Óvænt og afar ljúft

Ég hitti hana Krunku í strætó á leiðinni heim í gær og hún spurði hvort ég vildi koma með sér á tónleika úti í Viðey. Ég átti von á Drífu og krökkunum í mat og sá öll tormerki á því, fannst samt frekar spennandi að heyra í Svavari Knúti og Kristjönu Stefáns saman á tónleikum. En svo hringdi Drífuskottið til að láta vita að hún gæti bara stoppað til sjö, hún þyrfti að sækja Janus í afmæli. Þannig að Krunkulínan fékk þær gleðifréttir að Bidda væri á leiðinni á tónleika og yrði tilbúin til brottfarar klukkan sirka tuttugu mínútur yfir sjö.

Svo mætti Drífugengið, og hver birtist fyrstur annar en Janus Andri? Þá hafði afmæli fallið niður eða verið frestað og þau höfðu allan heimsins tíma til að stoppa í heimsókn hjá Biddunni. Nema hvað Biddan sjálf hafði ekki lengur þann tíma.

Og svo togaði pínulítið í, tilhugsunin um tónleika í Viðey. Ég varð bara að fá að heyra hvernig jazzsöngkonan og trúbadorinn hljómuðu saman. Og svo langaði mig bara að koma út í Viðey.

kristjanaSvo að upp kom mikill handagangur. Drífa blandaði augnháralit og setti á Bidduna og gaf svo krökkunum að borða. Ég þvoði mér um hárið um leið og ég mátti skola af augunum og þegar Krunka hringdi var ég með handklæði á hausnum og Drífa hálfnuð við að plokka. Á sirka þrem sekúndum sléttum náði ég að skipta um föt og mála mig og Drífa þurrkaði á mér hárið á meðan. Það mátti ekkert slóra, það þurfti að ná Viðeyjarferju. Krakkagreyin voru hálf gáttuð á þessu, þau eru vön að hanga heilu kvöldin yfir voddinu þegar þau koma hingað, aðalaðdráttaraflinu hennar Biddu frænkuWoundering

Svo að hér var hlaupið út í ofboði. Svo miklu ofboði að ég fann ekki húslyklana og ákvað að treysta á guð og lukkuna. Svo vafði ég trefli utan um hálsinn og stökk inn í bíl til Krunku og Siggu Dísar og uppgötvaði mér til skelfingar í bílnum á leiðinni að ég var ekki lengur með neinn trefil um hálsinn! Flotti, svarti glimmertrefillinn úr H&M, hvar var hann? Jæja, það var ekki hægt að gera neitt í því.

Og svo fór að snjóa. Og snjókoman gerði ekkert nema að aukast. Og þegar við renndum niður að Sundahöfn var allt orðið hvítt. Útsýnið var zero og við hefðum getað verið í litlu sjávarplássi þess vegna.

Við fórum um borð í ferjuna sem var yfirfull af fólki, allavega voru engin sæti laus. En við þurftum heldur engin sæti, siglingin var afstaðin nánast augnabliki eftir að við lögðum úr höfn. Snjókoman var eins og hvítur veggur og það gaf sérkennilega tilfinningu, eins og heimurinn hefði skroppið saman, mann langaði mest til að kúra uppi í sófa og fá heitt kakó. Afar notalegt og draumkennt.

svavar knúturÁ meðan við þrömmuðum upp að Viðeyjarstofu horfði ég stöðugt niður fyrir tærnar á mér, það var orðið fljúgandi hált og eins gott að fara varlega. Maður hefði kannski átt að horfa í kringum sig, ég geri það bara næst. En annars var ekkert útsýni hvort sem var.

Ég hef aldrei áður komið inn í Viðeyjarstofu. Ég var tólf ára þegar ég kom þarna í fyrsta og eina skiptið á ævinni, þar til í gærkvöldi, og þá var ekki byrjað að gera upp húsin. Þau stóðu bara þarna niðurnídd með neglt fyrir alla glugga.

Það var gaman að fá að koma þarna aftur. Eftir siglingu og síðan langa göngu í snjókomunni, komum við inn í hús og gengum beint upp á efri hæð þar sem tónleikasalurinn beið.

Efri hæðin er mjög hrá, þarna eru ópússaðir loftbitarnir og bera með sér aldurinn sem er, hvað, 250 ár eða fast að því. Afar viðeigandi staður fyrir tónleika af þessu tagi. Hálfgerður Tryggvaskálafílingur.

videy_kirkja_stofaKrunka og Svavar Knútur eru miklir vinir og ég hef áður farið með henni á tónleika með honum þar sem þau hafa spjallað frá sér allt vit. Og í sumar á Þjóðlagahátíð þar sem ég var með henni Önnu Siggu sem núna er með Liljunni í Sevilla, kom í ljós að þau eru líka miklir vinir. Það munaði engu að ég svifi á hann og heilsaði líka en auðvitað gerði ég það ekki, það hefði verið frekar kjánalegt.

Og Kristjana, minn gamli félagi úr kór F.Su. síðan seint á síðustu öld. Við heilsumst alltaf og föllumst í faðma með stæl og elegans en ég get samt varla sagt að við þekkjumst neitt lengur, ekkert náið allavega. Hvar eru nú allir sameiginlegu vinirnir okkar, Gummi Villa, Smári o.s.frv? Svona er bara gangur lífsins, maður kemur í manns stað.

Þannig að það var dálítið skrýtin tilfinning að vera á tónleikum með tveimur tónlistarmönnum í fremstu röð, sitja beint fyrir framan þau og vera svona óbeint tengd þeim báðum - og þó ekki. Svona er Ísland í dag, við þekkjumst öll, hér um bil, og þó ekki.

Tónleikarnir voru dásamlegir enda tvær flauelsraddir þarna á ferð og auðvitað hljómuðu þau vel saman, enda ekki svo ólík eftir allt. Þau eru í rauninni frekar lík, bæði svona frekar stæðileg á velli. Vonandi verða fleiri tækifæri til að heyra í þeim saman þó að umgjörðin verði kannski ekki alveg svona voldug.

Það snjóaði ennþá þegar við fórum heim og hálfskrýtið að sjá laufguð trén í garðinum heima svigna undan snjó. Og trefillinn minn góði, hann var það fyrsta sem ég sá þegar ég kom inn í garðinn, það var hálfpartinn það sem ég átti von á. Og lyklarnir voru heldur ekkert vandamál.

Takk, elsku Krunka fyrir dásamlegt kvöld, þetta var óvænt ævintýriKissing


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: www.zordis.com

Greinilega gott kvöld sem þú nældir þér í!

Hefði alveg viljað vera með í för .... Helgarknús á kjéddlinguna fínu og flottu!

www.zordis.com, 4.10.2008 kl. 14:15

2 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Það besta er stundum algerlega óvænt

Kveðja úr snjónum

Margrét Birna Auðunsdóttir, 4.10.2008 kl. 18:10

3 Smámynd: www.zordis.com

Þú gætir kanski gert einn engil fyrir mig í fallega hallargarðinum þínum!!!

www.zordis.com, 4.10.2008 kl. 18:25

4 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

 yrði að vera úr drullu því að snjórinn er allur farinn, í dag er rigning og slabb

Margrét Birna Auðunsdóttir, 5.10.2008 kl. 18:17

5 identicon

Takk sömuleiðis

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 6.10.2008 kl. 14:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 109238

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband