Það sem ég ætla að verða þegar ég verð stór

Þetta blogg er orðið frekar hljóðlátt, sennilega er ástæðan sú að þegar ég kem heim á kvöldin man ég ekkert hvað ég var að hugsa yfir daginn svo að ég kveiki bara á sjónvarpinu og tæmi hausinn minn þar. Það er því við hæfi þar sem ég er komin í smá frí, að allt í einu tekur sig upp gamalt ritæði og hinar gáfulegustu hugsanir streyma frá mér eins og enginn sé morgundagurinn.

Ég er enn að reyna að komast að því hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. Ég er með eina og hálfa háskólagráðu en ég finn samt ekki fræðimanninn í mér. Ég sest niður með drög að texta en hann er kominn út um víðan völl áður en við er litið, ég er bara ekki gefin fyrir svona kerfisbundna hugsun. Ég vil frekar fá að spinna einhverja vitleysu og sjá hvert það leiðir mig. Hversu gáfulegt er það? 

Þannig kláraði ég BA-ritgerðina með handafli þrátt fyrir það vald sem ég hef á íslensku máli, að safna saman hugsunum mínum var eins og að smala köttum. Og hvað er þá unnið með því? 

Mér finnst alltaf gaman að lesa fræðilegar greinar þegar einhver annar er búinn að draga saman allar upplýsingarnar og komast að niðurstöðu. Bara ef ég þarf þess ekki og fæ bara að lesa og njóta. Er ég þá algjör haugur? 

Ég verð aldrei besti sagnfræðingur í heimi? Var allt þetta nám þá til einskis? Svona fyrir utan alla skemmtunina meðan á því stóð. Er það ekki dálítið ósanngjarnt að geta ekki bara notið þess að læra til að læra, þarf maður alltaf að verða eitthvað líka?

Ég veit hvenær mér líður best. Það er þegar ég er í skapandi og lifandi umhverfi. Það fann ég í gær á tónleikum með kórnum mínum, mikið sakna ég þeirra þrátt fyrir alla mína félagsfælni og kvíða. Söngur er sálubót.

Það er svo gott að geta hlegið og það var ekkert annað í boði þegar við Inga fengum úldna fiskisúpu á Horninu og fórum svo á Rósenberg þar sem Stebbi Jak söng hátt en drykkjulætin voru enn hærri. Við byrjuðum að líta á klukkuna þegar hálftími var liðinn en kláruðum samt tónleikana, ég ákvað bara að hafa í þykjustunni að við værum ekkert á Rósenberg heldur á Celtic Cross þar sem kjaftagangurinn var þesslegur, Stebbi var eiginlega bara eins og hver annar trúbbi sem enginn var að hlusta á. En þegar hann var að hætta þá bauð einhver 100.000 kall fyrir nokkur lög í viðbót! Kannski var þá einhver að hlusta.

Ég fer svo sjaldan til Reykjavíkur þessa dagana og þegar það gerist þá er ég með lista yfir allt sem ég ætla að gera, fólk sem ég ætla að hitta og svo framvegis. Eitt af því sem ég vildi alls ekki missa af var útskriftarsýning Listaháskólans og þangað fór ég þegar ég vaknaði í morgun. Ég fór svo oft á þessar útskriftarsýningar þegar þær voru haldnar í Laugarnesinu en Hafnarhúsið er auðvitað miklu skemmtilegra sýningarhúsnæði. Alveg frábær sýning og fjölbreytt og einstaklega skemmtilegt verkið hennar litlu frænku. 

Það rifjaðist upp fyrir mér hve mér líður alltaf vel á myndlistarsýningum, öll félagsfælni hverfur og ég er bara eins og fiskur í vatni. Kannski er félagsfælni bara eitthvað sem gerist þegar maður reynir að þvinga sig til að gera eitthvað sem er manni ekki eiginlegt, standa undir einhverjum viðmiðum sem aðrir setja manni. Ég hef dragnast með þann poka á bakinu að þurfa að standa undir þessum undrabarnsstimpli sem ég fékk á mig í æsku, að sýna fólki að það gæti eitthvað orðið úr mér. Ég vissi bara ekki alveg hvað. Og fyrir hvern? Skulda ég þetta einhverjum? Einhverjum sem hittir mig kannski á kassanum í Rúmfó og hristir hausinn yfir mér? Er það ekki snobb? Ég er allavega frekar sátt við að vera í starfi þar sem allt gengur sinn vanagang og ég þarf ekki að brjóta heilann um tilgang lífsins. Og svo gerist kannski eitthvað annað þegar það hentar mér. 

Mig langaði til að prófa ýmislegt þegar ég var yngri en hafði ekki kjarkinn, og kannski ekki hugmyndaflugið heldur. Þannig að ég fór þá leið að stunda kvöldskólanám meðfram vinnunni og sótti þangað mína andlegu næringu, en vissi samt ekki alveg hvernig ég gæti skapað mér framtíð með því. Sumir þroskast bara seinna en aðrir.

Ég á heima í skapandi greinum, það veit ég og hef alltaf vitað. Og þangað á ég að stefna. Nú þarf ég bara að setja kraft í vöggusettin mín, ég er að fara að fá fyrsta hollið úr prentun og það næsta er að verða klárt. Svo bíða tvö önnur á hliðarlínunni og þar sem ég verð í fríi alla næstu viku þá getur ýmislegt gerst. Kannski ég fari jafnvel að kíkja á meistaraverkefnið mitt. Og kannski ég komist þá að því hvað ég ætla að verða. Eða ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 109160

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband