Í draumaheimi

Nú er að verða liðið ár frá því að ég vann síðast ærlegt handtak. Ég flutti af þriðju síðla sumars og var á vergangi í nokkra mánuði meðan fyrsta hæðin var standsett, þá notaði ég tímann villt til að heimsækja hitt og þetta fólk og lagðist upp á móður mína tímunum saman. Síðan fór Leikdeildin í gang og þá hafði ég nóg að gera, svo kynntist ég líka fullt af nýju fólki. Sýningar voru ekki fyrr hafnar en þær voru blásnar af og þar með var ég jafn aðgerðalaus og fyrr.

Ég er ekki í neinni sóttkví en satt að segja þori ég varla í heimsóknir því að ég hef á tilfinningunni að ef fólk  er ekki á annað borð í sóttkví, þá er það í nánum samskiptum við einhvern sem umgengst gamalt fólk eða annað sem er í viðkvæmri stöðu. Svo að ég hangi mest heima, lita í litabækur, hekla og hlusta á Storytel. Ég fór með þægilega stólinn minn til mömmu þannig að núna get ég ekki kúrt í fósturstellingunni fyrir framan sjónvarpið, það var tilraun mín til að koma mér upp úr stólnum en sennilega var ég mánuði of snemma í því. Ég var að hugsa um hvort kirkjukórinn væri ekkert farinn að huga að páskamessusöng, ég er alveg komin þangað. En sennilega verður eitthvað lítið um slíkt.

Þannig að ég sef. Og sef og sef. Sef þar til ég rumska og sný mér svo á hina og sef lengur. Og draumaruglið, maður minn lifandi! Í nótt tók ég á móti barni þar sem öll eldri systkini þess barna sátu í kring eins og í skólastofu. Þetta tiltekna barn er ekki væntanlegt í heiminn næstu mánuðina en eitthvað hefur hugurinn verið að þvælast þar. Ég er líka búin að kenna sund, enda gríðarlega vel til þess fallin eins og hver maður veit. Og eiga rökræður við eina stutta sem veit allt betur en ég og því fer ekkert inn í kollinn á henni. Ég hef verið landvörður í Skaftafelli og farið út um allt með fólk. Draumarnir mínir eru alltaf fullir af fólki.

fólk

Fyrir nokkrum nóttum var ég á rúntinum með einhverjum, man ekki hverjum, og við keyrðum framhjá húsi í smíðum. Ég bara varð að fá að skoða þetta hús, þetta tveggja hæða steinhús með stillönsum og plasti í gluggum. Förunautur minn fékk ekkert að ráða því. Þegar ég kom inn um gluggann á efri hæðinni (mjög rökrétt, reyndar voru þarna há tré svo að sennilega hef ég klifrað, auk þess stóð húsið í brekku), þá kom í ljós að það bjó fólk í húsinu. Sem var auk þess alveg glerfínt að innan. Húsmóðirin sá ekkert athugavert við þessa heimsókn og sýndi mér húsið í krók og kring, bara eins og ég væri sjálf Vala Matt, og það var heilmikill sýningartúr. Þetta var stærðarinnar fjölskylda og öll börnin áttu sín herbergi sem voru útbúin hér og þar, undir stigapöllum og í útskotum, nóg pláss fyrir alla. Og þegar niður kom, við byrjuðum náttúrlega á efri hæðinni, blasti við risastórt eldhús með allskonar útbúnaði. Þarna voru ræktaðar kryddjurtir og allt eftir bókinni. Og þarna voru afi og amma (ekki mín, bara íbúanna, þarna var ég gestur) og mikill ys og þys. Þau voru í stofunni og voru að reyna að finna eitthvað í sjónvarpinu. Og þá tók ég eftir því að það var enginn venjulegur stigi í húsinu, heldur bara hallandi braut eða stígur sem fór í gegnum allt húsið og tengdi öll herbergin. Þetta fannst húsmóðurinni alveg afskaplega praktískt, svo auðvelt að þrífa og svona. Þá fór ég að hugsa um að ég gæti varla staðið í svona halla án þess að fá verki í fæturna og þá vissi ég að ég var að vakna.

tenor

Svona er lífið mitt þessa dagana. Ég hef fasta punkta tvisvar í viku þar sem er sjúkraþjálfunin, þess á milli sef ég. Og bíð eftir vorinu svo að ég geti farið að fara í gönguferðir og sund og allt þetta sem ég er alltaf að lofa hreyfistjóranum en stend aldrei við. Ég er búin að komast að því að ég hata allt sem reynir á líkamann, það eru afleiðingar þess að hafa alla ævi haft sjúkdóm í líkamanum sem hefur hindrað mig í að standa jafnfætis öðrum. Þetta var ein af ástæðunum fyrir eineltinu, klunninn sem gat ekkert var auðvelt skotmark. Og allt mitt  síðari tíma sprikl hafði aldrei neitt að segja, hvort sem það hét eróbikk eða eitthvað annað. Ég skildi bara ekkert í neinu. Þar til ég fékk greiningu á vefjagigt fyrir einu og hálfu ári, þá losnaði ég við að skammast mín fyrir orkuleysið og þyngslin, fyrir að standa mig ekki. Það er sagt að til að leysa vandamál verði maður fyrst að koma auga á þau, viðurkenna þau. Það er stundum kallað að lýsa inn í skúmaskotin. Núna veit ég þetta og þá er að bregðast við því. Ég verð bara að fá að gera það á mínum hraða, sættast við að hlutirnir þróuðust eins og þeir gerðu, þá gæti ég farið að elska hreyfinguna, hún er bara ekki orðin vinkona mín enn, það kemur. Það verður bara að vera í betra veðri, ég fæ verki og dofa í snjó og kulda. Og þannig er nú það. Það kemur vonandi vor með hækkandi sól. Þegar ég var lítil voru afmælin mín þannig að annað árið voru allir í stuttbuxum en hitt árið var snjóskafl fyrir hálfum stofuglugganum sem við holuðum að innan. Og nú á ég afmæli eftir tvo daga. Það er allavega ekki stuttbuxnaveður.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til Hamingju Með Afmælið!

Sæl Margrét Birna.

Á degi sem þessum er að sjálfsögðu
boðið til tónleikahalds og set ég link
á það e.h. um kl. 3.

(þeir sem standa á kvíabóli Kórónaveirunnar í sóttkví
og aðrir ættu að sperra upp eyrun!)

Hef litið á draumana, - set eitthvað
inn í kvöld eða nótt.

Njóttu dagsins!

Húsari. (IP-tala skráð) 21.3.2020 kl. 07:44

2 identicon

Sæl Margrét.

Hér er linkur á beina útsendingu tónleikanna:

https://www.youtube.com/watch?v=Dkt2DQr7otI

Húsari. (IP-tala skráð) 21.3.2020 kl. 17:04

3 identicon

Sæl Margrét.

Terry Miles sendir nú út í beinni um
alla veröld á YouTube.

Hann hefur getið sér gott orð í léttari
kanti tónlistar og vakið mikla athygli fyrir líflega
framkomu.

Vonandi að sem flestir létti sér lund og
njóti þess að fylgjast með útsendingunni.

Linkurinn er hér að framan.

Afsakaðu Margrét hvað þetta tafðist.

Húsari. (IP-tala skráð) 21.3.2020 kl. 17:18

4 identicon

Sæl Margrét Birna.

Ég lofaði þér að líta á draumana.

Þegar ég tengi mig yfir á þá
finn ég fyrir sligandi byrði,
eins og ég sé í fjötrum.
Ok þitt er leitt og byrði þín þung.

Þér hefur orðið æ meir litið í anda
liðinnar tíðar og engu líkara en eitthvert uppgjör
hafi orðið við það liðna og að losa sig og leysa;
brjóta þá hlekki sem hafa ef til vill hafa verið til
staðar og mátt og þurft að hverfa fyrir lifandi
löngu ef þess hefði verið nokkur kostur.

Í þessum skilningi þá hefur þú reynt og gert tilraun til
að byggja hús þitt að nýju og vilji verið til staðar
að láta það verða að veruleika.
Mér finnst samt eins og þetta hafi ekki allt farið eins
og vonir stóðu til í upphafi.

Eins og eitthvað hafi gerst sem breytti því og viðhorfi til þess.

Mér finnst á þessu tímabili hafir þú orðið fyrir
trúarlegri reynslu, eitthvað borið fyrir augu
sem flestum öðrum væri óskiljanlegt með öllu.

Allt er ljóslifandi fyrir augum þér og þú afgreiðir það
með þínu lagi; uppgjör þetta var, að mér virðist, óumflýjanlegt
til að eygja frelsi sem hægt væri að sætta sig við.

Þetta hefur allt gerst hratt og þér hefur raunverulega tekist
að hrista margt það af þér sem tengdist tilteknum persónum og
atburðum sem þér hefði þótt fyrr með öllu ómögulegt að gera.
Þar hefur þurft mikið til og alls ekki öllum gefið.
Að þessu leyti ertu sterkari en áður.
Örlög, ef til eru, geta verið ljúf og leið, sjáandi og blind.

Breytingar eru framundan og nærri í tíma.

Aðrar sem kynnu að tengjast dagsetningu eins og t.d. 15. júní.

Mér ber að taka þér vara við að taka nokkurt mark á því
sem bláókunnugir skrifa á vefnum, allt getur það verið
fullkominn þvættingur og vitleysa.

Ég óska þér alls góðs á þinni leið.

Með kærri kveðju.

Húsari. (IP-tala skráð) 22.3.2020 kl. 01:31

5 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Jahérna, Húsari, ég er orðlaus! Þekkirðu mig? Þú ert ótrúlega naskur, þú hefur áður ráðið draumana mína og haft rétt fyrir þér. Ég þakka fyrir falleg orð í minn garð og fyrir þennan skemmtilega link.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 24.3.2020 kl. 03:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband