Gláp

Ég var að horfa aftur á viðtal Loga Bergmanns við Margréti Pálu og það er eitthvað við það sem situr virkilega í mér. Þegar hún dró upp mynd af samfélaginu eins og það var þegar hún kom út úr skápnum, þá hoppaði ég til baka til þessara tíma. Ég hoppaði aftur til níunda áratugarins þegar allir voru í sömu snjóþvegnu gallabuxunum, með sömu síttaðaftan-klippinguna og með sömu gleraugun. Allir eins.

Ég reyndi mikið að vera eins og allir aðrir en um leið öfundaði ég alla þá sem þorðu að vera sjálfstæðir og fóru sínar eigin leiðir, það útheimti meiri kjark en ég hafði til að bera. Ég fór einu sinni í klippingu þegar allir voru með sítt að aftan og var þá búin að vera lengi að safna hári, enda vel meðvituð um að það hentaði betur mínu breiða andliti. En klipparinn spurði mig ekkert heldur renndi sér beint í ríkisklippinguna. Og það versta var ekki það að hann spurði mig ekki, enda var í tísku að hafa sítt að aftan og stutt í vöngum og því óþarft að spyrja. Nei, það versta var að ég hafði ekki rænu á að mótmæla og fór út með mitt kartöfluandlit þegjandi og hljóðalaust og fannst ég afskaplega valdalaus. Ég var ekki sátt, þess vegna man ég þetta, en ég var ekki farin að forma þá hugsun að ég gæti sjálf valið hvernig ég vildi líta út, röndótt eða rósótt eða guðmávitahvað. Enda þekkti ég engan sem ekki reyndi að ganga í takt. Málið var að aðlagast hinum, ekki skera sig úr.

Ég get rétt ímyndað mér hvernig það hefur verið ofan í kaupið að vera hinsegin ofan á allt annað. Í þessu botnfrosna samfélagi sem þekkti ekki skapandi hugsun nema af afspurn, þurfti að finna öllum einhvern stað. Ein vinkona mín vann í tískubúð og þekkti nokkra homma sem voru miklar tískufyrirmyndir. Það var eins og þeir væru fylgihlutir, það þótti svo töff að þekkja þá. Það voru hinsvegar aldrei neinar lesbíur í þessu hlutverki. Þær þóttu ekki töff og algerlega alls engar tískufyrirmyndir. Þær fengu bara gláp.

Og af hverju er ég að þessu blaðri? Hvar er tengingin? Tengingin er samfélagið og í rauninni hef ég alveg sérstakan áhuga á því hvernig samfélagið tekur utan um börnin sín. Þetta er hrein og klár félagsfræði. Það var eitthvað sem Margrét Pála sagði sem varð til þess að ég sá sjálfa mig í hópi þeirra sem dæmdu hana með augnaráðinu einu og héldu henni utan samfélagsins. Ég hefði nefnilega algerlega verið sá karakter, bara til að stækka mig í augum annarra. Sem segir talsvert um hvað ég þurfti að læra. Ég þurfti að gera mig að fífli nokkrum sinnum til að læra þá lexíu. Með alveg sama hugarfari og þegar ég lét ríkisklippinguna yfir mig ganga. Óljós óþægindatilfinning í maganum en ekki nóg til að gera eitthvað.

Þetta samfélag hafði nefnilega ekki pláss fyrir mig heldur og það var stórt verkefni að vinna upp skaðann af því, að læra nýjar og heilbrigðari aðferðir til að lifa af. Ég skrifaði meira segja grein í Moggann um það á sínum tíma, enda aldrei kunnað að halda mér saman. Og nú eru komin yfir fimmhundruð orð svo að hér set ég punkt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband