Söngur og skóli

Ég var að heyra að það stæði til að leggja niður Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands. Ekki veit ég af hverju en giska á að krakkarnir hafi ekki lengur tíma til að sinna áhugamálum eins og kórsöng eftir að framhaldsskólinn var styttur úr fjórum árum í þrjú, það er einu ári minna til að skila jafn mörgum einingum því að ekki má gefa afslátt á stúdentsprófinu.

Þetta er ótrúlega sorglegt ef satt er. Ég var orðin tvítug þegar ég kom í F.Su. og þekkti þar af leiðandi næstum ekki neinn. Skólinn var ekki kominn þegar ég kláraði gaggó og þar af leiðandi voru möguleikar mínir til náms ekki miklir. Ég átti ekki pening til að fara á Laugarvatn og vera þar í heimavist og hafði ekki kjarkinn til að leigja mér herbergi í Reykjavík og fara í skóla og vinnu þar. Ég vissi líka ekkert hvað ég vildi, ég var bara ömurleg í öllu sem ég tók mér fyrir hendur og var rekin úr allnokkrum vinnum. Þá var vefjagigtin sennilega farin að láta á sér kræla, það var ekki eðlilegt hvað ég var léleg í frystihúsvinnu þótt ég legði mig alla fram. Og það lagðist ekkert lítið á sálina.

En svo kom fjölbrautaskóli á Selfoss eins og himnasending og ég fór í hann þegar ég var tvítug. Þá gat ég allavega búið heima og það sparaði mér áhyggjur af því að hafa þak yfir höfuðið á meðan ég var að mennta mig. Ég þekkti engan, eðlilega, þar sem mínir jafnaldrar sem á annað borð fóru í framhaldsnám voru búnir að ljúka því og komnir eitthvert annað. Krakkarnir sem ég var með voru flestir 4-5 árum yngri en ég og minnstur hlutinn af þeim kom frá Selfossi, þarna blönduðust saman krakkar af öllu Suðurlandi sem áttu það sameiginlegt að þekkjast ekki mikið innbyrðis.

Þess vegna var kórinn svo frábær. Hann hafði verið stofnaður ári áður en ég kom í skólann með framtaki nokkurra ungra stelpna sem gátu ekki hugsað sér að það væri enginn kór við skólann svo að þær töluðu við mann og annan og fengu svo Jón Inga Sigurmundsson til að stjórna. Ég þekkti þessar stelpur, ég hafði verið með þeim í Stúlknakór Gagnfræðaskólans undir stjórn nefnds Jóns Inga og þarna hittumst við aftur. Því að auðvitað gat ég ekki sleppt þessu tækifæri til að komast innan um fólk.

Mér fannst ég alveg óskaplega gömul innan um þessa unglinga og var alveg að kafna úr feimni. Mér fannst þau öll svo hrein og saklaus í samanburði við mig, Hlemmarann sem hafði búið á götunni og verið rekin úr hundrað vinnum. En svo kynntist ég góðum krökkum og varð hluti af vinahópi sem hefur haldist fram á þennan dag. Því að auðvitað var þetta bara dæmigerður kvíði og enginn fótur fyrir því sem maður var hræddastur við. Og svo er tónlistin bara hrein og klár lækning við öllum andlegum meinum, að ekki sé minnst á tónlistarmenntunina sem fylgir því að syngja í kór. Að fá að kynnast Bach og Beethoven innanfrá að ónefndum Evert Taube og allri norrænu þjóðlagatónlistinni sem var svo fyrirferðarmikil hjá Jóni Inga. Ég kann allar raddirnar mínar ennþá!

Og upp frá því hef ég alltaf notað sönginn til að kynnast fólki og vera með. Ég fór í Háskólakórinn, þá fertug og með rúmlega tvítugum krökkum, og aftur tók það mig dálítinn tíma að hrista af mér kvíðann og feimnina og aftur eignaðist ég stóran hóp af kærum vinum sem heldur hópinn enn í dag. Þau komu hingað til mín síðast fyrir mánuði og við áttum frábæra helgi við púsl og spilerí og annað sem maður gerir. Það hefði ekki gerst ef ég hefði aldrei sungið í kór.

Kór er alltaf skemmtileg blanda af allskonar fólki. Í Háskólakórnum kom saman fólk úr öllum deildum, fólk sem hefði aldrei kynnst ef ekki hefði verið fyrir sönginn. Tveir af mínum bestu vinum eru með doktorsgráðu í eðlisfræði, hversu langt er það frá mér sem get varla lagt saman einn og einn? Og í Hinsegin kórnum var nú enginn smá kokkteill af frábæru fólki. Þar kynntist ég alveg nýrri hlið á dægurlögunum okkar, þau verða svo miklu dýpri og meira gefandi í kórútsetningum. Ég er núna orðin ólæknandi aðdáandi Coldplay eftir að hafa sungið Fix you og Scientist. Og eigum við að tala um Pink og Just give me a reason? Talandi um að kynnast tónlistinni innanfrá.

Þess vegna er það svo hræðilega sorglegt ef satt er, að Kór F.Su. hafi verið lagður niður. Ég vona virkilega að það sé ekki satt, að framhaldsskólanemendur í dag fari ekki á mis við það besta sem ég fékk að njóta. Og hver á þá að syngja Cum Decore, einkennislag Kórs F.Su. þegar ég var þar og er kannski enn, hver veit?


Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Júlí 2018
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband