Bidda í híði

Í fyrsta skipti á ævinni hef ég notið þess að vera algerlega heima hjá mér í svartasta skammdeginu. Ég hef horft út um gluggana með hrolli eða eiginlega frekar bara sæluhrolli yfir því að þurfa ekki að fara út í hálkuna og slabbið. Ekki nema í mesta lagi til að skreppa út í búð þegar það þarf eitthvað að bæta á birgðirnar. 

Í gær byrjaði skólinn og ég er svo ótrúlega heppin að þessi eini einasti kúrs sem ég er í er kenndur eftir hádegi á miðvikudögum. Ég þarf semsagt ekki að vakna á morgnana. Hvílík hamingja!

Ég meina það, ég held að það sé engan veginn eðlilegt að vera á fleygiferð á þessum árstíma og haga sér eins og það sé ekki myrkur allt að 20 tíma á sólarhring. Ég hef svo oft sett undir mig hausinn og tekið þetta á viljanum og vananum og síðan ekkert skilið í því af hverju ég hef ekki getað hamið mig þegar kemur að átinu um jólin. Núna var þetta allt öðruvísi því að ég gaf mér tíma til að hlusta á líkamann og spyrja hvort mig langaði í eina smáköku enn og svarið var yfirleitt alltaf nei. 

Ég hef bara aldrei fundið eins vel fyrir því að ég þoli alls ekki þetta mikla myrkur. Kannski af því að ég hef aldrei hlustað eftir því áður. Ég var farin að finna allverulega fyrir orkuleysi, ég var algerlega hætt að svitna í leikfiminni í Heilsuborg en ákvað að vera ekki að skamma sjálfa mig fyrir leti, ég hafði bara ekki orku í meira, ég vissi að orkan kæmi með hækkandi sól. Kannski er þetta bara skammdegisþunglyndi en af hverju finn ég þá fyrst fyrir því þegar ég get leyft mér að sofa út alla daga og þarf ekki að þrælast áfram?

Ég hló svo mikið að grein sem ég var að lesa á Kjarnanum eftir Margréti Erlu Maack, ég hló af því að ég fann mig svo vel í þessum sporum. Með geimskipsrass sem kemst ekki í neinar buxur og hversu oft hef ég ekki keypt eitthvað of þröngt á útsölum af því að ég ætlaði að grenna mig - ég hef aldrei notað þær flíkur og oft er útsölufatnaðurinn það dýrasta í fataskápnum mínum, ég hef kannski hent 2000 kalli í peysu en ef ég nota hana ekki þá er það peningur beint í ruslið. Rauði krossinn er búinn að stórgræða á þessu rugli í mér og það er allt í lagi að styrkja Rauða krossinn en ég er búin að finna betri leið til að styrkja hann því að ég skráði mig sem sjálfboðaliða til að afgreiða í fatabúðum Rauða krossins á Laugaveginum. Kannski pínu hættulegt, eins og alki að ráða sig í Ríkinu, kannski mun ég kaupa hálfa búðina. En sennilega geri ég það ekki.

Allavega, ég er búin að vera að moka inn peningum undanfarið með því að nota nýja sparnaðarráðið sem ég lærði einhvers staðar: Ef peysa er á 50% afslætti og ég kaupi hana ekki þá er það 100% sparnaður og veskinu mínu blæðir ekki neitt.

En Margrét Erla er flott og kannski get ég orðið jafn flott og hún. Ég er allavega byrjuð í magadansi í Kramhúsinu. Kennarinn bannaði okkur í fyrsta tíma að horfa í spegilinn og rífa okkur niður, við eigum líka ekki að halda inni maga og rassi svo að það dúar allt og skoppar og við eigum bara að vera glaðar yfir því. 

Allavega, sólin er að hækka og í gær var bjart til hálfsex. Þetta er allt að koma. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband