Þrif

Ég skil ekki af hverju ég get ekki þrifið heima hjá mér. Af hverju ég lamast í hvert skipti sem ég ætla að grípa ryksuguna. Þrátt fyrir mjög augljósa þörf fyrir hreingerningu. Og þrátt fyrir hamingjutilfinninguna þegar hreingerningin er að baki, orkuna sem það gefur mér að eiga þetta ekki yfir mér og tilfinninguna um að vera með allt á hreinu.

Eins og heimili mitt er mér mikilvægt, ég er meira að segja búin að skrifa meistararitgerð um mikilvægi þess að eiga sér stað þar sem ég geymi hlutina mína og ræð hverjir mega koma í heimsókn. En svo horfi ég á ryksuguna og frýs, þetta er ekki rökrétt.

Það kviknaði á perunni áðan og ég held að ég sé með svarið. Þar sem ég sat í hægindastólnum og lék mér í símanum, í krossgátuleik sem gefur mér stöðugt ný verðlaun og er þannig mjög vanabindandi, og lamandi, þar sem ég sat í óánægju minni og orkuleysi og hélt stöðugt áfram að leysa einfaldar krossgátur og skildi ekkert af hverju ég þríf ekki, og í öðru lagi af hverju ég fer ekki út að ganga núna þegar veðrið leyfir það loksins, þá snöggkviknaði á perunni.

Þetta er bernskutráma sem ég hef aldrei unnið með. Þegar ég var lítil og kom inn á heimili vina minna þá kom ég í allt aðra veröld, þar sem voru fallegir hlutir og falleg framkoma heimilisfólks. Þar snerust þrifin um að sýna umhyggju og virðingu, það var sjálfsagður hlutur. Heima hjá mér var það gert sem ekki var hægt að fresta, eins og þegar amma lagði of seint af stað á klósettið og skildi eftir slóð í gegnum allt húsið. Mamma sá um það, ekki við krakkarnir, bara svo það sé sagt.

Þrifin á mínu bernskuheimili voru stjórntæki til að koma sér í mjúkinn hjá pabba, ég lærði aldrei á það stjórntæki en það gerði stóra systir mín. Pabbi var alla tíð mjög hrifinn af henni þar sem hún hélt uppi húsaga og þrifum og hafði fullt vald til að nota þær aðferðir sem hún kaus, annað en pjattrófan ég sem var alveg gagnslaus. Hann gaf henni einu sinni brennivínsflösku sem var til inni í skáp, flösku sem ég hafði áður reynt að sníkja en fengið nei, svo að þegar systir mín fékk já þá varð ég að bregðast við þessu óréttlæti.

Þarna vorum við orðnar unglingar. Ég hellti úr flöskunni yfr í kókflösku, fyllti hana svo af vatni og setti aftur inn í skáp. Fyllti svo kókflöskuna af kóki, þetta var sennilega 50/50 blanda, og fór á sveitaball. Ég var svo heppin að fá far með hljómsveitinni enda barnapía gítarleikarans, enda vissi ég að systir mín kæmi æðandi um leið og hún uppgötvaði svikin. Þannig að ég drakk hratt og náði að klára þennan yndisdrykk áður en hún mætti. Ég skil ekki ennþá hvernig ég fór að því.

Ég var bara 3-4 ára þegar ég byrjaði að hanga annars staðar en heima hjá mér og hélt því áfram allan uppvöxtinn. Ég tók því engan þátt, hvorki í að þrífa heimilið né hugsa um yngri systkini mín. Kannski hafa þau haldið að ég lifði einhverju prinsessulífi í allt öðrum heimi en þau en þau lærðu allavega vel að standa saman og styðja hvert annað, án mín. Og gera enn, undir dyggri handleiðslu stóru systur. Að vissu leyti skiljanlegt, hún var lengi eina kjölfestan þeirra.

Í staðinn fyrir að þrífa þá stakk ég af og lét mig hverfa. Þannig lítur það út í augum systkina minna. En í rauninni var ég að flýja barsmíðar elstu systur minnar sem að eigin sögn var bara að reyna að fá mig til að taka þátt. Ég þoldi bara ekki að láta ráðskast með mig og svaraði með því sem ég kunni. Og fyrir það fyrsta þá áttum við börnin alls ekkert að sjá um þetta. Í hvert skipti sem ég tók mér kúst eða uppþvottabursta í hönd þá upplifði ég ósigur, að vera kúguð til að gera þetta. Með barsmíðum sem ég upplifði sem mikið óréttlæti. Á sama tíma upplifði ég mikla sektartilfinningu, ég vissi að það þurfti að þrífa heimilið. Þannig að ég vogaði mér aldrei að berja systur mína til baka og stóð bara lömuð á meðan. Og stakk svo af.

Ef bara fullorðin manneskja hefði átt hlut að máli. Manneskja sem kunni að fá aðra til að vinna með sér. Ef heimilið okkar hefði verið griðastaðurinn sem allir hlúðu að í sameiningu. Það var bara ekki þannig. Eins og ég hef þráð að tengjast systkinum mínum þá hefur það ekki tekist því að til þess þurfum við að fara aftur í frumbernskuna og skoða okkur um. Með ást og umhyggju frekar en gagnrýni.

Líkaminn geymir allt en hugurinn ekki endilega. Það sem ég lærði í dag er að líkami minn er ennþá að bregðast við þessari andúð sem ég ræktaði svo ung með mér, bæði á húsþrifum, íþróttum og öðru sem ég gat ekkert í. Svo lengi sem ég læt það viðgangast þá er ekki við neinu góðu að búast.

Það er í mínum verkahring að vera fullorðna manneskjan sem þrífur heimili sitt af kærleik, sem umpottar blómum og þurrkar af. Það er hásumar og fólk á ferðinni, það er aldrei að vita hver dettur inn í kaffi á leið um Snæfellsnesið. Það er vont að dragnast með svona þungar hugsanir sem virka eins og andlegt graftarkýli, það er líka ekki meðvituð tilfinning heldur eitthvað sem líkaminn geymir.

Burt með þessa andúð, nú þegar ég veit hvaðan hún kemur. Nú ætla ég að setja mjög háværa tónlist í botn og ganga í verkið eins og hvítur stormsveipur. Enda elska ég heimili mitt og það á allt fallegt skilið. Líka fallega gesti. Enda þekki ég bara fallegt fólk.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og sautján?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Nýjustu færslur

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 41
  • Sl. viku: 810
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 661
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband