The eagle has landed

Það er eitthvað ótrúlega magnað við þennan stað sem ég bý á. Umhverfið er seiðmagnað í öllum sínum margbreytileika og það er ekki hægt að þreytast á því. Snæfellsjökull í vestri sýnir sig þegar hann er í stuði, hann er stundum falinn í mistri þó að himinninn sé heiðblár. Eldborg í austri skiptir um lit eftir árstíðum og rauðu kúlurnar í norðri skipta um lit oft á dag eftir sólar- og skýjafari. Þar er Rauðamelskirkja í agnarlitlu dalverpi og Gerðubergið og þar er mín uppáhalds gönguleið, það passar svo vel að taka einn útvarpsþátt á Gufunni á meðan og næra sálina og líkamann samtímis. Í suðri er Faxaflóinn og ég sé bara örmjóa rönd af honum, helst bara þegar glampar á hann. En ég heyri í hafinu þegar ég opna gluggana til suðurs. Og svo er það Hafursfellið, þetta tindótta fjall sem blasir við frá Borgarnesi og minnir á eitthvað ævintýralegt. Og það er eins báðum megin, bæði úr vestri og austri, hversu skrýtið er það?

En umhverfið væri einskis virði ef ekki væri fólkið. Ég hef búið á mörgum fallegum stöðum á landinu, útsýnið úr verbúðinni á Langeyri út yfir Ísafjarðardjúpið var dásamlegt og hjálpaði mér í gegnum ótrúlega leiðinlegt tímabil þar sem ég hafði engan til að tala við nema 18 ára drengi með áfengisvandamál og eyddi heilu ári inni á herbergi við að sauma út og hlusta á Gufuna og fannst ég vera 100 ára. Og útsýnið mitt úr Útgarði 7 á Egilsstöðum var magnað, allt frá Hellisheiði eystri til Snæfells, hvað ætli það sé í kílómetrum? Mér leið ekki alltaf vel þar en það hjálpaði alltaf að horfa út. Þetta er bara eitthvað sem nærir mig og ég get ekki án verið.

Já, hér er gott fólk. Hér er allskonar fólk með allskonar plúsa og mínusa, þannig er bara lífið, og þannig er ég líka. Og í svona smáu samfélagi verður hver einstaklingur svo stór. Ég er mjög hrifin af einstaklingsmiðaða náminu hér, það býður upp á svo margt skemmtilegt og ég er sífellt að prófa eitthvað sem ég hef ekki gert áður. Ég hélt aldrei að ég ætti eftir að starfa í grunnskóla, ég upplifði sjálf ömurlega grunnskólagöngu og kom mjög brotin út í lífið eftir það, sannfærð um að ég hvorki gæti né kynni nokkurn skapaðan hlut. Ég lærði bara að skammast mín fyrir mínar háu einkunnir sem hlutu að stafa af einhvers konar fötlun. Það var mikil vinna að leiðrétta þá skekkju og það var ekki fyrr en á Reykjalundi nú í vetur sem ég losnaði almennilega við hana. Það er ekki sama hvernig er talað við börn. Og það er kannski það sem ég get gefið krökkunum hér.

Nú hef ég fengið það staðfest að ég get verið hér eins lengi og ég vil. Skólinn er einn af máttarstólpunum í samfélaginu hér og hann er ekkert á förum. Það voru ýmsar raddir á sveimi en nú er þetta komið á hreint og það er mikill léttir. Ég hélt að ég yrði eins og krækiber í helvíti við að flytja í næstum 140 fm. íbúð en staðreyndin er sú að ég er búin að fylla hvert einasta herbergi og elska að hafa svona rúmt um mig. Ég þarf bara að fá mér fleiri bókahillur, ég á orðið svo mikið af bókum að ég þarf að flokka þær. Ég er með þrjú gestarúm og finnst ekkert veita af því, það er mér mjög mikilvægt að geta tekið vel á móti fólki. Ég er farin að baka súrdeigsbrauð eins og mér sé borgað fyrir það og svo er ég komin í kvenfélagið og farin að taka þátt í bakstri með þeim. Mér finnst bara gott að leggja mitt af mörkum, hverjum finnst það ekki? Og þetta er að vissu leyti gamall draumur; að búa í sveit þar sem ég fengi að nota höfuðið á mér en þyrfti ekki að vera í búskap eða fiskvinnslu. Mig dreymdi alltaf um að búa í sveit og eignast stóra fjölskyldu og elda og baka alla daga. Það fór ekki þannig en hér er ég í samfélagi sem ég tilheyri og hef hlutverk. Hér er meiri gestagangur en ég hef nokkurn tímann upplifað og ég veit ekkert betra en að eiga eitthvað gott í frystinum. Og það er ekkert svo langt að rúlla í bæinn ef eitthvað er.

Þannig að ég er bara sennilega komin heim. Sem er svosem alveg við hæfi þar sem ég sé héðan kirkjuna þar sem ég var skírð og hef alltaf haft vissar taugar til Kolbeinsstaða eftir að ég heyrði söguna, það er skemmtilegt að hafa fengið að taka þátt í því að vígja skírnarfontinn þar þó að ég muni eðlilega ekki eftir því. En svona er nú það. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband