Bidda og boltinn

Einu sinni var ég algjör fótboltadýrkandi. Það var í kringum 10-12 ára aldurinn þegar Ásgeir Sigurvinsson fór með himinskautum og Jóhannes Eðvaldsson skoraði með hjólhestaspyrnunni frægu á móti Austur-Þjóðverjum. Áhuginn var einlægur og þetta var skemmtilegt. Ég fylgdist vel með deildakeppninni í fótbolta og hér á Selfossi áttum við meira að segja leikmann sem fyllti okkur miklu stolti, hann spilaði reyndar með Fram en ég man vel eftir því hvað það fyllti okkur Selfosskrakkana miklu stolti þegar sagt var frá mörkunum hans í íþróttafréttunum.

Svo liðu nokkuð mörg ár og það var eitthvað minna um stóra sigra. Aðdáunin breyttist í meðvirkni og sú meðvirkni varð því meiri sem árangurinn varð minni. Samt var ekkert að frétta af körlunum en á sama tíma blómstraði kvennalandsliðið, þær eru búnar að taka þátt í nokkrum stórmótum. Dýrkunin færðist samt ekki yfir á þær, einhverra hluta vegna. Kannski snerist þetta aldrei um fótbolta, það er sennilega rannsóknarefni fyrir félagsfræðinga að skoða samspil íþróttaárangurs og meðvirkni en það er mín tilfinning að það snúist afskaplega lítið um íþróttina.

Þess vegna er ég svo glöð núna, ég hef fundið aftur þessa gleði sem fótboltinn færði mér einu sinni. Og ég mun öskra hæst af öllum ef okkar menn vinna Englendinga í kvöld og komast í 8 liða úrslit.


Frá 16-06-80 til 06-06-16

Hvernig á ég að orða þetta? Ég er ekki stærsti aðdáandi Bubba Morthens en ég get ekki horft framhjá því hvernig hann breytti lífi mínu varanlega þegar ég var 17 ára.

Ég var vinnukona norður í Steingrímsfirði þar sem aðalstarf mitt var að fylgja 84 ára gamalli konu sem bjó með tveimur ógiftum sonum sínum, báðum um sextugt. Þetta sumar lærði ég að strokka smjör og búa til skyr, sjóða mysing og ýmislegt fleira. Og grotnaði niður úr leiðindum. Þetta var ekki skemmtilegt fólk, þarna var mikið um sjálfhælni og baknag sem ég veit núna að er einkenni á óhamingjusömu fólki. Það getur enginn gefið það sem hann ekki á og þetta fólk hafði ekkert að gefa mér. 

Ég gat ekki hangið í símanum, þarna var sveitasími sem þýddi að öll sveitin gat hlustað á samtölin, ég gat hreinlega ekki tjáð mig við neinn. Það skemmtilega við símamálin var að þegar ég eignaðist bróður þetta sumar fékk ég skeyti frá pabba, skeyti sem ég varðveitti vel og gaf svo bróður mínum fyrir nokkrum árum. Ég man textann í því held ég orðrétt: Drengur fæddur 16.06, 15 merkur og 56 cm, öllum líður vel, pabbi. Boltinn sem hann Frikki hefur verið, þetta er ekkert smá ungbarn. Og þessar upplýsingar hafa varðveist vegna þess að símstöðin var lokuð.

En þessi sautján ára ég hafði enga hugsun á því að berja í borðið, ég gat ekki farið heim með lafandi skottið og ég vissi ekki um neina vinnu sem ég gæti hoppað inn í. Svo tók það enda og í ágúst kom ég heim. 

Og hvílík heimkoma! Og þá kem ég að kjarna málsins. Það var þessi Bubbi, hann var bókstaflega á allra vörum. Tónlistin hans reif fólk í tætlur og fólk hafði mjög sterkar skoðanir. Hann var ýmist dýrkaður eða hataður, það var ekkert þarna á milli. Og þetta var maður sem ég hafði ekki heyrt nefndan þegar ég fór norður þetta vor. Hann henti út öllu þessu gamla og staðnaða og krakkarnir sungu Við munum öll, við munum öll, við munum öll DEYJA. Hann bjó til farveg fyrir okkur öll og eftir það var ég ekki sama stelpan. Veturinn eftir var mikil deigla í gangi þar sem ég vissi ekkert hvað ég vildi eða gæti en hékk á Hlemminum með krökkum sem voru í sömu stöðu og ég. Á Hlemminum kynntist ég því fyrst að vera jafningi annarra, það var enginn með uppnefni eða stæla og þarna var alveg einstakt andrúmsloft. Jón Gnarr lýsir því frábærlega í miðjubókinni sinni, hann var einn af þessum krökkum sem voru í sömu deiglunni og ég. Og öll litum við upp til Bubba.

Sumarið sem ég var 17 ára hafði ég verið að skilja mjólk og strokka smjör, þegar ég varð 18 ára var ég hangandi á Hlemminum í undarlegum félagsskap. Ég þurfti ekki að kunna á strokk, ég notaði bara hrærivél. Svo hnoðaði ég áfirnar burt undir rennandi vatni og mótaði stykki sem ég pakkaði inn í smjörpappír og þau sem ekki voru étin af heimilisfólkinu fóru í kaupfélagið á Hólmavík. Mér finnst svolítið fyndið að ég hef aldrei síðan haft tækifæri til að flagga hæfni minni í að fara með skilvindu. Af hverju er ekki skilvinda á hverju heimili? En svo kom Bubbi og allt breyttist.

Þetta á ég Bubba Morthens að þakka. Ég er ekki jafn hrifin af öllu sem hann hefur gert en þetta verður ekki frá honum tekið. Til hamingju með sextíu árin og takk fyrir deigluna sem þú bjóst til þegar ég var 17 ára.

 

 


Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Júní 2016
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband