Sitt lítið af hverju

Það er ekki til meiri slökun en góð spennusaga. Alveg satt. Kom heim eftir daginn með hausinn alveg soðinn og las í einum rykk Svik eftilr Lilju Sigurðardóttur. Meðfram því japlaði ég á heimagerðu sælgæti og drakk jólaöl svo að þetta var bara eins og aðfangadagskvöld. Og er núna eins og nýþveginn túskildingur, full af orku, búin að hreinsa hausinn og get farið að njóta lífsins. Það er að renna í bað og lífið er ljúft.

Það var mikið fjör hjá okkur í dag og verður aftur á morgun. Skipulagt jólaföndur og kortagerð á þar til gerðum stöðvum sem allir krakkarnir heimsækja eftir fyrirfram ákveðnu plani. Mikið fjör og mikið gaman eins og bera ver í desember. Á föstudagsmorguninn förum við í Rauðamelskirkju, litlu krúttkirkjuna sem ég fæ ekki nóg af að sýna gestum. Við ætlum að kveikja á kertum og tala um jólin, og það áður en fer að birta af degi.

Mér finnst þetta dásamlegt, ég hef ekki tekið svona mikinn þátt í jólaundirbúningi síðan ég var smákrakki. Ég hef samt ekki tekið fram jólaskrautið, læt bara nægja að kveikja á kertum í tonnavís. Það er gaman að prófa hluti sem ég hef ekki gert áður, ég hef til dæmis uppgötvað að ég er hinn fínasti leikstjóri!

Það er búið að vera dýrvitlaust veður hér og ég kynntist því í gær hvað austanáttin er stórhættuleg í Kolbeinsstaðahreppnum, það fór samt vel en vindurinn var næstum búinn að feykja mér út af á stað þar sem ég var alveg óviðbúin. Ég sem var að vonast til að ná heim á undan veðrinu. Ein samstarfskona mín lenti í því að vindurinn braut rúðu í bílnum hennar á næstum sama stað. En svona er Ísland og því lengur sem ég bý hér í sveitinni þá læri ég á þessa hættulegustu staði eftir vindáttum.

Um síðustu helgi var ég með vöggusettin mín og húfurnar á jólamarkaði í sveitinni, hjá vinafólki sem er að vinna í því að opna kaffihús með vorinu. Um næstu helgi verð ég þar aftur og á sunnudaginn hef ég tekið að mér að sjá um markaðinn, þar með talin jólatré og fleira sem ég kann ekkert á, ég fæ þá bara skyndinámskeið og svo eru þau flest pöntuð fyrirfram svo að ég þarf bara að finna nafnið. Ég er ótrúlega ánægð með að vera búin að koma handverkinu mínu í sölu, það mun seint gera mig ríka en gefur mér svo mikla gleði. Og svo gefur það mér tækifæri til að vera innan um fólk, það er það sem nærir mig mest og best.

Ég er í saumaklúbbi sem hittist reglulega, við erum flestar tengdar skólanum á einhvern hátt, bæði starfsfólk og foreldrar og jafnvel ömmur. Og þar er prjónað! Þetta eru stundum hálfgerðar fermingarveislur en stundum líka bjór og eitthvað létt. Það er algerlega nauðsynlegt að hittast og kjafta í notalegheitum og hlæja svolítið, og svo var ég víst einhvern tímann spurð hvort ég ætlaði ekki að vera með í kvenfélaginu, ég gæti vel verið virkari þar. Í fyrra tók ég þátt í jólasöng, bæði á aðventukvöldi og svo í jólamessu í Kolbeinsstaðakirkju, mér fannst eitthvað við það að taka þátt í messu í kirkjunni þar sem ég var skírð. Því miður get ég ekki tekið þátt í því núna og ég er með hálfgerð fráhvörf.

Ég finn svo vel hvað það hefur gert mér gott að vera á Reykjalundi í sjö vikur í haust því að ég er algerlega farin að dansa um húsið og hlaupa upp stiga og öll verk eru mér svo miklu léttari en áður, ég er jafnvel farin að syngja og tralla eins og enginn sé morgundagurinn. Upphaflega átti ég að fara á gigtarsviðið en samspil vefjagigtar og þunglyndis er þess eðlis að það var ákveðið að ég færi frekar á geðsviðið þar sem ég fékk mikla heildræna hjálp á sál og líkama. Þar komst ég að því að ég er gríðarleg félagsvera og einvera er mér bara skaðleg ef hún gengur úr hófi. Ég þarf á því að halda að geta hlegið og ég þarf líka að fá minn trúnó. En svo þarf maður að kunna að dvelja í sínum eigin félagsskap án þess að leggja á flótta, það er ákveðin kúnst.

En allavega, baðið má ekki kólna..


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 109160

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband