Nýr kafli

Fyrir tveimur árum sirka fékk ég það í gegn með mikilli þrjósku að fá heimilislækninn minn til að sækja um vefjagigtargreiningu hjá Þraut. Henni fannst ekkert að mér nema væl, enda kom ekkert út úr neinum blóðprufum sem benti til þess að neitt væri að. Ég var ekki sátt þegar ég hringdi í Þraut og komst að því að hún hafði ekki sent neina beiðni, enda fannst henni ekkert að. Og sjálf var ég ekkert alveg viss, ég vissi bara að eitthvað var að og þar sem þessi þjónusta var í boði þá sakaði ekkert að prófa. Ég bjóst samt ekki við neinu.

En loksins komst ég að fyrir hálfum mánuði og niðurstaðan er skýr: Ég er með bullandi vefjagigt um allan líkamann. Hún lýsir sér meðal annars í dofa, kraftleysi og lélegri stýringu í útlimum, ég á heimsmet í því að hrynja niður stiga og tröppur því að ég hitti ekki á þær og hef tognað oftar en ég get talið upp, síðast krækti ég mér í ökklabrot fyrir tveimur árum en þá kom reyndar hálka aðeins við sögu. Ég þarf að gæta mín á skökkum gangstéttarhellum sem hafa gefið mér nokkrar flugferðir, eins og í fyrrasumar þegar ég var í sakleysi mínu og meintum yndisþokka á rölti með nokkrum góðum vinum meðfram Tjörninni og breyttist á augabragði í afvelta kú. Af sömu ástæðu skrifa ég helst aldrei glósur með penna, ég næ kannski þremur orðum á meðan tíu setningar fara framhjá mér. Sem þýðir að ég þarf að muna utan að og það er nú eins og það er. Ég veit að ég á ekki að prjóna en get ekki neitað mér um það, ég er bara dálítið mikið lengur en allir aðrir að klára stykkin.

Þrekleysið hefur reyndar komið talsvert á óvart hjá manneskju sem hefur hjólað jafn mikið og ég og þjálfað lungun með allskonar raddæfingum í öllum þeim milljón kórum sem ég hef sungið með. Það er gott að vita að það er ekki bara leti um að kenna.

Ég hugsa að þetta sé sennilega ástæðan fyrir öllum heilarannsóknunum sem ég fór í fyrir áratug út af dofa í hausnum, þá var útilokað ms og mnd og heilaæxli og ýmislegt fleira. Ég er búin að fara í ansi margar rannsóknir gegnum árin þar sem allt mögulegt hefur verið útilokað og aldrei neitt fundist að mér annað en meint ímyndunarveiki.

Og svo hefur þetta eina fyndna hliðarverkun sem heitir heilaþoka. Nemendur mínir síðasta vetur skemmtu sér oft þegar ég var að ræða við einhvern gorminn og kallaði hann nafni sessunautarins. Ég get bara ekki treyst því undir álagi að hugsun og talfæri vinni í sameiningu, ekki frekar en hugsun og fætur. Sem kemur sér stundum ansi illa þó að það megi líka brosa að því. Ég get allavega sagt eins og ljóskan sem hugsar ekki áður en hún talar: Ég er alveg jafn hissa og allir aðrir yfir því sem kemur út úr mér! Það má allavega segja að það sé ekki mjög hjálplegt í samtölum við annað fólk svona alla jafna.

Þetta er ekkert nýtt og hefur sennilega alltaf fylgt mér í einhverri mynd. Það hefur bara aukist með aldrinum og valdið mér sífellt meiri kvíða og áhyggjum. Það er ekkert grín að ráða sig til starfa og vita að vinnuþrekið er ekki eins og það ætti að vera. Þeim hjá Þraut finnst það afrek að ég skuli yfirleitt vera á vinnumarkaði. Ég er bara þrjóskupúki, og svo finnst mér tilhugsunin um örorku ekki mjög aðlaðandi ef ég á nokkurs annars kost. Það er merkilegt að íslenska ríkið skuli ekki hafa fengið á sig dóm fyrir mannréttindabrot vegna fátæktargildrunnar sem öryrkjar eru neyddir til að sitja í. En ég fer ekki út í þá sálma, það gerir mér ekkert gott.

En eins og læknirinn sagði við mig um daginn, þetta er eins og að byrja að skrifa nýjan kafla í bók. Ég á pláss á Reykjalundi einhvern tímann næsta vetur og fæ þá allsherjar klössun á sál og líkama, þetta er víst allt ein heild. Ég ætlaði að bæta við mig kennsluréttindum í haust en fresta því á meðan ég sinni þessu verkefni, tek það bara með fítonskrafti að ári. Og svo finnst þeim ég vera heldur þung og vilja hjálpa mér eitthvað með það, kannski ég verði bara fislétt að utan og innan eftir þetta allt saman, það skyldi þó aldrei vera. Það verður áhugaverður kafli.


Bloggfærslur 17. júní 2018

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 109206

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband