Það líður hratt

Á dögunum voru liðin TÍU ÁR frá því að þessi grein birtist í Mogganum.

Stundum er eins og forsjónin taki í hnakkadrambið á manni, ég hefði ekki trúað því fyrirfram að ég ætti eftir að skrifa blaðagrein um einelti, það tók mig nógu mörg ár að gera mér grein fyrir því að ég hefði verið lögð í einelti en ekki verið bara svona ómöguleg manneskja sem gat ekki hagað sér innan um fólk.

Þetta var fimm daga atburðarás:

Mánudagur: Bidda er að taka niður bréf fyrir forstjórann og hann á ekki orð yfir fallegum frágangi og málfari, sem og greindarfari ritarans, ég væri nú bara vel yfir meðallagi.

Þá hristi Bidda hausinn og sagði neinei, ég er ekkert svoleiðis. Rosalega klár í að taka hrósi, eða þannig.

Þriðjudagur: Bidda er stödd á Al-Anonfundi og fær það verkefni að leiða fundinn. Um hvað á ég nú að tala? Jú, best að rifja þetta upp þarna í gær, rosalega getur maður stundum brugðist hálfvitalega við þegar einhver hrósar manni. Ég átti þetta hrós algerlega skilið en kunni ekki að taka því. Það hitti líka á veikan punkt, það var mér viðkvæmt að vera minnt á að einu sinni var ég talin alveg sérstaklega gáfuð, það kom ekkert gott út úr því þegar ég var í barnaskóla.

Miðvikudagur: Jarðarfarardagur Guðrúnar Katrínar forsetafrúar og þar sem Bidda vinnur hjá opinberri stofnun þarf hún ekki að mæta í vinnuna fyrr en eftir hádegið. Í staðinn fyrir að taka rútuna frá Selfossi klukkan korter fyrir sjö gat ég sofið lengur og tekið þá næstu, klukkan hálf tíu. En það var samt óþarflega snemmt svo að ég kveikti á sjónvarpinu og horfði á jarðarförina þar sem hann Loftur vinur minn söng einsöng. Klukkan var orðin yfir ellefu þegar ég sleit mig frá sjónvarpinu, nú var ég að verða sein. Birtist þá ekki hann Frikki bróðir minn og hann skutlaði mér upp á veg, sirka tveggja kílómetra leið.

Og svo byrjaði Bidda að húkka. Fyrstu tveir bílarnir keyrðu framhjá en sá þriðji stoppaði. Í honum voru tvær mæðgur, sú yngri var að keyra mömmu sína til læknis í húsi beint á móti vinnustaðnum mínum, ég fékk því far heim að dyrum. Og svo fórum við að spjalla. Dóttirin var kennari og kannaðist vel við mig. Ég kannaðist líka við hana en gat ekki munað hvað hún hét. Hún fór að rifja upp hve mikill afburðanemandi ég hefði verið í íslensku og svo hefði ég líka verið góð í ensku. Þessi kona kenndi mér aldrei, hinsvegar minnir mig að hún hafi kennt einhverju af systkinum mínum. En þarna sat hún og taldi upp einkunnirnar mínar, 25 árum síðar. Ég sat þarna alveg eins og dæmd, þetta var fyrir mér staðfesting á því að ég hefði í rauninni verið umtöluð en ekki bara ímyndunarveik. Mikið rosalega hlýtur að hafa verið mikið talað um mig á kennarastofunni fyrst konan mundi þetta allt áratugum síðar.

Ég benti henni á að ég hefði talsvert verið lögð í einelti út af þessu. Og svona svaraði hún:

Jájá, ég veit það.

Það var semsagt ekkert leyndarmál.

Fimmtudagur: Bidda mætir í vinnuna á eðlilegum tíma, opnar Moggann og finnur þetta. Nú upphefst mikil leit, hvernig á að hafa uppi á þessari Kristínu. Ég hringi í Háskólann en það svarar aldrei. Tómt vesen. Á endanum gefst ég upp.

Föstudagur: Hausinn á Biddunni er einn suðupottur, það er aldeilis búið að hræra upp í honum þessa vikuna. Hvað á að gera? Það er bara eitt í stöðunni. Þessi stúlka er búin að stíga þvílíkt skref með grein sinni að núna verður að fylgja henni eftir, annars er svo hætt við því að þetta framtak renni út í sandinn. Þá verður greinin mín til og um leið og henni er lokið fer ég með hana upp á Mogga. Ég hefði ekki þolað við að hafa hana í tölvunni alla helgina, ég hefði kannski fengið bakþanka og eytt henni, annað eins hefur gerst. Hún ber það með sér að vera skrifuð í einni gusu en hún kemur líka algerlega frá hjartanu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá hvað er skrýtið að ég skyldi álpast hér inn núna og vá hvað ég man eftir þessum degi.

siggadisa (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 22:36

2 identicon

Góð færsla og frábær lesning.Þið eruð flottar.Ég þekki það að geta engan vegin þegið hrós.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 00:33

3 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Þú ert hetja. Kannast við að hafa verið beggja vegna borðsins, því miður.

Ævar Rafn Kjartansson, 6.11.2008 kl. 16:00

4 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Takk fyrir það. Því má svo bæta við að upp úr þessu urðum við Stína ægilega frægar, vorum í viðtölum út um allt og stofnuðum svo Eineltissamtökin sem stóðu fyrir vikulegum 12 spora fundum í mörg ár sem byggðust á þeirri hugmyndafræði að það skiptir ekki öllu hvað hefur komið fyrir þig, það eina sem skiptir máli eru afleiðingarnar. M.ö.o. það breytir ekki öllu hvort krakkarnir í skólanum níddust á þér eða pabbi þinn fullur eða timbraður. En svo fjaraði undan, fjölmargir aðilar hafa starfað að eineltismálum en því miður hver í sínu horni og það hefur enginn orku til þess til lengdar. Þannig að í dag virðist ekki vera margt í gangi fyrir fullorðna þolendur eineltis, ekkert sem ég veit um allavega.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 7.11.2008 kl. 11:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Nýjustu færslur

Færsluflokkar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband