Bótaþegi

Ég er byrjuð hjá sjúkraþjálfara eftir tveggja mánaða bið og enn lengri bið eftir því að ég kæmi mér til læknis. Ég tek mér stundum góðan tíma í hlutina. Ég hef verið í sjúkraþjálfun af og til í áratugi og venjulega hef ég verið spurð hvar mér er illt hverju sinni og svo er unnið með það. Ekkert heildstætt, bara skaðaminnkun enda eina greiningin krónísk vöðvabólga sem fylgir erfiðisvinnu og handavinnurugli. Mér hefur reglulega verið bannað að prjóna og stundum hlýtt því í smá tíma. 

En nú er ekkert hipsumhaps lengur. Nú veit ég fyrir víst að ég er ekkert feit. Bara alls ekki. Án djóks, þetta eru mest bólgur utan á mér sem valda lélegu blóðflæði, dofa og kulda. Lærin á mér eru grjóthörð, ekki af því að þau séu svo stinn heldur vegna þess að þau eru í stöðugri spennu þegar ég reyni að halda mér uppréttri. Þess vegna hef ég ekki stýringuna fyrir neðan hné, leiðslan er rofin. Þess vegna hitti ég ekki á tröppurnar og missi jafnvægið ef ég gleymi mér eitt augnablik. Ég er með innbyggðan ótta við hlaup, ég á nokkrar minningar um að flækja fótunum saman og detta, jafnvel á talsverðum hraða og það er VONT! Ég veit ekki hvernig hún ætlar að auka blóðflæðið en það verður ekkert minna en bylting ef ég fæ almennilegan styrk í hendur og fætur. Það verður kannski allt þetta ár, hvað veit ég? En allavega, núna borga ég eins og öryrki og þá loksins hef ég efni á þessu. Það er ekki alveg rökrétt, það hefði verið betra að fara í þetta fyrr og komast þá hjá örorku.

Ég er semsagt komin á örorku. Mér finnst alltaf dálítið skrýtið að segja frá því og dett gjarnan í útskýringar. Eða á ég að kalla það afsakanir? Meira bullið, ég er allavega ekki alveg komin þangað. Það er í rauninni ekkert skrýtið, að mér skuli finna það skrýtið þ.e.a.s. Það hefur þótt annars flokks síðan á landnámsöld, þegar landið var fullnumið og var skipt upp í hreppa.

Hrepparnir höfðu það hlutverk að vera öryggisnet fyrir íbúana, þá urðu til reglur um hvað þurfti til að mega ganga í hjónaband. Til þess þurfti að eiga ákveðna fjárhæð sem dugði fyrir heimilisstofnum, þ.e. að festa sér bæ og einhverjar skepnur til uppihalds. Bjartur í Sumarhúsum fór einmitt svona að, hann vann fyrir Rauðsmýrarslektið árum saman þangað til hann hafði safnað nógu miklu. Og þó ekki nógu miklu því að hann gat ekki eignast Sumarhúsin nema taka við Rósu og ganga í föðurstað barninu sem prinsinn á bænum hafði gert henni, þannig varð hann aldrei frjáls.

Það þurftu allir að leggja sitt af mörkum til að halda fólki á lífi. Flakk var bannað, þess vegna þurfti Sölvi Helgason að eignast sérstakt vegabréf, sem hann gat auðvitað ekki nema falsa það. Það átti ekki að þvælast um landið um hábjargræðistímann og láta svo aðra þurfa að gefa sér að éta. Það átti ekki heldur að liggja í bælinu og svíkjast undan. Eins og maðurinn sem komst ekki fram úr rúminu fyrir gáfum, það er skáldleg lýsing á alvarlegu þunglyndi.

Þessar reglur voru í fullu gildi í þúsund ár. Þær voru ekki afnumdar fyrr en Ísland var komið á fulla ferð inn í nútímann. En samt er eins og ekki hafi allir frétt af því. Það gengur alveg ævintýralega illa að afnema krónuámótikrónu-skerðinguna því að það þykir ekkert alveg sjálfsagt að öryrkjar éti eins og annað fólk. Ég borgaði sirka 6 milljónir í lífeyrissjóð þessi 40 ár sem ég var á vinnumarkaði en greiðslurnar sem ég fæ núna dragast frá örorkubótunum. Ég er of illa gefin til að skilja þetta, ég veit. En ég veit að þetta hjálpar mér ekki að bera höfuðið hátt sem öryrki.

Af hverju er ég að rausa um þetta? Jú, í kynningarviðtalinu hjá nýja sjúkraþjálfaranum mínum, sem snerist auðvitað um mína heilsu og það hvernig hægt er að ganga með sjúkdóm eins og vefjagigt frá unga aldri og herða sig bara meira og meira eftir því sem ástandið verður verra þangað til eitthvað lætur undan, þá fórum við auðvitað að tala um þetta hugarfar og hvaðan það kemur. Þetta er nefnilega sér-íslenskt. Við leyfum okkur ekki að verða veik og verðum sannfærð um að fólk geri sér það upp til að komast á bætur. Af því að það er svo mikill draumur. Við verðum kannski komin með þetta eftir önnur þúsund ár. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 109160

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband