Áskorun

Ég fékk skemmtilega áskorun fyrir nokkrum dögum og hún fékk mig til að hugsa. Merkilegt hvað maður hugsar alltaf ósjálfrátt þangað til eitthvað fær mann til að HUGSA. En svona er þetta.

Alveg síðan ég flutti suður hefur mig langað að komast í kór. Ég er búin að vera græn og gul af öfund út í gleðifélaga mína sem hafa fengið að syngja allskonar ótrúlega spennandi verk með Fílharmóníunni og Mótettukórnum en þar sem ég hef ekki formlega tónlistarmenntun þá er ég ekki gjaldgeng í þessa kóra, ég er bara alls ekki nógu klár í nótnalestri. Mig langaði alls ekki í kirkjukór, ég hef verið í nokkrum slíkum og fékk nóg af því að vera alltaf að syngja sömu sálmana með fáum undantekningum. Ég er líka búin að syngja lög eins og Sofðu unga ástin mín oftar en góðu hófi gegnir, mig langar bara í eitthvað meira krefjandi. Og svo er ég orðin afskaplega góðu vön eftir fimm ára veru í Háskólakórnum á sínum tíma þar sem við gátum treyst því að vera boðið í partý allavega aðra hverja helgi, þetta verður að vera skemmtilegt. Og svo langar mig ekkert í kór þar sem ég þekki engan og þarf að byrja alveg upp á nýtt. Þetta hljómar kannski flókið en maður lærir bara að vita hvað maður vill, og ekki síður hvað maður vill ekki, það er ekki minna um vert.

Þannig að þegar mér var boðið í raddprufu hjá Hinseginkórnum þá þurfti ég aðeins að hugsa málið. Skemmtilegt fólk og væntanlega eitthvað hresst á prógramminu, ég hef reyndar ekki hugmynd um hvað þau syngja því að ég hef aldrei heyrt í kórnum. En ég sem er svo líbó og mannréttindasinnuð, ég var næstum búin að láta það stoppa mig að einhver gæti haldið að ég væri samkynhneigð! Af hverju í ósköpunum datt mér það í hug? Af því að það er þessi ósjálfráða hugsun, þessi hugsunarháttur sem ég er alin upp við og ef ég gái ekki að mér og gæti þess að rækta þau gildi sem skipta mig máli þá get ég dottið í óskaplegan fornaldarhugsunarhátt, bara af einskærum vana. Og það er gott að vera minnt á það. Því að það er afskaplega vond hugmynd að láta það stjórna sér hvað einhver annar gæti hugsað. Ég veit hvað ég er og hvað ekki og svo geta áhugasamir bara sent mér fyrirspurnir. Djók.

Allavega, þessi kór er búinn að starfa í þrjú ár og mismunar engum á grundvelli kynhneigðar, þess vegna fæ ég að vera með. Ég nefnilega rölti mér niður á Laugaveg í kvöld, í húsnæði Samtakanna 78, ég bara tók þessari áskorun og nú er ég komin í kór sem lofar góðu. Og auðvitað átti Gleðikórinn sinn fulltrúa á staðnum, hana Siggu Rósu, þannig að ég verð ekki með eintómum ókunnugum. Þetta verður fjör.

Og af því að veðrið var svo himneskt í kvöld þá var mér boðið í göngutúr, nokkrar gleðitúttur söfnuðust saman heima hjá Karen á Kleppsveginum og svo labbaði ég á móti þeim eftir Sæbrautinni. Við gengum Laugaveginn og enduðum niðri í bæ á góðu spjalli, alltaf er það jafn notalegt og hleður batteríin mín. Það sem ég er rík að hafa dottið inn í þennan hóp fyrir rúmum áratug, þetta er orðið svo langur tími og við eigum orðið svo margar minningar saman. Börnin eru orðin um fimmtíu, bara á þessu ári eru tvö komin í heiminn og þrjú á leiðinni. Við höfum fylgst með flestum þessum börnum frá fæðingu og liggur við horft á þau verða til, allavega horft á foreldra þeirra byrja saman. Við erum tengdari en margir systkinahópar og það er mikið ríkidæmi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju, Margrét. Njóttu kórstarfsins!
Hef vitað þetta blómstra og þá sem taka þátt
í því, - og skemmtilega mannlegt allt saman.

Stutt var í kórstarfi undirritaðs og endaði er
kórstjóri gekk til mín og mælti af dauðans alvöru:

"Við leyfum ekki svona fíflalæti hér!" 

Kveðja,

Húsari. (IP-tala skráð) 12.8.2014 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tær ávöxtur

zzz

Höfundur

Margrét Birna Auðunsdóttir
Margrét Birna Auðunsdóttir

Konukind í leit að framtíð. Hef endalausa þörf fyrir að tjá mig og þess vegna dugir ekki eitt blogg. Annað er opið öllum en hitt er alveg prívat. Það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sér leyndarmál, helst mörg...

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • jákvætt ár
  • jákvætt ár
  • fólk
  • dannemor2
  • dannemor2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband