkana, þannig urðu tengsl þeirra mjög sterk en ég lenti alveg fyrir utan. Við vorum svo lítil, það hefði einhver fullorðinn þurft að taka ábyrgð á okkur. Og koma í veg fyrir þetta líkamlega ofbeldi.

 

Ég man eftir mér fimm ára heima hjá móðurbróður mínum sem bjó rétt hjá Selfosskirkju, við áttum heima rétt hjá Mjólkurbúinu þannig að þarna var ég farin að fara langar vegalengdir, fimm ára gömul. Ég klemmdi mig á þumalputta á stofuhurðinni hjá honum og það var hræðilega sárt. Hann tók mig í fangið og hélt á mér þangað til verkurinn var farinn. Þá hélt ég áfram að kreista upp væl til að fá að vera áfram í fanginu á honum, það var svo gott og ég þekkti það ekki að heiman. Ég átti yngri systkini og þarna var strax búið að prenta inn í mig að mamma hefði nóg að gera með að sinna þeim, ég ætti ekki að láta hafa fyrir mér. Og alls ekki vera í fangi.

 

Þannig að ég tilheyrði aldrei systkinum mínum þar sem ég var alltaf á flótta undan barsmíðum og samtímis lömuð af skömm. Skömmin gerði það að verkum að ég varði mig aldrei og lamdi hana aldrei til baka, mér fannst ég ekki mega það því að ég var svo vond. Sem gerði mig mjög útsetta fyrir einelti í skólanum en krakkarnir þar gátu ekki vitað að eineltið var langverst heima hjá mér þar sem ég hefði átt að eiga skjól. Ég var alltaf að leita eftir skjóli inni á annarra heimilum en þar lærði ég líka að ég átti engan rétt til neins. Önnur börn áttu leikföngin og það voru þau sem réðu því hvaða dót ég mátti hafa. Og svo þurfti ég alltaf að fara heim á endanum. Ég hef nokkrum sinnum prófað að tala um eineltið við systkini mín en þau eru á einu máli um að ég hafi kallað það yfir mig sjálf og þetta hafi ekki verið svo alvarlegt. Líka þau sem fæddust mörgum árum á eftir mér! Og þegiðu svo og hættu þessu væli.

 

Ég var komin yfir þrítugt þegar ég kynntist Al-Anon og var ekki lengi að segja systkinum mínum frá þeirri uppgötvun. En mér til mikillar furðu höfðu þau engan áhuga. Það var bara ég sem var að leita að rótum, þau voru alveg sátt með sínar rætur, enda höfðu þau alltaf tilheyrt hvert öðru. Eftir fertugsafmælið mitt, þegar frænka mín breytti veislunni í brúðkaup fyrir sjálfa sig án þess að láta mig vita og systkini mín neituðu að standa með mér, þá kom Vallý systir með þá snilldarskýringu að ég væri greinilega einhverf fyrst að ég gæti ekki tekið vonbrigðum. Það hjálpaði þeim að komast yfir það hvað þau skemmtu sér vel í veislunni, þetta var bara mitt vandamál. Það tók mig mörg ár að vinna úr þessu og fyrirgefa sjálfri mér að hafa látið vaða svona yfir mig, auðvitað hlaut þetta að hafa verið mitt vandamál að vera svona mikill vesalingur, að hafa verið svona dofin þetta kvöld.

 

Og þegar bróðir minn braut kynferðislega gegn fötluðu barni sem var í hans umsjá, þá tók steininn úr. Þessi bróðir minn hefur setið fyrir mér og ausið yfir mig viðbjóði, hann hefur gengið einna lengst af öllum í því að telja mér trú um að fólk almennt hrylli við mér um leið og það kemst að því hvernig manneskja ég er. Það sem hann gerði hefur aldrei verið rætt innan fjölskyldunnar, þau kaupa skýringuna hans að hann hafi verið tældur, að þessi unga stelpa með framheilaskaða beri alla ábyrgðina. Hann er velkominn heima hjá öllum okkar systkinum en ég er það ekki. Það er víst svo þungt andrúmsloft þar sem ég er, ég er of niðurdrepandi. Hann er hinsvegar mikill brandarakarl og hefur erft orðheppnina hans pabba. Hann er ótrúlega sérstakur karakter, þessi bróðir minn. Við bjuggum bæði hjá mömmu um jólin 2015 (já, bæði komin yfir fimmtugt!) þegar ég fótbrotnaði í hálku þegar ég var á leiðinni í Selfossrútuna í Mjóddinni. Ég varð að biðja hann um að sækja mig niður á N1 því að ég gat ekki gengið heim og hann gerði það, studdi mig upp að húsinu og allt. En um leið og við komum upp á tröppurnar og það var einn metri eftir að húsinu, þá sleppti hann og rauk inn, búinn að gera sitt og þetta kom honum ekki lengur við.

 

Ég reyndi áratugum saman að byggja upp góð samskipti við systkini mín. Ég gaf börnunum þeirra góðar afmælisgjafir, reyndi það allavega, og einu sinni lét ég senda einni sex ára marglitan fresíuvönd, það var víst mikil upplifun þegar blómasendillinn kom og spurði eftir henni. Ég var vestur á fjörðum þá og komst ekki í veisluna, en vildi gleðja hana.

 

Systkini mín fóru saman í gegnum tímabil barneigna og þar sem ég var alltaf einhleyp eignaðist ég ekki börn. Vallý sagði reyndar einhvern tímann að ég hefði alveg getað druslast til að eignast mín eigin! Vallý, Anna Gunna og Ingunn þáverandi mágkona fóru saman í gegnum þetta tímabil og ég öfundaði þær innilega af því að eiga þetta saman, mig langaði svo til að geta tekið þátt. En þá hefði ég þurft að geta átt í nánum samböndum og það gat ég alls ekki, andskotans kvíðinn. Svo að ég reyndi í staðinn bara að vera góð frænka, að svo miklu leyti sem mér var leyft það. Ég veit ekki hversu margar fokkans barnapeysur ég hef prjónað en varla séð börnin í þeim, hvað þá fengið sendar myndir.

 

Núna eru systkinabörnin flest orðin fullorðin og eins og vænta má eru tengslin við þau afskaplega léleg, það er ekki hægt að byggja upp eðlileg samskipti þegar foreldrarnir eru beinlínis á móti því og hjálpa ekkert til.

 

Þannig að nú er tíminn kominn, það er komið nóg af þessu rugli. Ég hef eytt alltof mörgum árum í að reyna að sanna að ég sé ekki það sem systkini mín segja að ég sé, sem hefur valdið mér viðvarandi óöryggi með sjálfa mig. Nú er ég hætt því og það hefur strax áhrif með því að minnka kvíðann og vöðvabólguna. Ég á mér líf sem gefur mér gríðarlega mikið, ég á fyrirtæki sem er byggt á minni sköpun og ég er í nánum tengslum við margt fólk á svæðinu. Ég er alltaf að skapa eitthvað og vinahópurinn minn er alltaf að stækka. Ég hef öðlast sjálfsmynd sem listamaður, ég er farin að vera stolt af mér. Ég hef verið í stjórn Leikdeildarinnar frá 2020 og nú í kvöld var ég á aðalfundi Kvenfélagasambands Snæfellsness- og Hnappadalssýslu þar sem ég bauð mig fram og var kosin í varastjórn. Og það hvarflar ekki að mér að þær hrylli við mér. Allur sá viðbjóður er á bak og burt, enda ekkert annað en gaslýsing í sinni tærustu mynd.

 

Systkini mín hefðu getað óskað mér til hamingju með sextugsafmælið þegar við hittumst hjá mömmu á annan í páskum, jafnvel gefið mér eitthvað fallegt. En það hefði verið úr karakter. Ég er búin að fá endanlega nóg af því að vera í boðum með þessu fólki þar sem enginn yrðir á mig og þar sem ég get ekki talað um það sem mér liggur á hjarta, ritgerðina sem ég er að smíða, útvarpsþættina, Barnabólið, allt sem kemur úr mínu höfði er eitthvað afbrigðilegt og þau hafa ekki áhuga á því. Það er spaugilegt að þónokkrir ættingjar mínir hafa þegið vöggusett frá mér í sængurgjafir, með vögguvísum sem ég hef látið myndskreyta og sjálf sett litina við. Ég veit ekki annað en að þau hafi verið metin að verðleikum þó að þau séu sköpun mín.

 

Eina manneskjan sem sýndi mér kærleik var Fannar Leví, 12 ára þroskahamlaður sonur Drífu, ég var líka sú eina sem talaði við hann. Það er eitt ár síðan ég komst að því að hann er snillingur á hljómborð, hann býr til hljóma með báðum höndum eins og atvinnumaður en hefur samt aldrei fengið neina tilsögn, þetta er allt bara innra með honum. Ég fékk Janus bróður hans til að hjálpa mér að kaupa handa honum hljómborð og gefa honum í 12 ára afmælisgjöf, þ.e. ég lagði til megnið af peningunum og Janus sá um innkaupin, enda get ég ekki komið inn á heimilið, og samkvæmt Janusi er hann búinn að njóta þess mikið. Þetta var helvíti flott hljómborð með yfir 60 lyklum og foreldrar Fannars hefðu alveg getað látið sér detta í hug að þakka mér fyrir. Ég efast um að þau séu búin að skrá hann í tónlistarskóla, þau höfðu engan áhuga á hugmyndinni þegar ég spurði þau fyrir ári. Enda frá mér komin.

 

Ég mun sakna Fannars, ég get ekki ímyndað mér hvenær ég sé hann næst. Því að ég get ekki lengur hugsað mér þessi fjölskylduboð. Ég vil miklu heldur hitta mömmu á öðrum tímum. Ég ætla að gefa henni góðan útskriftardag þegar ég klára meistarann. Hún kom mér mikið á óvart þegar hún birtist í Laugardalshöll þegar ég fékk BA-gráðuna og við munum pottþétt fá okkur góðan dinner einhvers staðar í góðum félagsskap. Það verður geggjaður dagur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Margur verđur ađ aurum api segir einhvers stađar. Leitt ađ heyra hvernig komiđ er fram viđ þig, en haltu áfram á þeirri braut sem þú ert á ađ vaxa og dafna, umvafin því fólki sem kann ađ meta þig. Þú færđ klapp á bakiđ frá mér í öllu sem þú hefur veriđ ađ gera, Áfram þú 💪👏

Fanney Grétarsdóttir (IP-tala skráð) 18.4.2023 kl. 04:11

2 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Takk elsku Fanney. Barnabarnið þitt mun vera góður vinur Fannars :)

Margrét Birna Auðunsdóttir, 18.4.2023 kl. 04:36

3 Smámynd: Loncexter

Það er ekkert nýtt að gott fólk uppsker sjaldnast eins og það sáir. (Jesú er gott dæmi)

Vel skrifað Margrét !

Loncexter, 18.4.2023 kl. 14:04

4 identicon

Móðir þín hefur fullt leyfi til þess að ráðstafa sínum fjármunum, lána eða gefa þá að vild. Um leið og ég vildi óska að samskiptin væru eðlilegri við þig af hálfu fjölskyldunnar þá er það rétt mat að á einhverjum tímapunkti er komoið nóg. Þú ert aleg að gera flotta hluti og átt þér fallegt líf. Það kemur engum við hvað þið mamma ykkar brallið og ég veit að þú fórst amk oft til hennar á meðan við vorum nágrannar! Það var svo falleg leit og fundur þegar París kom inn í líf ykkar.

Ingveldur Eiríksdóttir (IP-tala skráð) 18.4.2023 kl. 16:03

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Kærleikskveðjur!

Helga Kristjánsdóttir, 19.4.2023 kl. 15:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband