Söngurinn og regnbogafáninn

Ég hef sungið í kórum frá níu ára aldri og hef sungið á fleiri tónleikum en ég get talið upp. Það er undantekningalaust alveg rosalega mikil vinna sem liggur að baki hverjum tónleikum og hvert smáatriðí er fínpússað upp til agna, alveg sama hvað er á söngskránni. Og einhver stemmning sem jaðrar við að vera heilög. Ég gleymi því ekki hvað ég var stolt þegar ég komst inn í kór Barnaskólans á Selfossi þegar ég var níu ára, að undangengnu söngprófi, og nú finnst mér ekki alveg eðlilegt að raddprófa svo unga krakka, þau eiga að sjálfsögðu öll að fá að vera með ef þau hafa löngun til að syngja á annað borð. Kannski var einhverjum hafnað þegar ég komst inn. En hátíðleikinn, maður minn lifandi. Og ég kann ennþá röddina mína í Födt er himlenes kongeson, fyrsta laginu sem ég söng í röddum. Hvor han dog er mild og skön og så videre. Það bara gerðist eitthvað undursamlegt þegar ég söng millirödd þarna í fyrsta skipti og heyrði hljóminn sem myndaðist þegar sópraninn kom með. Níu ára krakkastýri að syngja einfalt barnalag.

Þegar ég var þrettán ára tók ég þátt í frumflutningi eftir dr. Hallgrím Helgason og ég man hvað mér fannst það rosalegt að syngja eitthvað sem enginn hafði sungið áður, það var bara eitthvað svo stórt. Ó reynitrééé... Og ég kann það sko ennþá, ekki spurning, bæði alt og sópran. Ætli það hafi annars aldrei verið hljóðritað?

Svo komu aðrir kórar á eftir og ég nýtti mér það markvisst að geta haldið lagi til að komast innan um fólk. Ég á ennþá trausta og góða vini sem ég söng með í Kór FSu fyrir 30 árum. Og kirkjukórarnir þrír, ég söng til dæmis við vígslu Vestfjarðaganganna sem félagi í kirkjukórnum í Súðavík, það kitlar alltaf pínulítið þegar ég á leið þar í gegn. Og vinahópurinn minn í dag væri talsvert minni ef ég hefði aldrei verið í Háskólakórnum. Og nú er ég í Hinsegin kórnum og er búin að búa til útvarpsþátt um það.

Ég hef sungið Gloriu eftir Vivaldi tvisvar sinnum, bæði sem alt og sópran. Ég hef sungið African Sanctus og líka Messu í C eftir Beethoven. Ég hef líka sungið við ansi margar útskriftir, bæði sálma og ættjarðarlög og allt hvað eina. Það var eiginlega orðið frekar hversdagslegt að syngja á tónleikum.

Alveg þangað til á laugardaginn var. Við félagarnir í Hinsegin kórnum vorum mætt í Seltjarnarneskirkju, komin í kórgallann og búin að hita upp. Og hlökkuðum alveg óstjórnlega til að syngja prógrammið okkar fyrir fullu húsi, enda uppselt. Kórstjórinn okkar búinn að raddsetja nokkur laganna á alveg nýjan hátt og það var spennandi að fá viðbrögð við húmornum í Barbie Girl, að öllu hinu ólöstuðu. Bara gaman að fá að syngja dægurlög og hvíla sig á klassíkinni. Fallegur dagur, blár himinn og vor í lofti, þetta gat ekki verið betra. Hátíðisdagur.

Og þá kynntist ég því sem ég hafði aldrei kynnst áður. Einhver undarlega þenkjandi náungi gerði tilraun til að rífa niður regnbogafánann sem blakti fyrir utan kirkjuna og það þurfti að kalla til lögreglu. Allt í einu var þessi hátíðisdagur saurgaður, við vorum óþyrmilega minnt á að það er grunnt niður á óþverrann. Kórfélagar mínir kipptu sér ekki mikið upp við þetta, þau eru sennilega ýmsu vön, en ég hinsvegar varð algerlega miður mín, ég varð hreinlega klökk. Vegna þess að þessir kórfélagar mínir eru nákvæmlega eins og allir aðrir kórfélagar sem ég hef áður haft og eiga skilið alla þá virðingu sem til er. Engum dytti í hug að haga sér svona gagnvart Háskólakórnum, eða neinum öðrum kór yfirleitt. Og einmitt vegna þess hvað dagurinn var hátíðlegur og fullur af tilhlökkun þá voru allar tilfinningar galopnar og tilbúnar að taka á móti gleðinni. Það hvarflaði ekki annað að manni en að allir kæmu fagnandi. Meira hvað eitt skemmt epli getur eitrað út frá sér. Það myndaðist einhver alveg sérstök tilfinning á tónleikunum, einhver samkennd, sérstaklega þegar við sungum Ég er eins og ég er í magnaðri raddsetningu hennar Helgu kórstjóra. Og miðað við fagnaðarlætin þá heppnuðust tónleikarnir afskaplega vel.

Og svo fórum víð í partý á eftir, en ekki hvað! En ég fann mig ekki alveg, ég náði ekki gleðinni minni almennilega til baka. Ég bara datt inn í mig og náði mér ekki aftur út. Og endaði með að fara frekar snemma til að vera ekki eins og einhver dragbítur. Ég var eiginlega hálf hissa á því hvað þetta hafði mikil áhrif á mig, það er ekki eins og ég hafi aldrei rekist á hálfvita fyrr. En þetta hitti mig fyrir á viðkvæmum stað, það var ausið ógeði yfir eitthvað sem er mér algerlega heilagt. Ég gæti núna haldið ræðu um einelti og afleiðingar þess, en það á samt ekki við því að sem þolandi eineltis var ég alltaf viðbúin einhverju ógeði. Það átti ekki við á laugardaginn, ég var eins innilega óviðbúin og hægt er að vera og það er í vissum skilningi bara fallegt. Það er alltaf eitthvað fyrst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Knús á þig og takk fyrir tónleikana 

Ragnheiður Ásta Þorvarðardóttir (IP-tala skráð) 19.5.2015 kl. 08:32

2 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Takk Ragga mín og sömuleiðis kiss

Margrét Birna Auðunsdóttir, 19.5.2015 kl. 17:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 109145

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband