Sæl frænka

Sæl frænka Ég er enn að melta þetta samtal okkar síðasta mánudagskvöld og verð að segia að ég er verulega slegin. Það veldur mér vonbrigðum hvað þú ert neikvæð gagnvart frekari barnabarnamótum því að ég hef litið svo á að þetta væri tækifæri fyrir okkur til að koma saman á jákvæðum nótum, ekki veitir okkur af.

 

Þú nefndir að ég talaði ekki við systkini mín, eins og ég hafi bara tekið upp á því upp úr þurru. Þú veist nú betur en það. Systkini mín eru jafn velkomin heim til mín og aðrir en ef þú hefur lesið bloggið mitt þá veistu að hlutirnir hafa ekki gengið snurðulaust í gegnum tíðina. www.bidda.blog.is

 

Og talandi um bloggið. Ég var búin að reyna árum og áratugum saman að ræða við þetta fólk án árangurs. Ég tel mig ekki vera að tala illa um neinn. En ég segi mínar skoðanir sem eru ályktanir dregnar af því sem ég sé og heyri. Semsagt eingöngu mín upplifun, svo mega aðrir hafa sínar skoðanir. En það er langur vegur frá því að tala illa um fólk. Það verður þá allavega að færa rök fyrir því og koma með dæmi, þá getum við tekið spjallið þaðan.

 

Þetta var lærdómsríkt samtal sem við áttum því að það minnti mig á það viðmót sem ég hef gjarnan fengið hjá ættinni í gegnum tíðina. Ég var næstum búin að gleyma því og þetta samtal við þig hreinlega grætti mig því að ég var farin að trúa því að ég ætti betra skilið en þennan kulda og yfirlæti.

 

Þú sem hefur þekkt mig alla mína ævi, þú veist að ég varð fyrir miklu ofbeldi sem barn. Eineltið var slæmt í skólanum en ekkert á við það sem viðgekkst heima hjá mér þar sem elsta systir mín bæði gekk í skrokk á mér og beitti mig miklu andlegu ofbeldi og hrakti mig jafnvel að heiman svo að ég hafði engan stað í tilverunni. Hún var minn mesti gerandi og hafði til þess fullan stuðning frá pabba okkar sem var aumingi en samt svo ógnandi. Þessi systir mín er ennþá sami gerandinn þrátt fyrir að vera komin yfir sextugt.

 

Ég trúði því að ástandið myndi lagast þegar ég yrði fullorðin og sérstaklega þegar ég kynntist Al-Anon þegar ég var komin yfir þrítugt, það setti hlutina virkilega í samhengi því að þá skildi ég að ég hafði alist upp við alkóhólisma og einelti. Fram að því hafði ég trúað því að það væri eitthvað mikið að mér en þarna gat ég farið að nýta mér 12 sporin til að vaxa og þroskast og því hef ég haldið áfram síðan.

 

En þetta var ekki nóg fyrir systkini mín sem hafa viljað hanga á því að það sé eitthvað að mér. Þeim líður víst eitthvað betur með það en það er ekki hjálplegt. Á þeim forsendum hafa þau réttlætt hluti eins og þegar fertugsafmælinu mínu var stolið, sem hafði virkilega eyðileggjandi áhrif á öll okkar samskipti. Ég vildi bara fá afsökunarbeiðni, það hefði klárað málið strax. Það segir stóra sögu að það var ekki gert.

 

Veistu hvernig mér leið á þessum tíma? Það tók mig hátt í áratug að vinna mig út úr þessu áfalli, að læra að ég kallaði þetta ekki yfir mig og það mátti einfaldlega ekki koma svona fram við mig. Frænka okkar var eitt, en það voru systkini mín sem hömruðu sífellt á því að ég ætti ekki að vera svona viðkvæm, það væri greinilega eitthvað að mér fyrst ég tæki þessu svona illa. Ekki í fyrsta sinn, ég var búin að velta því fyrir mér frá fæðingu hvað væri eiginlega að mér, af hverju fólk kæmi svona fram við mig. Að systkini mín tóku afstöðu með gerandanum tók alveg steininn úr og særði mig meir en allt annað. Kannski hefði einhver sterkari en ég ekki tekið þetta svona nærri sér en ég var bara því miður brotin fyrir.

 

Þér finnst ekki merkilegt þetta líf sem ég lifi hér á Vesturlandinu. En það er nú samt svo að hér er ég í fyrsta skipti alveg laus við einelti, að undanteknu þessu tímabili á Hlemmi sem útvarpsþátturinn minn https://www.ruv.is/utvarp/spila/a-hlemmi-tilheyrdi-eg/35725/akmcuh fjallar um, þar sem ég mætti svo miklum kærleik á svo óvæntum stað.

 

Hér á Vesturlandi er ég orðin hluti af samfélagi þar sem ég er jafningi hvers sem er, þar sem ég leik á sviði, syng í tveimur kórum, rek félagsheimili og hef stofnað fyrirtæki um mína eigin hönnun. Og svo er ég í kvenfélaginu líka. Ég fæ oft að heyra að ég sé hlý og gefandi, kærleiksrík og umhyggjusöm og umfram allt skemmtileg manneskja sem fólk nýtur þess að umgangast, ég jafnvel trúi því stundum sjálf. Ég er meira að segja búin að vera í viðtali í Skessuhorni, ég þyki það áhugaverð. En mikið óskaplega tekur það mig sárt að fá ekki að vera hluti af minni eigin fjölskyldu, mér líður oft eins og ég sé ein á berangri.

 

Mig grunar að þér finnist að þér komi þetta ekki við. En það hindrar þig ekki í að fella sleggjudóma. Þú ættir kannski að velta því fyrir þér hvernig þú fórst að því að komast á sjötugsaldur án þess að þurfa nokkurn tímann að velta því fyrir þér hvernig öðru fólki líður. Hversu lokaður er heimurinn þinn? Þú ert búin að vera vitni að öllu þessu ógeði í gegnum árin án þess að taka nokkurn tímann afstöðu, og það að taka ekki afstöðu er einmitt að taka afstöðu, með gerandanum.

 

Þú veist þá allavega núna að systir mín tók það upp hjá sjálfri sér að tilkynna mér að ég væri rekin úr saumaklúbbi ættarinnar, hún laug því að þið hefðuð ákveðið þetta í sameiningu. Svo að þú getur sleppt því að móðgast við mig vegna þess. Þetta særði mig á sínum tíma en hefur með tímanum orðið að brandara, því að hvernig er hægt að hlæja ekki að þessu?

 

Ef þú hefur lesið meistararitgerðina mína í Skemmunni, http://hdl.handle.net/1946/44210, þá veistu hvernig ég hef alla tíð barist við að reyna að finna mér stað og fá að tilheyra. Og þá veistu líka hvaða áhrif það hefur að vera svikin um það. Skjólið sem ég hef í dag hefur veitt mér tækifæri til að skoða þetta af raunsæi. Og það var ekki ég sem átti hugmyndina að því að gera þetta að meistaraverkefni, ekki heldur að hafa sjálfa mig sem miðpunkt. En mikið sem ég er þakklát fyrir það.

 

Við komum úr fjölskyldu sem er markeruð af ofbeldi. Afi okkar var barnaníðingur og allir hans afkomendur eru merktir af því, bæði þau sem urðu fyrir honum beint og þau sem urðu óbeint fyrir áhrifum af gerðum hans. Ég þarf ekki að fara nánar út í það, þú veist hvað ég er að tala um.

 

Fjölskyldur eins og okkar þekkjast á dómhörku og reiði ásamt algerri blindu á eigin tilfinningar. Það þýðir að við förum á mis við ákveðinn húmor og hlýju, við getum ekki gert grín að okkur sjálfum en hlæjum því meira á kostnað náungans. Það er of mikið búið að hlæja á minn kostnað í gegnum tíðina svo að sá húmor hentar mér ekki, ég vissi það meira að segja þegar ég var 17 ára á Hlemmi því að ég skynjaði grimmdina í því.

 

Fólk af okkar sauðahúsi finnur sér stað í tilverunni þar sem það getur drottnað yfir öðrum og spilað sig merkilegra en annað fólk, enda ófært um jafningjasamskipti. Ég hef grun um að þú eigir ekki auðvelt með jafningjasamskipti en það er bara mín tilfinning, dregin af þeirri staðreynd að við höfum aldrei verið jafningjar.

 

Þegar einhver eins og ég stígur fram verður yfirleitt allt vitlaust því að það neyðir ykkur öll til að hugsa málin upp á nýtt. Þið þurfið hreinlega að skoða öll ykkar viðhorf og það er flestum mjög erfitt. Það er alltaf þægilegast að stinga höfðinu í sandinn og látast hvorki heyra né sjá. Og útmála mig sem einhvern aumingja sem er hægt að hreyta í.

 

En það má líka líta á það sem hreinsunareld, tækifæri til að losa sig við gamlan sársauka og lifa upp á nýtt. Því meir sem streist er á móti, því verra verður það. Á þeim 30 árum sem eru liðin síðan ég kynntist Al-Anon og byrjaði að rumska af andlegum dvala, því grimmari og ófyrirleitnari hafa systkini mín orðið, enda styðja þau hvert annað eins og trumpistar. Ég er ekki viss um að þau hefðu neitt til að tala um ef þau hefðu ekki mig, andstaðan við mig er límið sem heldur þeim saman.

 

En ég hélt að stórfjölskyldan væri skárri. En auðvitað komum við öll úr sama súpupottinum. Ég var víst bara í einhverjum draumaheimi þegar ég hélt að ég gæti boðið ykkur heim í kaffi og kleinur, gítar og grill. Og allir væru glaðir.

 

Ég get þó allavega sagt að ég hafi reynt. Kannski er það rétt hjá þér að héðan af munum við eingöngu hittast í jarðarförum. Ég vona samt ekki.


Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Feb. 2024
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29    

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband