16.1.95

Ég man hvar ég var stödd, í leigubíl á Miklubrautinni á leiðinni til læknis þegar ég heyrði fréttina í útvarpinu, klukkan hlýtur þá að hafa verið 11. Ég man hvað ég fraus þó að ég þekkti ekki nokkra manneskju í Súðavík, það var bara óbærilegt að vita af öllu þessu fólki í snjónum. Frændi minn með snjónafnið átti 14 ára afmæli þennan dag og mér fannst leiðinlegt hans vegna að upp frá þessu yrði Súðavíkursnjóflóðið alltaf rifjað upp á þessum degi. En svo gaf hann dóttur sinni snjónafn síðar svo að hann hefur kannski ekki tekið það svo nærri sér. Og svo á alltaf einhver afmæli á hverjum degi, það er bara þannig.

Ári síðar flutti ég til Súðavíkur til að vinna í rækju. Ég var nýorðin stúdent og sló ekki hendinni á móti því að eyða einu ári í verbúð leigufrítt og borga allar mínar skuldir. Flökkukindin hún Bidda. Verbúðin var á Langeyri og það var hálftíma gangur í vinnuna. Gönguleiðin lá gegnum kríuvarp, framhjá kirkjunni og til vinstri handar voru nokkrir sumarbústaðir sem þjónuðu sem bráðabirgðaheimili. Þar beint upp af var Kofrinn og þar var engin snjóflóðahætta, þess vegna var ákveðið að flytja þorpið þangað. Fyrst voru sumarbústaðirnir hálf einmana en mjög fljótt fóru hús að skjóta upp kollinum. Það þurfti að láta hendur standa fram úr ermum því að þann 1. október urðu allir að vera fluttir úr gamla þorpinu. Það var líka annarskonar pressa á fólki því að þau sem ákváðu að byggja sér heimili í nýja þorpinu fengu húsið sitt bætt fullu verði en þau sem ákváðu að flytja suður fengu bætur miðað við markaðsverð í vestfirsku þorpi og stóðu því uppi hálf eignalaus.

Það var unnið á tvískiptum vöktum í Frosta og á kaffistofunni var mikið rætt um kanadíska verðlista, flísar, parket og svo framvegis. Það var það sem sameinaði fólk, það var verk að vinna og enginn tími fyrir neina viðkvæmni. Íslenskur töffaraskapur í hávegum hafður. Snjóflóðið var aldrei rætt og aðkomumanneskjan ég vogaði mér ekki að impra á því umræðuefni, mig langaði að vita hvernig fólkinu liði en var hrædd um að virka eins og fífl. En ég hafði mjög sterklega á tilfinningunni að áfallið ætti eftir að koma þegar allir væru fluttir í nýju húsin sín, þá fyrst yrði það áþreifanlegt hverja vantaði í hópinn. Það var kannski til marks um þetta tómarúm að þrátt fyrir að ég vann með þessu fólki í heilt ár og fór í kirkjukórinn og allt, þá var bara einhver veggur sem ég komst ekki yfir. Samt voru allir vingjarnlegir og brosandi, fólkið hleypti bara ekki að sér. Sem er afskaplega skiljanlegt. Þetta samfélag var virkilega bugað af ómeðhöndlaðri sorg sem enginn var tilbúinn að tækla.

Ég þekkti alla viðmælendurna í fréttunum í kvöld, bæði Frosta, Döggu og Barða. Ég þekkti líka dóttur hans Frosta sem var í Kastljósinu í gær. Það var ekki gott að heyra að hún hefði ekki átt kost á neinni sálfræðiþjónustu eftir þann hrylling sem hún gekk í gegnum en það sagði mér margt. Það hefði verið allt annað samfélag sem ég kynntist ári eftir flóðið ef fólkið hefði fengið einhverja hjálp en ekki látið taka þetta á hörkunni einni saman. Það er vonandi að það standi til bóta þó að seint sé. Kannski verður þá viðurkennt að sálin sé hluti af mannslíkamanum, hver veit?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband