Bidda í tímavél

Í dag fór ég í tímavél og ferðaðist 20 ár aftur í tímann. Á þeim tíma vann ég við umönnun þroskaheftra á stað sem hafði verið rekinn með óbreyttu sniði í langan tíma og þar var ekki ferskleikanum fyrir að fara. Bæði íbúar og starfsfólk höfðu verið þarna áratugum saman og það mátti engu breyta. Mikið var talað um náungann og ekki á uppbyggilegan hátt. Ein kona var sérlega hávær og það þótti alveg eðlilegt að rúlla hjólastólnum hennar inn í kompu þar sem minna heyrðist í henni. Annað var eftir þessu.

Á þessum tíma unnu þarna þrjár stelpur um tvítugt. Ungu fólki fylgja ferskir vindar og það hefði mátt reikna með því að þær lyftu starfseminni upp. Kannski voru þær bara svona ungar og óþroskaðar, allavega urðu þær fljótt samdauna andrúmsloftinu og voru duglegar í baknaginu. Þær fóru reglulega til hjúkrunarforstjórans sem fannst ekki leiðinlegt að fá skýrslu frá þeim um frammistöðu einstakra starfsmanna. Ég var oftar en einu sinni kölluð á teppið til að svara fyrir gagnrýnina frá þeim og skipti þá engu máli hvað var satt og hvað ekki. Ein þessara stúlkna var mikil dúkka og vissi vel af sér, hún átti ríkan kærasta og var yfirleitt á dýrum bíl sem hann átti. Önnur djammaði allar helgar og fór síðar í áfengismeðferð. Hún var líka mjög hvatvís og hefur kannski bara haft ómeðhöndlað ADHD, allavega tjáði hún sig gjarnan án þess að hugsa og það sveið oft undan athugasemdunum hennar. Sú þriðja átti systur sem var mikill námshestur og fjölskyldustjarna og ég komst að því síðar að hún var mikið borin saman við þessa systur sína, kannski er það ástæðan fyrir því að hún var í sífelldri keppni við allt og alla, hún var rosaleg rægitunga og í þessu drungalega andrúmslofti var hún ótrúlega vinsæl því að hún hafði alltaf eitthvað slæmt að segja um náungann, það var næringin sem vinnufélagarnir þrifust á. Hún var mjög hæðin og það var oft hlegið þegar hún talaði um íþróttamenn sem flautaði í gegnum hausinn á, þeir hafa þá væntanlega verið heimskari en hún, eða hvað?

Í dag hitti ég þessa manneskju í veislu. Ég vissi af henni, hún er frænka bestu vinkonu minnar þannig að ég var ekki óviðbúin. Hún vissi hinsvegar ekkert af mér og ég held að hún hafi ekki þekkt mig, allavega sýndi hún engin merki um það. Ég var búin að búa mig undir að heilsa henni, það eru jú liðin 20 ár eða meira og fólk breytist gjarnan á þeim tíma. En ekki hún. Hún talaði alveg nákvæmlega eins og hún gerði þá. Hún talaði hátt og snjallt, hafði skoðanir á öllu og þær skoðanir voru ekki jákvæðar. Það voru íþróttamenn með flaut í gegnum hausinn og annað eftir því, hún notaði meira að segja sömu frasana og forðum. Hún hló mikið og mest að asnaskap einhverra dómadagsvesalinga sem hún gat endalaust talið upp, enda sennilega mestallt mannkynið vitlausara en hún, allavega að hennar mati. Ég hætti við að heilsa henni, ég bara hreinlega nennti henni ekki. Henni er guðvelkomið að haga sér eins og henni sýnist og hafa allar skoðanir milli himins og jarðar en hún hreyfir ekki við mér. Ég hef enga löngun til að breyta henni, þessi manneskja kemur mér ekki á nokkurn hátt við og ég skulda henni ekkert. Ég gekk í gegnum helvíti á sínum tíma þegar ég vann með henni en þeir tímar eru að baki. Á þeim tíma var ég ekkert farin að skoða mín mál, ég var bara hrædd manneskja, valdalaus og lítil og alveg ofboðslega full af skömm. Skömm sem var ekki síst vegna þess að ég þrítug skyldi láta þrjár tvítugar stelpur kúga mig svona gersamlega. Ég hefði alveg þegið að vera laus við þetta verkefni en eitthvað var mér ætlað að læra af því. 

Og það er þetta: Ég er ekki lengur hrædd við hana, hún er bara hlægileg. Og það er ekki hægt að vera reið út í manneskju sem er svona hlægileg. Hún ógnaði mér virkilega á sínum tíma þegar hún var stanslaust inni á gólfi hjá yfirmanninum, það var kreppa þá og mikið atvinnuleysi og ég varð að geta séð fyrir mér og borgað húsaleigu, ég hefði getað lent á götunni ef ég hefði misst vinnuna. Og það er enginn smá ótti.

En ég var heppin, alveg ótrúlega heppin. Ég hef fengið mörg erfið verkefni í lífinu en ég hef líka fengið verkfæri til að leysa þau. Ég var ótrúlega gæfusöm þegar ég var leidd inn í Al-Anonsamtökin og komst að því að ég var alin upp við alkóhólisma, líka að ég var alin upp við mjög alvarlegt einelti sem ég átti enga sök á en mótaði mig alveg gífurlega, ofbeldi mótar þá sem alast upp við það. Þá fór lækningarferlið í gang sem hefur nú staðið í tvo áratugi, þá lærði ég að horfa á þennan vinnustað úr fjarlægð og horfa á þessa bitru vinnufélaga mína með samúð og skilningi og fann að mér leið betur við að geta hugsað fallega til þeirra. Ég fékk tækifæri til að þroskast og nota betri aðferðir.

Ég hef alveg gert mín mistök í lífinu. Einelti er vígvöllur og ég hef prófað goggunarröðina. Ég hef prófað að vera rægitunga og veit á eigin skinni hvað það er hrikalega vont að vera staðin að verki, hvað það er mikið frelsi í því að segja alltaf satt og geta horft í augun á hverjum sem er og vita að það getur enginn komið í bakið á mér. Af því að ef maður ætlar að fegra sinn hlut þá er alltaf einhver sem getur komið upp um mann. Og ég hef alltaf dáðst að fólki sem er alltaf það sjálft og segir sinn hug hreint út því að það er valdamesta fólkið. Í dag fann ég þetta vald. Ég hafði vald til að ákveða hvort ég ætlaði að heilsa þessari manneskju eða ekki. Kannski þekkti hún mig og hafði ekki kjark til að horfa framan í mig, mér finnst frekar ótrúlegt að ég hafi ekki hringt neinum bjöllum hjá henni. Mér fannst gott að finna að ég hafði vald til að ákveða hvort ég ætti samskipti við hana eða ekki, ég er ekki viljalaus vingull og það er ekki hægt að snúa mér í hringi. Það eina sem tengir okkur tvær er þessi eineltisvinnustaður og þar sem hún er augljóslega enn á sömu slóðum þá hef ég ekkert við hana að ræða. Og það er gott að vita. Ég fékk þetta verkefni á sínum tíma og í dag fékk ég að vita að ég náði prófinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 12
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 109226

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband